15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4294 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Eins og fram kemur í þáltill. um vegáætlun sem hér er til umr., er áætlunartímabilið, sem áætlunin nær yfir, alls 4 ár, þ. e. árin 1974–1977. Nú var það hins vegar svo, eins og hv. þm. muna, að á s. l. ári tókst ekki að ljúka endurskoðun eins og til stóð áður en þing var rofið. Það var því ekki um annað að ræða á s. l. ári en að hafa hliðsjón af eldri áætlun. En með því að allt verðlag hafði verulega hækkað frá þeim tíma sem sú áætlun var gerð, varð ekki komist hjá því að fella niður einhverjar framkvæmdir, nema til kæmi ný fjáröflun til viðbótar því sem fyrir hendi var. Það varð því að ráði að vegamálastjóri hafði samráð við þm. hinna ýmsu kjördæma og ákvörðun var tekin á þann hátt að umtalsverðar framkvæmdir skyldu sitja í fyrirrúmi.

Varðandi árið 1974 vil ég í fyrsta lagi vísa til þess sem fram kemur í skýrslu hæstv. ráðh. um framkvæmdir á því ári, jafnframt því sem ég vísa til þess sem fram kom í framsöguræðu hv. hæstv. samgrh. við fyrri umr. um málið þar sem hann vék sérstaklega að framkvæmdum á árinu 1974.

Segja má að raunverulegar till., sem hér liggja fyrir af hendi fjvn., séu aðeins fyrir tvö ár og þó jafnvel í þeirri merkingu aðeins eitt ár eða fyrir árið 1975. Það er álit allra fjvn.-manna að ekki verði komist hjá því á komandi hausti eða alla vega áður en framkvæmdir hefjast í vegagerð á næsta ári, að þá verði að vera búið að endurskoða allt málið að nýju og jafnvel gera á tillögugerðinni verulegar breytingar frá því sem nú á sér stað. Ég mun ekki að svo komnu máli fara út í frekari umr. þar um, en víkja þá fremur að þeirri afgreiðslu n., sem hér liggur fyrir, og þeim brtt., sem n. hefur gert.

Eins og fram kemur í nál. fjvn., þá skilar n. sameiginlegu áliti, en þrír nm., þeir hv. þm. Geir Gunnarsson, Jón Árm. Héðinsson og Karvel Pálmason, taka sérstaklega fram í nál. að þeir telja að skerðing framkvæmda á árinu 1975 verði samkv. þáltill. um 28% miðað við framkvæmdir á síðasta ári. Þeir telja hins vegar að með tilliti til mjög mikilla hækkana á bensínverði að undanförnu og að þeirra dómi verulegrar skerðingar á lífskjörum sé að þessu sinni ekki unnt að hækka bensíngjald og afla Vegasjóði aukinna tekna á þann hátt. Þeir taka einnig sérstaklega fram að þeir hafi óbundnar hendur um að flytja og fylgja brtt. sem fram kunna að koma við afgreiðslu málsins.

Um þessa sérstöðu þeirra þremenninganna er ekkert sérstakt að segja. Ég tel hana ekkert óeðlilega frá þeirrar sjónarmiði og þeim ásamt öllum öðrum nm. vil ég þakka sérstaklega fyrir gott samstarf í n. við afgreiðslu þessa annars erfiða viðfangsefnis. Mér er fyllilega ljóst að í hinum ýmsu till., sem nm. vildu koma að í þessari vegáætlun, en ekki var unnt að mæta óskum þeirra að öllu leyti, eru margir viðkvæmir kaflar ekki síður en í sjálfu vegakerfinu. Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að þakka sérstaklega vegamálastjóra, Sigurði Jóhannssyni, og starfsmönnum hans fyrir góða fyrirgreiðslu, upplýsingar og ómetanlega aðstoð við n. við afgreiðslu málsins.

Hér er vissulega um stórmál að ræða. Allir eru sammála um að samgöngumálin eru lífæðar byggðarlaganna og því nauðsynlegt að áfram miði í rétta átt. Flestir munu þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir málum fram í tímann og til þess eru áætlanir gerðar. Í vegamálum er nú þegar komin nokkur reynsla hvað áætlunargerð snertir og ekki vil ég neita því að þau vinnubrögð hafi komið að gagni. Hitt er svo annað mál, af of mikið af öllu má þó gera. Í vegamálum held ég að við séum í þessum efnum komin út á hálan ís.

Til viðbótar við hina almennu vegáætlun eru í gangi tvær aðrar vegáætlanir, þ. e. fyrir Norðurland annars vegar og fyrir Austurland hins vegar.

