15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4276 í B-deild Alþingistíðinda. (3507)

11. mál, launajöfnunarbætur

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það er máske einkennilegt, þegar hér eru til umr. brtt. og frv., að það er máske ekki það sem ég ætlaði aðallega að höggva í, heldur orð hv. síðasta ræðumanns og þá kannske ekki hans orð eða skoðanir sem komu fram í hans ræðu, heldur það vandamál sem reyndar var tekið hér fyrir fyrr og rætt af ræðumönnum á síðdegisfundi í dag. En þar á ég við togaravandamálið.

Hv. síðasti ræðumaður sagði, ég held ég megi segja orðrétt, að vandamálið í sambandi við stóru togarana yrði ekki leyst nema með hækkunum til undirmanna. Ég verð þá að skilja þetta þannig hjá honum að laun sé ekki mjög meðmæltur því, að það komi miklar hækkanir til yfirmanna, alla vega ekki mikið fram yfir þær hækkanir sem koma til undirmanna. (EðS: Til sjómannanna, en einkum undirmanna.) Einkum undirmanna, gott og vel. Nú höfum við eitt fordæmi hér frá Alþ., í tíð hv. síðustu ríkisstj., vinstri stjórnarinnar, þar sem farið var að óskum eins eða tveggja stéttarfélaga yfirmanna um að lögfesta kröfur þeirra. Eftir að undirmenn höfðu átt í langan tíma í verkfalli, þá settu þessir yfirmenn á lögbann gegn því að skip færu úr höfn, þeir boðuðu verkfall stuttu eftir að þessum deilum lauk. Þá gengust m. a. þessi hv. þm. og flokksbræður hans og ráðh., þáv. hæstv. sjútvrh., fyrir því að kröfur yfirmanna voru lögfestar, m. a. á þann veg að í þeim kröfum var gengið stórlega á rétt undirmanna. Ég minnist þess að ég varaði þáv. stjórnarmeirihluta við því: Ef þið leikið þennan leik nú í þennan farveg, þá megið þið búast við því að einhvern tíma komi upp sú ósk og krafa, ekki aðeins frá útgerðarmönnum, heldur einnig frá undirmönnum, að kröfur þeirra verði lögfestar. Ef við ætlum að hækka verulega til undirmanna, ætlar hv. síðasti ræðumaður þá að standa með, ef við óskum eftir því fyrir hönd undirmanna á togurum, að við lögfestum þá kröfu og það verði í krónutölu sama upphæð veitt til yfirmanna? Þetta væri hliðstætt dæmi við það sem þessi hv. þm., flokksbræður hans og ráðh. og þáv. ríkisstj. gerðu á þessum tíma.

Mér finnst þetta vera meginmál, þegar við tölum um lausn togaradeilunnar. Nú er ég ekki að segja, að dæmið sé svo einfalt og langt frá því. Auðvitað vitum við að það eru margir aðilar innan yfirmannastéttarinnar sem eiga virkilega og vissulega verðskuldaða hækkun í dag fyrir þau auknu störf sem á þá hafa verið lögð. Auðvitað er það kjánalegt þegar menn, forráðamenn úr félögum undirmanna, fara að láta hafa eftir sér að það eigi að fækka um þennan og fækka um hinn, jafnkjánalegt eins og svörin sem koma frá þeim sem vinna við fjarskipti, að engin þróun hafi orðið í fjarskiptum á 50 árum. Það er jafnkjánalegt. Ég leyfi mér að benda á það sem hefur skeð í flugsiglingum. Þar voru loftskeytamenn og flugsiglingafræðingar fyrir nokkrum árum. Það er búið að leggja hvort tveggja embættið niður og flugstjórar tveir taka hvort tveggja að sér vegna tækninnar sem hefur rutt sér til rúms. Og við skulum ekki gleyma því, um leið og við verðum að hafa það í huga að stórar og dýrar vélar og tæki verða að fá þá þjónustu sem þarf um borð í skipunum. Það þarf enginn að segja mér að það hafi engin framþróun orðið á skipaflotanum frekar heldur en á flugflotanum. Þetta á auðvitað að ræða í fullri alvöru, en ekki í hálfkæringi á milli aðila sem á skipunum starfa.

Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri ef svo færi að það þyrfti að leysa þetta deilumál á þennan veg vegna þess að fyrrv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar gerðu það á sínum tíma. Mundu þeir þá kannske vera reiðubúnir núna til þess að setja lög á yfirmenn? Þetta er spurning sem ég leyfi mér að beina til hv. síðasta ræðumanns.