15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4289 í B-deild Alþingistíðinda. (3523)

347. mál, skýrsla um Framkvæmdastofnun ríkisins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ragnar Arnalds kvartaði undan því að honum hefði ekki gefist tóm til þess að lesa þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram um starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar. Ýmsir hefðu nú mátt kvarta á undan honum, því að þetta er skýrslan um störfin hans, hann var formaður þessarar stofnunar allt árið og hann ætti að þekkja hvern stafkrók í skýrslunni og ekki þurfa að lesa hana. Og af því sem hann grunar að aðrir þm. þekki ekkert til þess arna og gefist ekki kostur á að kynna sér þetta með lestri skýrslunnar, þá hefði hann nú átt að setja á tölu um það hvað hún innheldur því að þetta kann hann allt saman. Hann stjórnaði þessu öllu, var formaður þarna allt árið og ég trúi ekki öðru en hann hefði getað flutt hér fróðlega skýrslu um starfsemina, ella hlyti að vera hægt að líta svo á að hann hefði ekki fylgst alveg jafnvel með og ástæða hefði verið til.

Hv. þm. Tómas Árnason hefur svarað þeirri fullyrðingu hv. þm. Ragnars Arnalds að það séu orðin tóm að um auknar fjárveitingar til Byggðasjóðs sé að tefla. Ég vil benda á í sambandi við útlán Byggðasjóðs 1974, sem voru 661 millj., að ekki var það allt ráðstöfunarfé sjóðsins. Það var ekki nálægt því svo mikið. Halinn af umframlánum umfram fjármagn Byggðasjóðs var 219 millj. í árslok, hvorki meira né minna, og slíkt er ekki gott búskaparlag og þyrfti helst að reyna á þessu ári að klippa af þeim hala. (RA: Það er alltaf hali á sjóðum.) Já, en hann er misjafnlega langur og óráðsíuhali var þetta.

Undan því er kvartað að ekki hefur tekist enn að leggja fram breytingar á lögum um Framkvæmdastofnunina. Það er að vísu rétt að það var hugmyndin að koma þeim lögum fram á þessu þingi. Að því er nú unnið og hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að frv. til l. um breyt. á l. stofnunarinnar verði lagt fram á hausti komanda. Það er ákvæði í stjórnarsáttmálanum, að lög þessi skuli endurskoðuð.

Það er rétt að það hefur verið nokkur hávaði í kringum þessa stofnun löngum. Sjálfstæðismenn voru mjög gagnrýnir á hana í upphafi og þau lög sem um hana voru sett. Þeim sýndist að þarna væri á ferðinni gríðarlegt bákn sem mundi eiga að vera yfirstjórnandi til lands og sjávar, hafa yfirstjórn fjárfestingarmála á sinni hendi, eins og mig minnir að lögin segi, og vöruðu því mjög við þessu, og þeir vöruðu einnig mjög við því sem fljótlega fór að ganga undir nafninu „pólitiskt kommissariat“. Ég álít að viðvörunarorð sjálfstæðismanna og hörð andstaða við þessi áform í upphafi hafi orðið til þess að stofnunin varð aldrei að þeirri stofnun sem okkur virtist að stefnt væri að í upphafi. Það var miklu hærra til höggs reitt heldur en síðar kom svo í ljós um árangurinn. Og ég hygg að það hafi byggst á þeirri reynslu sem stjórnendur stofnunarinnar fengu fljótlega eftir að hún hóf starfsemi sína, að menn hafi gert of mikið úr því, sem mönnum sýndist, að mundi verða um ofurvald að tefla í höndum þessarar stofnunar. Aðalatriðið er auðvitað framkvæmd laganna, en ekki lagabókstafurinn sjálfur. Honum má breyta og honum verður breytt, fyrst og fremst til samræmis við framkvæmdina sem verið hefur.

Rétt er það, að þröng er fjárhagsstaða hinna ýmsu sjóða atvinnuveganna. Ég vil þá benda á að um verulega hækkun ráðstöfunarfjár þeirra er að tefla, hinna stærstu, Fiskveiðasjóðs og Stofnlánadeildar landbúnaðarins. En þar sem hv. þm. Ragnar Arnalds sagði að hann vildi draga frá ráðstöfunarfé Byggðasjóðs þær 150 millj. sem áformað er að lána til vinnslustöðva landbúnaðarins og fleiri framkvæmda í landbúnaði, þá er hvorki rétt né sanngjarnt að draga þá tölu frá því að auðvitað hafa slíkar framkvæmdir líka verið áður á vegum stofnunarinnar, enda þótt við nú tökum þetta fastari tökum að því leyti að við viljum gera um það áætlun, heildstæða áætlun fyrir árið, hversu mikið fjármagn megi ætla til þess arna. Og í þröngri stöðu þess sjóðs og Fiskveiðasjóðs er ástæða til að Byggðasjóður geri sér grein fyrir því hversu mikið hann getur látið af hendi rakna til þess að þeim vegni bærilega, þessum þýðingarmestu atvinnuvegasjóðum. Þetta hefur hann nú gert, en í sjálfu sér er þar ekki um nein þáttaskil að tefla þar sem þessar framkvæmdir í sjálfu sér hafa ekki verið útilokaðar frá lánveitingu úr Byggðasjóði.

Þetta var aðeins það sem ég vildi láta koma hér fram. En það er mikill misskilningur ef því er haldið fram að hver höndin sé upp á móti annarri í þessum efnum varðandi þær lagabreytingar sem fyrirhugaðar eru. Sú endurskoðunarnefnd, sem skipuð var til þess að endurskoða lögin, komst að góðu samkomulagi og ég vænti þess að þegar upp verður staðið, þá verði um þetta samstaða, með hvaða hætti þessi stofnun verður upp byggð í framtíðinni.