28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

44. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég hef því miður þáltill. ekki hjá mér. Ég vona að ég fái hana í hendur innan skamms, en mér er fullkunnugt um efni hennar.

Hv. flm. gat þess að þessi þáltill. hefði komið fram áður oftar en einu sinni, og hefur heyrst að henni hafi aldrei verið mótmælt, hv. þm. hafi ekki tjáð sig um málið. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta undarlegt fyrirbæri. Hér er um stórmál að ræða, vissulega stórmál. Þetta er hluti af einu mesta þjóðfélagsvandamáli okkar í dag. Því verður ekki neitað og ég hygg að um það séu allir sammála.

Tilefni þess, að ég stend hér upp, er ekki það að ég telji mig geta greitt þessari þáltill. atkv. Ég tel að hér séum við ekki að ráðast að þessu stóra vandamáli eftir réttum leiðum. Ég tel að hvers konar bann í þessu efni sé í rauninni uppgjöf. Ég vil að þjóðin öll og þá ekki síst alþm. taki þarna ábyrga afstöðu án þess að ganga það langt að banna hinum opinberu aðilum, sem við er átt hér, fyrst og fremst Alþ. og ríkisstj. og rn., algerlega vínveitingar.

Ég veit að það kann að hljóma sem innantóm orð að segja að við eigum að umgangast áfengi eins og siðaðir menn, og það kann líka að hljóma sem innantóm orð að ég telji það skyldu ábyrgra ráðamanna að ganga hér á undan með góðu fordæmi. Fyrst og fremst er það, sem ég vil leggja áherslu á hér, að aðilar sem alþm., ráðuneytisstjórar og þeir, sem vín hafa um hönd á opinberum vettvangi, gangi hér á undan með góðu fordæmi og kenni þjóðinni hvernig við eigum að umgangast áfengi. Það kann að þykja hlægilegt, en mér hefði fundist að það væri engin goðgá að í þessum efnum ríktu vissar reglur ef rn. býður til veislu. Þá mætti jafnan setja dæmið upp á þessa leið: Svona eru gestirnir margir, svona skulu flöskurnar vera margar, en ekki láta veikleika einstakra gesta ráða því hvort opinbert samkvæmi er hlutaðeigandi opinberum aðila til skammar eða ekki. Ég veit að það eru margir sem hrista höfuðið. En ég tel að hér sem víða annars staðar verðum við að líta í eigin barm, gera fyrst kröfur til sjálfra okkar, að við reynumst þeim vanda vaxin að hafa um hönd efni sem getur glatt okkur í geði, gert okkur góða máltíð notalegri og ánægjulegri, en gerir okkur ekki jafnframt að aumingjum, eins og oft vill verða þegar glösin verða of mörg og sjálfsstjórnin og virðingin fyrir sjálfum sér of lítil.

Ég viðurkenni að ástand í áfengismálum síðustu ár hefur fengið mig til þess að láta hugann hvarfla að því að við þyrftum að koma á banni, hugsanlega tímabundnu, eitt ár tvö ár, til þess að láta koma fram sönnun þess hvort það dugi eða ekki. Ég veit ekki hvort slíkt væri framkvæmanlegt og mér verður hugsað til þess að síðast er bann var sett á Íslandi varð reynslan óneitanlega sú að drykkjuskapur minnkaði stórum, en að sama skapi jókst hvers konar ólöglegt athæfi í því sambandi: brugg, smygl og svartamarkaðsbrask. Ég hygg að eins og aðstæður eru í dag, með margfalt greiðari samgöngum, greiðari leiðum til þess að útvega okkur þessi efni utanlands frá yrði enn meira um þessa óþokkalegu iðju, og ég tel miður ef það ástand ætti eftir að endurtaka sig.

Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð um þetta. Ég vil leggja áherslu á að við reynum að laga ástandið hér í áfengismálum eftir ábyrgum, siðmenntuðum leiðum án þess að þurfa að taka til þess að neyða fólk til að snerta ekki áfengi.

Það hafa oftar en einu sinni verið fluttar hér á Alþ. till., að því er ég tel raunhæfar till. um að gera eitthvað af viti í áfengismálum okkar, gera ráð fyrir hlutunum eins og þeir eru með því að taka tillit til vandamálanna og veita ákveðinn hluta af ágóða ríkisins af áfengissölu til áfengisvarna og í þágu ofdrykkjumanna. Mig furðar á að þetta skuli ekki hafa náð fram að ganga, svo sjálfsagt sanngirnismál sem það er í rauninni. Ég veit líka að skýringin á því að þetta hefur ekki komist á með ákveðinni prósentutölu af áfengiságóða ríkisins, hefur verið sú að þeir, sem með fjármálin fara, vilja ógjarnan missa þann spón úr askinum sínum. Þráfaldlega heyrum við með fullum rökum bent á að þessi ágóði af áfengissölu er ákaflega tvíhliða. Það hefur verið bent á hvílík ósköp af fjármunum fara í súginn vegna ofneyslu áfengis, að ekki sé minnst á hina hliðina, sem er þó öllu þyngri á metunum, allar þær hörmungar, böl og vandræði sem þúsundir heimila í landinu þurfa við að stríða vegna ofdrykkju.