Um Austurlandsáætlunina er það að segja að hún er takmörkuð innan ákveðins ramma. Þar er um ákveðnar framkvæmdir að ræða sem áætlunin nær til. Þegar því verki er lokið hefur Austurlandsáætlunin verið framkvæmd.

Varðandi Norðurlandsáætlun er allt öðru máli að gegna. Sú áætlun nær yfir þrjú kjördæmi. Hún er ekki afmörkuð á neinn hátt annan en að hún nær bæði til þjóðvega og landsbrauta á því svæði sem áætluninni er ætlað að spanna yfir.

Við í fjvn. höfum ekki hugmynd um hvað þeir menn ætlast fyrir í sambandi við ráðstöfun á fjármagni til vegaframkvæmda samkv. þeirri áætlun þegar við erum að ganga frá okkar till. Þessi angi af heildarmálinu er því í höndum Framkvæmdastofnunar og kemur því í veg fyrir að fjvn.- menn hafi í höndum nokkra heillega mynd af málinu fyrr en þá á allra síðustu mínútum áður en nefndin skilar frá sér till. til þingsins. Það er mín skoðun að þessu verði að breyta og Alþ. taki upp önnur vinnubrögð í þessum málum en nú hafa átt sér stað um nokkurt skeið.

Ef litið er á langt tímabil, t. d. 10 ár eða svo, þá kemur í ljós að því fjármagni, sem til skipta er til þessara mála, hefur verið mjög misskipt á milli kjördæma. Fyrir því kunna að vera gildar ástæður þó að mér séu þær ekki kunnar og mun ég ekki fara nánar út í að ræða það mál að svo stöddu.

Till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1974–77 fékk fjvn. til athugunar 9. apríl s. l. Nefndin hefur því haft málið til umsagnar í um mánaðartíma. Í fyrstu varð þó nokkur bið á því að n. gæti tekið málið til afgreiðslu, en það stafaði af því að ekki lágu fyrir verðtaxtar vinnuvéla og bifreiða, en verðlag á þessum vinnutækjum skiptir miklu máli um þann grundvöll sem miðað er við þegar verðleggja skal hinar ýmsu vegaframkvæmdir.

Um vinnubrögð er það að segja, að nú sem fyrr var sá háttur á hafður að þm. kjördæmanna ræddu við vegamálastjóra um þær framkvæmdir sem þeir settu fram sem óskir um forgang, að svo miklu leyti sem það gæti samrýmst því fjármagni sem til skipta kom. Um skiptingu á fé milli hraðbrauta, þjóðvega og landsbrauta er að mestu leyti stuðst við þær till. sem markaðar voru í þáltill. þegar hún var lögð fram. Samkv. till. fjvn. eru heildartekjur Vegasjóðs áætlaðar 175 millj. kr. hærri fyrir árið 1975 og 200 millj. kr. hærri fyrir árið 1976. Þessi hækkun er byggð á upplýsingum sem n. fékk frá Þjóðhagsstofnuninni, en þar segir í bréfi, sem n. barst, m. a. með leyfi forseta:

„Áætlun um tekjur af þeim tekjustofnum ríkisins, sem merktir eru vegaframkvæmdum, hefur nú verið endurskoðuð, m. a. í ljósi reynslu fyrstu mánaða ársins 1975. Þessi endurskoðun bendir til þess að áætlun fjárl. hvað þennan tekjustofn snertir muni fyllilega standast, en auk þess er nú unnið að endurskoðun þeirra reglna sem gilda um álagningu og innheimtu þungaskatts o. fl.“

Það er með tilliti til þessa sem talið er eðlilegt að hækka tekjuáætlunina sem þessu nemur. Eins og ég hef áður sagt, má segja að skipting á fé á milli þjóðvega og landsbrauta, eins og hún kemur fram í brtt. fjvn., sé till. þm. eða það sem þeir hafa fyrir fram komið sér saman um. Það kemur fram í brtt. frá n. að fjárveiting til fjallvega hækkar um 3.1 millj. kr. Þessi hækkun er í sambandi við ákvörðun þm. Norðurl. e. þar sem þeir hafa á þann hátt fært á milli fjárveitingar af þeirri upphæð sem í þeirra hlut kom af heildarfjárveitingu til þjóðbrauta og landsbrauta. Fé til fjallvega er hins vegar ekki skipt í vegáætlun. En til þess að það komi skýrt fram til hvaða fjallvega sú upphæð skal fara sem hér um ræðir, þá vil ég skýra frá því að það er í fyrsta lagi 2 millj. kr. í veginn hjá Svartárkoti, göng í Náttfaravík 600 þús. og í skíðahótelsveg 500 þús. kr.

