15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4298 í B-deild Alþingistíðinda. (3529)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Við fyrri umr. um till. til þál. um vegáætlun rifjaði ég lítillega upp ummæli eins af þm. þáv. stjórnarandstöðu, hv. 2. þm. Norðurl. v., Halldórs Blöndals, en í ræðu hans um vegáætlun 23. apríl 1974 kom fram að svo kynni að fara að við afgreiðslu vegáætlunar á þessu ári, 1975, hefðu aðrir menn tekið við stjórn landsins, og sagði hv. þm. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er það von okkar, að næst þegar þessi vegáætlun kemur til endurskoðunar, verði hægt að auka framkvæmdamagn hennar verulega.“

Hv. þm. varð að von sinni. Nú hafa aðrir tekið við stjórnartaumunum. Og er þá ekki allt fengið? Felur sú vegáætlun, sem hér er til umr., þá ekki í sér verulega aukningu framkvæmdamagns? Þegar litið er á þær till. um framkvæmdir sem hér liggja fyrir, þá er ljóst að niðurstaðan hefur orðið þveröfug. Ég hélt því fram við fyrri umr. um þessa þáltill. um vegáætlun, að eins og hún var lögð fram fælist í henni um það bil 24.3% raunveruleg skerðing framkvæmda árið 1975, miðað við þær áætlanir um framkvæmdir sem fólust í þeirri vegáætlun sem lögð var fram í fyrravor og þm. Sjálfstfl. gagnrýndu mest. í þáltill., sem hér liggur fyrir, var, þegar hún var lögð fram, miðað við vísitölu vegagerðarkostnaðar 2691 stig og hafði í þeirri tölu verið gert ráð fyrir að til viðbótar verðlagi í jan., hækkaði leigugjald vinnuvéla um 15%. Síðan hefur komið á daginn að leigan hækkaði ekki um 15%, heldur um nálega helming og þegar auk þess hefur verið gert ráð fyrir öðrum verðlags- og kaupgjaldsbreytingum er nú talið að vísitala vegagerðarkostnaðar muni í júní á þessu ári verða 3339 stig, en hún nam 2094 stigum í ágúst s. l. Á þessu tímabili, þ. e. a. s. á því tímabili sem er næstum nákvæmlega stjórnartími hæstv. ríkisstj., hefur vísitala vegagerðarkostnaðar því hækkað um 59.5% þrátt fyrir að kaupgjaldsvísitala hafi verið bundin.

Varðandi tekjuhlið áætlunarinnar hefur nú verið gert ráð fyrir því að tekjur af þungaskatti hækki um 175 millj. kr. á árinu 1975, og þegar dæmið er gert upp og vegáætlunin kemur til lokaafgreiðslu er niðurstaðan sú samkv. upplýsingum vegamálastjóra að bein skerðing framkvæmda á þessu ári í nýjum framkvæmdum í vega- og brúagerð nemur 28% miðað við raunverulegar framkvæmdir á árinu 1974. Þetta svarar til þess að fjárveitingar í þeirri vegáætlun, sem hér á að fara að samþykkja, þyrftu að hækka um tæplega 40% til þess að þær hefðu sama raungildi og framkvæmdir á s. l. ári. Þessi niðurstaða er í afar miklu ósamræmi við vonir þess hv. alþm. sem við umr. um vegáætlun fyrir ári treysti mest á það að stjórnaraðild Sjálfstfl. mundi fylgja sjálfkrafa veruleg aukning framkvæmdamagns fjárveitinga í vegáætlun 1975.

