15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4308 í B-deild Alþingistíðinda. (3531)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs vegna fréttar sem okkur barst í dag hingað niður í Nd. úr Ed. Þar var tilkynnt um till. sem útbýtt yrði í sambandi við það mál sem hér er til umr. hér í Sþ. Það var sem sé flutt framsöguræða fyrir þessari till. í Ed. Þessi till. mun vera á þá leið að fjárveiting til brúar yfir Borgarfjörð verði tekin af og sett í það að auðvelda mönnum að komast yfir fjöll á Norðurlandi og í gegnum fjöll á Austfjörðum. Fyrir þessu er flutt framsöguræða strax í Ed., og ég verð að segja að það er naumast að mönnum liggur á að koma fréttunum á framfæri, það er naumast mönnum er í mun að það fréttist heim í kjördæmin hve mikla umhyggju þeir beri fyrir sínu fólki.

1. flm. till. og sá, sem þessa framsöguræðu flutti er hv. þm. Ragnar Arnalds. Og það fylgir með í fréttum ofan úr Ed. að þá hafi sprottið upp hæstv. samgrh. og lýst því yfir að það skyldi nú ekki standa á sér að koma þeim upplýsingum til „réttra aðila“ að formaður Alþb. ætlaði að hafa af borgfirðingum brúna. Ég vænti þess að hér í salnum séu allir það reyndir stjórnmálamenn að þeir viti hvað átt er við með þessu. Það er lögð áhersla á að það sé formaður Alþb. sem flytur till. og þessir ,,réttu aðilar“, sem eiga að fá fréttina, eiga um leið að fá þá túlkun að Alþb. sé á móti því að borgfirðingar fái brú yfir fjörðinn.

Ég verð að gera aths. við þetta. Hv. þm. Ragnar Arnalds talar ekki fyrir þessari till. sinni í nafni Alþb. (Gripið fram í: Er hann ekki formaður?) Hann er ekki að tala í nafni Alþb. þegar hann lýsir yfir því að það eigi að taka af þessar 135 millj. og setja þær í aðrar framkvæmdir.

Ég ætla ekki að fara að taka þátt í þeim metingi sem hér kemur alltaf upp í sambandi við vegamál um það, hverjir hafi mesta þörf fyrir bættar samgöngur og hverjir verða að þjást mest á vegum síns kjördæmis. En ég verð að lýsa undrun minni yfir því sem kemur æðioft fram í ræðum, siðast núna rétt áðan, að það séu helgt ekki fjöll nema á Austurlandi t. d. Við höfum nú okkar fjöll á Vesturlandi og vegir um þau teppast alveg eins og um önnur fjöll, og ef á að fara að metast við austfirðinga út af þessari brú, þá viljum við vestlendingar benda á það að við höfum enn ekki fengið fjármagn til þess að bora gat á fjöllin og komast þannig í gegnum þau. (RA: En í hvaða kjördæmi er vegurinn yfir Holtavörðuheiði?) Hann er í kjördæmum okkar beggja, en ég verð að biðja hv. þm. afsökunar á því að ég er ekki alveg búinn að stúdera þá till sem ekki er búið að útbýta.

En í sambandi við það sem mátti greina í yfirlýsingu hæstv. samgrh. hvernig hann ætlaði að sjá til þess að fréttirnar bærust til „réttra aðila“, þá vil ég segja þetta: Mér finnst að þessi tónn komi úr hörðustu átt. Það hefur ekki staðið á okkur Alþb.- mönnum á Vesturlandi að láta hæstv. samgrh. njóta sannmælis í sambandi við þessa brú. Við notum hvert einasta tækifæri til þess að sannfæra fólk um að þessi brú sé fyrst og fremst dugnaði Halldórs E. Sigurðssonar að þakka. (Gripið fram í: Hvaða brú?) Brúin yfir Borgarfjörð. Hann hefur manna ötullegast að þessu máli unnið og við Alþb.-menn leggjum okkur í líma til að fólk skilji þetta. T. d. í Borgarnesi fyrir hreppsnefndarkosningarnar síðustu, þá held ég að allir talsmenn Alþb. hafi lagt á þetta sérstaka áherslu. Mér finnst þetta því koma úr hörðustu átt. Hæstv. samgrh., Halldór E. Sigurðsson, veit það mætavel og að ég styð hann að sjálfsögðu með ráðum og dáð í þessu brúarmáli og við allir Alþb.-menn á Vesturlandi. Það liggur jafnvel við að við tökum undir þegar hrifningarfyllstu framsóknarmenn ýja að því við okkur hvort það mætti ekki á staðinn fyrir að kenna brúna við Borgarfjörð kenna hana við Halldór.