Um till. á skiptingu á fé til hraðbrautaframkvæmda má segja, að að mestu leyti sé farið eftir till. vegamálastjóra þó að lítið eitt hafi verið hnikað til frá þeim eftir nánara samkomulagi við þm. í viðkomandi kjördæmum.

Um Norðurlandsáætlun er það að segja til viðbótar því sem ég hef þegar tekið fram, að hæstv. samgrh. barst fyrir tveim dögum till. Framkvæmdastofnunar ríkisins um skiptingu á fé til framkvæmda á Norðurlandsáætlun og fylgir bréf ráðh. með í nál. sem fskj. ásamt bréfi Framkvæmdastofnunarinnar. Í bréfi hæstv. samgrh. kemur fram að hann telur sig ekki geta gert rökstudda breytingu um aðra skiptingu fjárins fyrir árið 1975 en þar kemur fram og staðfestir því ráðh. þessa till. Síðan tekur rn. fram varðandi árið 1976 að það hafi fyrirvara um þá skiptingu á fjármagni fyrir árið 1976 enda þótt það hafi ekki á þessu stigi málsins á móti því að gengið verði út frá téðri skiptingu í vegáætlun fyrir árið 1976, þar sem sú áætlun kemur til endurskoðunar Alþ. áður en til framkvæmda kemur á árinu 1976.

Svo sem hv. þm. er kunnugt liggur nú fyrir Alþ. frv. til l. um happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurlandsvegar. Hvort það mál nær fram að ganga eða ekki á þessu þingi er ekki vitað, en úr því fæst væntanlega skorið í dag eða á morgun. Það hefur verið sérstaklega gagnrýnt, að ef til þess kemur að viðbótarfjármagn til vegaframkvæmda skapast á þann hátt, þá liggur engin till. fyrir um það hvaða kaflar á þessum umræddu samgönguleiðum verði byggðir fyrir það fjármagn ef til kemur á yfirstandandi ári. Ég heyrði það í umr., sem fram fóru í Ed. fyrr í dag, að einn af hv. þm. var að gera því skóna að því fjármagni, sem kæmi til í sambandi við þessa fjáröflun á árinu 1975 eða jafnvel á árinu 1976 eða í framtíðinni, mundi e. t. v. að verulegu leyti verða varið til byggingar á brú í Borgarfirði og það taldi bann vitanlega ekki ná nokkurri átt, til viðbótar því, sem hann tilkynnti þar, að hann mundi bera fram sérstaka till. um að stöðva þá framkvæmd, brúarbyggingu í Borgarfirði, Ég vil nú segja að það undrar mig að slíkt álit skuli koma fram hér á Alþ. í sambandi við þetta mál út af fyrir sig. Það eru skýr ákvæði í þessu lagafrv., sem fyrir þinginu liggur, varðandi happdrættislánið um Norðurveg og Suður- og Austurlandsveg, sem taka af öll tvímæli um hvernig því fé verður ráðstafað. Hér er því eingöngu um getsakir að ræða sem ástæðulaust er að taka mark á. En að öðru leyti má segja að hér sé um heimildarlög að ræða og með tilliti til þess efnahagsástands, sem nú ríkir, eru lítil líkindi til þess að heimildin yrði notuð á árinu 1975. En allt fyrir það telur fjvn. rétt að vera við því búin að svo geti farið. Nefndin hefur því leyft sér að flytja till. um svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða við þáltill.:

„Komi til frekari fjáröflunar til vegaframkvæmda á árinu 1975 skal því fjármagni varið til framkvæmda með samþykki fjvn.

Eins og þskj. ber með sér er að öðru leyti þáltill. um vegáætlun fyrir árin 1974 og 1975 öll full af upptalningu talna, vegheitum og öðru því sem við á í slíkri áætlun sem hér liggur fyrir. Ég sé ekki ástæðu til að tefja tímann með upplestri á þeim tölum sérstaklega, en leyfi mér að vísa til þess sem fram kemur í brtt. n. á þskj. 736 og á þskj. 768 og 779, en þar er um leiðréttingar að ræða vegna mistaka sem áttu sér stað þegar handrit fór í prentun.

Ég hef þá, herra forseti, í stuttu máli gert grein fyrir brtt. fjvn. við till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1974–77. Að sjálfsögðu er margt fleira hægt að segja um þetta mál sem ég hefði átt að víkja nánar að í þessari framsögu fyrir málinn af hálfu fjvn. En með tilliti til þess tæpa tíma, sem þingið hefur yfir að ráða ef haldið verður áætlun um að ljúka þingi á morgun eða fyrir hvítasunnu, þá mun ég láta þessi orð mín nægja að sinni. Ég vil vænta þess að hv. alþm. geti fallist á till. fjvn. og samþykki málið í heild þannig breytt.