Þegar svo hefur staðið á áður, eins og oft hefur viljað til, að fé hefur skort til nýrra framkvæmda þegar þm. hafa viljað viðhalda eða auka framkvæmdagildi fjárveitinga til vegamála, þá hefur æðioft verið gripið til þess ráðs að auka framkvæmdaféð með hækkun innflutningsgjalds af bensíni. Þetta kom til álita í fjvn. nú þegar þessi stórfelldi niðurskurður blasti við, en það varð niðurstaðan að sú leið væri ekki fær. Í nál. fjvn. skýrum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar þá afstöðu okkar með því að útsöluverð á bensíni hefur að undanförnu hækkað mjög verulega, en samtímis hafa lífskjör almennings verið stórlega skert vegna mikilla verðhækkana lífsnauðsynja jafnframt því að laun hafa ekki hækkað nema með óverulegum láglaunabótum. Áður hefur málum verið svo háttað að fyllilega hefur verið talið stætt á því að hækka verð á bensíni til þess að auka framkvæmdir í vegamálum. Þá hefur bensínverð jafnvel verið lægra hér á landi en í ýmsum nágrannalöndum, nú mun það hins vegar vera hvað hæst hér. Áður var enn fremur, a. m. k. hin síðustu ár, um það að ræða að almenn lífskjör fóru batnandi, kaupmáttur launa gagnvart almennum neysluvörum var að aukast, svo að þá var af þessum tvennum orsökum talið stætt á að hækka bensínverð. Nú horfa þessi mál hins vegar þveröfugt við. Bensínverð hærra en víðast hvar annars staðar og lífskjör almennings hafa verið stórskert. Við teljum því að af þessum sökum sé ekki unnt að reisa rönd við þeim áformum stjórnarflokkanna að stórskerða þær framkvæmdir í vegamálum sem flestir hafa þó talið of naumar fyrir, hvar sem litið er, hvort heldur er um að ræða að setja raunverulegt slitlag á vegi þar sem umferðarþunginn er mestur eða vegagerð á landssvæðum þar sem umferðin er að vísu minni, en lífsnauðsynlegar samgönguleiðir eru lokaðar langtímum saman og vegakerfið á allan hátt alls ófullnægjandi.

Þau fyrirheit, sem gefin voru í fyrra um stóraukinn framkvæmdamátt fjárveitinga til vegagerðar við afgreiðslu vegáætlunar 1975 þegar Sjálfstfl. hefði komist í ríkisstj., hafa brugðist herfilega. Í stað þess að draga úr þeirri frestun framkvæmda, sem gert var ráð fyrir í vegáætlun sem lögð var fram í fyrra, og auka stórlega framkvæmdir, er nú gert ráð fyrir að auka svo verulega frestanir framkvæmda og samdrátt framkvæmda til viðbótar við fyrri áætlanir um frestanir, að fjárveitingar þyrftu að aukast frá því sem hér er gert ráð fyrir, eins og áður sagði, um nær 40% til þess að einungis yrði gert ráð fyrir jafnmiklum framkvæmdum og unnar voru samkv. þeirri vegáætlun sem þm. Sjálfstfl. voru svo stóróánægðir með í fyrra.

Við umr. um vegáætlun í fyrravor hafði hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, þó uppi tilburði til að benda á aðra lausn til tekjuöflunar fyrir Vegasjóð en þá eina að Sjálfstfl. fengi völdin, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. lét sér nægja. Hv. fyrrv. samgrh. taldi að það væri hægt að auka tekjur Vegasjóðs af umferðinni. Honum þótti till. um framkvæmdir fyrir fé Vegasjóðs of lágar og sagði við 1. umr. um vegáætlunina í fyrra, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er enginn vafi á því að vonbrigði eru mikil hjá mörgum landsmönnum, sem hafa vænst mikilla framkvæmda í vegamálum, þegar það fréttist hvernig staða Vegasjóðs er og hvaða till. hæstv. ríkisstj. hefur fram að leggja í þessum málum.“

Ég minni á að þá var þó gert ráð fyrir um 30% meiri framkvæmdum en í þeirri vegáætlun sem núv. ríkisstj. er að láta samþykkja. En hv. þm. hélt áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég geri ráð fyrir því að hv. fjvn., þegar hún fer að skoða þessar till., þá kalli hún til sín hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. og yfirheyri þá rækilega, spyrji þá, hvort það sé virkilega þeirra meining að minnka framkvæmdir eins og lagt er til að gert verði samkv. þessu plaggi, Ég veit að það eru margir þm. sem trúa því ekki að það sé þeirra meining. Ég veit að það eru margir þm. sem telja alveg öruggt að hæstv. fjmrh. skili 400 millj. kr. sem hann fær í óvæntar tekjur í innflutningsgjaldi og söluskatti og vegna hækkunar á bensíni. Ég veit að það eru margir þm. sem telja þetta alveg sjálfsagt og reikna með að það þurfi ekki að toga þessa upphæð með töngum frá hæstv. ráðh.“ — Og síðar sagði hv. þm.: „Spurningin til þessara hæstv. ráðh. er, hvað það sé mikið sem ríkissjóður ætlar að leggja fram til viðbótar því sem er í þessari till. og hvort ekki væri unnt að minnka þetta bil verulega frá því sem það er, gera það svo lítið að það verði ekki tilfinnanleg vöntun. Á þetta reynir vitanlega.“

