15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4280 í B-deild Alþingistíðinda. (3516)

224. mál, tónlistarskólar

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Hæstv. forseti. N. fjallaði um frv. á fundi sínum og mælir með því að það verði samþykkt með þeim breytingum sem á því voru gerðar í Ed. Í Ed. voru aðeins gerðar breytingar á 2. gr. og eru þær að mínu mati til bóta. Þær eru efnislega þessar:

1. Greiðsluskylda ríkisins á launum kennara að hálfu á móti sveitarfélögunum nær einnig til skólastjóra.

2. Launahlutdeild ríkisins skal greiðast mánaðarlega. Í upphaflegri gerð frv. var ekki kveðið á um hvenær ríkissjóður greiddi sinn hluta.

3. Sett voru inn ákvæði um skipan skólanefnda og aðild sveitarfélaganna að þeim.

4. Sett var inn ákvæði um tónlistarskóla sem reknir eru af fleiri en einu sveitarfélagi.

5. Opnuð er heimild fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins að veita starfsmönnum tónlistarskólanna aðild að sjóðnum, enda ekki annað réttlætanlegt en að tónlistarkennarar njóti að þessu leyti sömu réttinda og aðrir kennarar.

Ég mun ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, en fagna því að eindregin samstaða hefur náðst um þetta mál. Ekki verður sagt að almenn tónmenntun hafi átt upp á pallborðið á hinum neðri skólastigum og er þar lítils jafnræðis gætt miðað við ýmsa aðra menntunarþætti. Ef þær hugmyndir, sem fram eru settar í grunnskólalögunum um tónlistarnám, ná fram að ganga fer ekki á milli mála að úr þeim jarðvegi spretta fleiri einstaklingar sem hafa hug og dug til frekara tónlistarnáms. Tónlistarskólarnir stuðla eflaust að auðveldari framkvæmd nefndra atriða í grunnskólalögunum og með lagasetningu þessari verður þeim auðveldað að sjá nemendum fyrir áframhaldandi námi.