15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4278 í B-deild Alþingistíðinda. (3510)

209. mál, félagsráðgjöf

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ed. gerði nokkra breytingu á þessu frv., en því mun ekki hafa verið veitt athygli sem skyldi við 2. umr. í gær að niðurlag 3. gr. frv., eins og það er nú, er ekki í fullu samræmi við 1. gr., þannig að ég legg til að niður falli við 3. mgr. 3. gr. frv: „Slíku leyfi fylgir ekki réttur til að kallast félagsráðgjafi“. Vitaskuld hefur samkv. 1. gr. frv., eins og það er orðið nú, sá einn rétt til að kalla sig félagsráðgjafa sem til þess hefur leyfi heilbrrh. og hlýtur það þá að eiga að vera í fullu samræmi. Ég bar þessa breytingu undir frsm. heilbr.- og trn. og urðum við ásáttir um, að ég flytti þessa brtt. við frv., og töldum ekki ástæðu til þess að kalla nefndina saman út af jafnaugljósu atriði og þessu.