Þetta sagði hv. 1. þm. Sunnl. í fyrra. Ég hef nú beðið um og fengið upplýsingar um hverjar eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs af tollum og söluskatti af bensíni og bifreiðum. Samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar 14. maí s. l. er áætlað að auk sérstaks innflutningsgjalds af bifreiðum, sem rennur til Vegasjóðs, nemi tollar af bifreiðum á árinu 1975 1250 millj. kr. og tollar af bensíni 650 millj. Þessar upphæðir renni í ríkissjóð. Auk þess nema tekjur ríkissjóðs af söluskatti af bifreiðum 690 millj. kr. og af söluskatti af bensíni 980 millj. kr. á þessu ári. Samtals er áætlað að tekjur ríkissjóðs af tollum og söluskatti af bifreiðum og bensíni nemi á árinu 1975 3 570 millj. kr. Hins vegar nemur beint framlag úr ríkissjóði í Vegasjóð 380 millj. kr., greiðslur ríkissjóðs á afborgunum af lánum Vegasjóðs 220 millj., og greiðslur á vöxtum af lánum Vegasjóðs 410 millj. Þannig greiðir ríkissjóður vegna Vegasjóðs á árinu 1975 samtals 1010 millj. kr., en tekjur ríkissjóðs af tollum og söluskatti af bensíni og bifreiðum nema alls 3 570 millj. kr. Mismunurinn er 2 560 millj. kr. á árinu 1975. Og það er sérstaklega athyglisvert að gert er ráð fyrir að hækkun tekna ríkissjóðs af söluskatti af bensíni, hækkunin ein milli áranna 1974 og 1975, nemi 430 millj. kr. Hv. 1. þm. Sunnl. taldi allt að því sjálfsagt að verulegur hluti þessara tekna ríkissjóðs af sköttum á bifreiðar og bensíni rynni í Vegasjóð. Hann virtist jafnvel reiðubúinn til þess að beita töngum til þess að ná þeim frá hæstv. fjmrh. Þegar hins vegar er nú haft í huga að undir fjármálastjórn Sjálfstfl. hefur nú þegar þurft að fella fjárlög raunverulega úr gildi og að skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann hafa aukist svo stórlega að rekstur ríkissjóðs er í verulegum mæli byggður á nýprentuðum seðlum úr Seðlabankanum, þá má vera að hv. þm. séu að einhverju leyti annarrar skoðunar nú, og ljóst er að hag Vegasjóðs verður ekki borgið með þeirri aðferð sem efst var í huga hans fyrir ári.

Þáltill. um vegáætlun var vísað til fjvn. 9. apríl s. l., en nefndin í heild hefur nánast ekki fjallað um till. fyrr en nú síðustu dagana. Það fer ekki á milli mála að þótt allir séu af vilja gerðir til að sinna málinu sem best, þá er þetta ónógur tími fyrir svo viðamikið málefni, einkum þegar fjalla verður um svo viðkvæmt mál sem stórfelldan niðurskurð framkvæmda. Ég vænti þess að þegar kemur að endurskoðun þessarar áætlunar verði þannig á málum haldið að nefndin fái rýmri tíma til starfa. Ég tel það mikils virði að sem best samstaða geti tekist með nm. um till. og hef m. a. þess vegna viljað stuðla að því að nefndin geti staðið saman um nál., enda þótt ýmislegt beri á milli.

Ég lýsti þeirri skoðun minni þegar á fyrsta fundi n., að hverfa ætti frá þeirri aðferð sem höfð hefur verið við skiptingu fjárveitinga í hraðbrautir, þjóðbrautir og landsbrautir, þar sem einungis hraðbrautafé hefur verið tekið undan og skipt utan við þá ákveðnu prósentutölu þessara fjárveitinga sem fallið hefur í hlut hvers kjördæmis til framkvæmda við þjóðbrautir og landsbrautir. Ég lýsti þeirri skoðun minni að skiptingu þyrfti að haga á þann veg að auk þess fjármagns, sem færi til hraðbrauta, þyrfti að vera unnt að taka út úr þeirri skiptingu, sem fer eftir ákveðinni prósentutölu einstakra kjördæma, ákveðna upphæð til þjóðbrauta þegar um væri að ræða kafla á þeim hluta vegakerfisins sem telja mætti aðaltengilið um landið, þ. e. a. s. ákveða þyrfti hvað heyrði til þessum hluta vegakerfisins þar sem segja mætti að allir landsmenn hefðu sameiginlegra hagsmuna að gæta, hvort sem um væri að ræða hraðbrautir eða þjóðbrautir, ákveða sameiginlega heildarupphæð til þessa hluta vegakerfisins og skipta því, sem eftir er, milli kjördæma eftir þeirri hlutfallstölu sem menn hafa komið sér saman um á hverjum tíma. Jafnframt ætti að fella allar séráætlanir burt úr vegáætluninni, en bæta viðkomandi kjördæmum það upp með hærri hlutfallstölu, meðan óunnar eru framkvæmdir sem landshlutaáætlanirnar áttu að taka til. Að nokkru leyti eru till. nú við þetta miðaðar, að því leyti að auk fjárveitinga til hraðbrauta hafa tilteknar upphæðir í þjóðbrautir verið teknar undan þeirri skiptingu samkv. viðurkenndu skiptahlutfalli milli kjördæma sem gilt hefur.

Um úthlutun þessa mjög svo takmarkaða og skerta framkvæmdafjár, sem nú er um að ræða, eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir og fer sá ágreiningur ekki eftir flokkslínum, heldur fremur kjördæmahagsmunum. Ég fyrir mitt leyti er, eins og ég gerði grein fyrir í n., mjög óánægður með það að gert er ráð fyrir að framkvæmdum við Garðskagaveg frá Keflavík út í Garð, sem gert var ráð fyrir í vegáætlun að lyki á þessu ári, skuli nú eiga að fresta að meira en hálfu leyti eða fresta framkvæmdum fyrir um 53 millj. kr. Ég er ekki síst óánægður með þessa ráðstöfun vegna þess að á sama tíma eru teknar inn í vegáætlunina tugmilljóna króna framkvæmdir sem voru ekki á vegáætlun fyrr. Garðbúar, sem miðað við mannfjölda framleiða hvað mest útflutningsverðmæti allra landsmanna, hafa sætt sig við að ekkert fé er veitt til hafnarframkvæmda í Gerðahreppi, en þeir verða að flytja afla sinn frá Sandgerði og Grindavík og afurðirnar til Keflavíkur, svo að þörf þeirra fyrir viðunandi vegi er fyrir þá sök meiri en íbúa flestra annarra sjávarplássa. Ljóst er að núv. valdhafar vilja hafa fjárveitingar til vegaframkvæmda fyrir Garðbúa og aðra Suðurnesjamenn með þessum hætti og bregða þar með frá fyrri vegáætlun. Við þessu fá aðrir ekki gert. Ég hef engan sérstakan áhuga á því og það þjónar engum jákvæðum tilgangi að stilla stjórnarþm. kjördæmisins upp fyrir brtt. sem ég veit að yrði felld. Ég mun því láta það vera að bera slíka till. fram.

Þegar ljóst var að þessa mikilvægu framkvæmd átti að skera niður um meira en helming, beitti ég mér hins vegar fyrir því á fundi þm. úr Reykjaneskjördæmi að af þeirri upphæð, sem ætluð er til þjóðbrauta og landsbrauta í kjördæminu, yrði þá í staðinn varið fé til byrjunarframkvæmda við veginn milli Garðs og Sandgerðis þar sem aðalfiskflutningar til Garðs fara fram þótt fjöldi ökutækja, sem um hann fer, nái ekki þeirri tölu að hann teljist til hraðbrauta enn sem komið er. En í till. Vegamálaskrifstofunnar um ráðstöfun á fé til þjóðbrauta og landsbrauta hafði ekki verið gert ráð fyrir framkvæmdum við þennan veg. Ég tel það nokkra sárabót, þótt í litlu sé, að þm. kjördæmisins urðu allir sammála um að verja nokkru fé til þess að hefja þessar framkvæmdir, og ég vænti þess að ef eitthvert aukið fjármagn fengist til vegaframkvæmda við endurskoðun vegáætlunar, þá geti þm. kjördæmisins sameinast um að auka fjárveitingu til þessa vegar.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um vegáætlunina að þessu sinni, en ég vil þó gera í örfáum orðum grein fyrir afstöðu minni til till. sem lögð hefur verið fram þess efnis að taka að nýju upp innheimtu veggjalds á hraðbrautum.

Þegar veggjald var tekið af umferð um Reykjanesbraut, var ég þeirrar skoðunar að sú skattheimta væri fyllilega réttlætanleg og taldi alls ekki ósanngjarnt að þeir, sem nutu fyrstir og einir allra landsmanna þess mikla hagræðis og sparnaðar að aka milli byggðalaga á fullkomnum vegi með varanlegu slitlagi, greiddu til baka nokkurn hluta af beinum fjárhagslegum hagnaði af því að aka á slíkum vegi. Mér fannst það ekki ósanngjarnt að fjár væri aflað með þessum hætti til þess að unnt yrði að hraða framkvæmdum við slíka vegagerð þar sem þörf var mest og fleiri fengju þá að njóta ámóta mannvirkja. Þegar till. kom fram um að fella niður innheimtu veggjalds einmitt þegar næsti sambærilegur vegarkafli, Austurvegur, var tekinn í notkun, þá var ég þeirri till. um niðurfellingu veggjalds andvígur og mælti gegn henni. Mér fannst ekki stórmannleg afstaða þm. Sunnl., sem höfðu við afgreiðslu vegáætlunar áður samþykkt að innleiða slíkt veggjald og innheimta slíkt veggjald af Reykjanesbraut, mig minnir í 6–7 ár. En hvað um það, till. var samþykkt og innheimtu veggjalds hætt og mannvirki á Reykjanesbraut flutt þaðan.

Þegar veggjald var innheimt voru vissulega ýmsir erfiðleikar á því að fullnægja öllu réttlæti og þeir erfiðleikar hafa aukist með fleiri vegaköflum sem nú kæmu til álita með skattheimtu. En svo erfitt sem það hefði óhjákvæmilega reynst að halda skattheimtu lengi áfram eftir að Austurvegur og Vesturlandsvegur höfðu bæst við, sem ég hef þó talið þrátt fyrir allt eðlilegt að gera um sinn, þá eru nú eftir svo langan tíma sem liðinn er án skattheimtu hálfu erfiðara að hefja hana að nýju og ákveða hana á enn nýjum vegarköflum. Ég hef hugleitt þetta mál út frá því sjónarmiði að ég hef talið og tel að veggjald eigi í eðli sinn rétt á sér. En ég hef komist að þeirri niðurstöðu að úr því sem komið er sé ekki grundvöllur til þess að taka málið upp að nýju í þeirri mynd sem áður var a. m. k. Það gegnir um þetta mál í mínum huga nokkuð sama máli og um breytingu á stafsetningarreglum að því er varðar setuna. Ég sá ekki að nokkur ástæða væri til að fella niður setu og hefði greitt atkv. gegn því, hefði ég verið spurður. En svo ástæðulaust sem ég tel það hafa verið að fella þennan staf niður, jafn erfitt tel ég að breyta þar um aftur og væri andvígur því nú.

Ég er þeirrar skoðunar að þeir, sem beittu sér mest fyrir afnámi gjaldheimtu á fullgerðum hraðbrautarköflum, þm. Sunnl., hefðu betur tekið þá ákvörðun að fallast á gjaldtökuna, en beita sér jafnframt fyrir því að tekjur af veggjaldi af Austurvegi yrðu markaðar til framkvæmda við brú yfir Ölfusárósa. Ég er sannfærður um að Alþ. hefði unnað þeim þeirrar ráðstöfunar fjárins og þá stæði það hjartans mál þeirra betur nú en raun ber vitni. En þetta er liðin tíð og ég tel að í þessu efni verði hjólinu ekki snúið við, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Ég mun af þeim sökum, sem ég hef hér greint frá, greiða atkv. gegn till. um álagningu veggjalds.