15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4328 í B-deild Alþingistíðinda. (3573)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Frsm. meiri hl. (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti. Hv. Ed. samþykkti shlj. það frv. sem nú er hér til umr., en það fjallar um mjög mikið og viðkvæmt vandamál í okkar þjóðfélagi sem þarfnast skjótrar lausnar. Þetta er vandamál áfengissjúklinga og sá vandi að berjast gegn því að fólk verði að áfengissjúklingum. Því miður eru þessi mál ekki í því horfi sem skyldi, fjarri því. Það er gífurlegur fjöldi fólks sem hefur beðið mikið tjón beint og óbeint af völdum áfengisneyslu, af völdum áfengissýki, hvort sem hún er á hærra stigi eða byrjunarstigi. Það eru ekki aðeins þeir sjúklingar sjálfir sem í hlut eiga, það eru einnig fjölskyldur þeirra og heimili sem áfengissýkin bitnar á.

Það hafa verið fluttar margar ræður og skrifaðar margar greinar um þann gífurlega þjóðfélagsvanda bæði fjárhagslegan og annars konar, sem af völdum drykkjusýki hefur hlotist. Ótrúlegur fjöldi dauðsfalla í landinu stafar af áfengisneyslu, ótrúlegur fjöldi hjónaskilnaða stafar af áfengisneyslu og ótrúlegs heimilisböl ótrúlegs fjölda fólks stafar af áfengisneyslu.

Því miður er það svo að sjúkrahúspláss skortir svo mjög fyrir þessa hópa manna að ekki er ráðrúm til að veita þeim sjúkrahúsvist eins lengi og þarf til að ná verulegri heilsubót. Sömu sjúklingarnir koma því aftur og aftur út í þjóðfélagið án þess að hafa fengið viðhlítandi lækningu og sami vítahringurinn hefst á ný. Hér er um mál að ræða sem ég ætla ekki að fara neitt lengra út í að tíunda nákvæmlega eða lýsa. Þekkja allir hv. þm. vegna áhuga síns á þjóðmálum við hve gífurlegan vanda er hér að etja og hve sérstæður þessi vandi er í okkar þjóðfélagi, hve mikil neyð er fyrir dyrum margra vegna þessa, og þess vegna er nauðsynlegt að grípa til óvenjulegra og e. t. v. óþægilegra aðgerða til að leysa þennan vanda. Þess vegna er það að hv. 2. þm. Reykn., sem af löngu læknisstarfi sínu þekkir vel hvað hér er við að fást, flutti í hv. Ed. frv. um að stofna sjóð til aðstoðar við drykkjusjúka. Hugmynd hans var fólgin í því að af hverri þriggja pela flösku af sterku víni, sem Áfengisverslun ríkisins selur, skuli greiða gjald að upphæð 100 kr. og hlutfallslega af öðrum flöskustærðum. Flm. þessa frv. benti réttilega á að þarna væri um ótrúlega lítið tilfinnanlega skattlagningu að ræða sem sannast best af því, eins og menn muna kannske eftir úr fjölmiðlum í vetur að aldrei hefur meiri ös verið í Áfengisverslun ríkisins en daginn eftir að verð áfengis hækkaði. Þess vegna er það, að ég held að þjóðfélagsborgararnir almennt taki ekki nærri sér þessa hækkun sem til ríkissjóðs rennur.

Nú veit ég að það eru ákaflega margir þm. sem eru og það réttilega hikandi við að lögleiða markaða tekjustofna sem svo eru nefndir. Þetta hafa menn sagt hver við annan svo lengi sem ég man eftir, en alltaf hefur það samt öðru hverju gerst að menn hafa lögleitt markaða tekjustofna til þess að leysa aðkallandi vanda, létta undir með ýmiss konar heilsugæslu- eða mannúðarstarfi í þjóðfélaginu vegna þess að ríkissjóður hefur verið vanmegnugur til þess að leggja beint fram fé í þessu skyni. Þetta hljótum við að viðurkenna. Og hafi hann verið það áður, þá er hann það vissulega nú. En vandinn hefur ekki minnkað. Hann hefur aukist. Þess vegna er það sem ég tel að það sé rétt, ekki aðeins réttlætanlegt, heldur og rétt almennt og fyllilega rökrétt að leggja til þá fjáröflun sem hér er um að ræða. Þarna er um orsakasamband að ræða. Orsökin er látin bera kostnaðinn af afleiðingunni. Og af þessu gjaldi er áætlað, að í ríkissjóð komi 170–180 millj. miðað við þá áfengisneyslu, sem nú er í þjóðfélaginu í dag. Það er vissulega töluvert fé, en enginn skyldi þó láta sér detta í hug að sú upphæð leysti þann vanda sem hér er við að etja.

Heilbr.- og trn. Nd. eða öllu heldur meiri hl. hennar, sem í eru auk mín hv. 4 þm. Reykn., hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Vestf., leggur til að þetta frv. verði samþ., þó með einni breytingu sem við teljum að verði til þess að framkvæmd þessara mála verði einfaldari og komi að meira gagni heldur en okkur virtist eftir frv. í upphaflegri mynd þess. Við ræddum þessar hugmyndir um breytingar við flm. málsins, hv. 2. þm. Reykn., Odd Ólafsson, og hann var þeirrar skoðunar að rétt væri að við legðum til, að samþykkt yrði þessi breyting í Nd. þannig að hugmynd hans um fjáröflun yrði til þess að aðstoða drykkjusjúka á þann hátt að þetta fé rynni í Gæsluvistarsjóð.

Þegar lög voru sett um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúka var í 17. gr. þeirra laga sett ákvæði um stofnun sjóðs sem heitir Gæsluvistarsjóður. Hann á samkv. þeim m. a. að standa straum af byggingu ýmiss konar dvalarheimila og endurhæfingarstofnana fyrir drykkjusjúklinga, ýmiss konar læknismeðferð, ráðleggingarstöðvum, áfengisvörnum og fleiri tegundum starfsemi á þessu sviði. Einnig er sérstaklega tekið fram í 17. gr. þessa frv. að heimilt sé að verja ákveðnu magni af tekjum þessa sjóðs til þess að styðja stofnun dvalarheimila sem væru sjálfseignarstofnanir áhugamanna er settu slíkar stofnanir á fót, enda væru slíkar stofnanir undir eftirliti og viðurkenndar af heilbrigðisstjórninni. Það liggur í augum uppi að vitanlega þarf það að vera tryggt af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar að vistmenn á slíkum heimilum nytu fullkomnustu læknisþjónustu þar sem öllum nútímakröfum væri fullnægt til þess að bæta böl þeirra vistmanna sem þarna væri um að ræða.

Nú er það svo að menn skyldu halda að margra ára gömul lög, sem fælu í sér ákvæði um sérstakan sjóð í þessu skyni, leystu allnokkurn vanda. En sannleikurinn er sá að lögin eru komin talsvert langt frá sínum upphaflega tilgangi vegna þess að sú hlutfallstala, sem miðað var við þegar lög þessi voru sett, er orðin langtum, langtum lægri í dag heldur en hún var þegar lögin voru sett. Þegar lögin voru sett var miðað við að framlagið í Gæsluvistarsjóð næmi 2% af gróða Áfengisverslunar ríkisins. En þá var það svo sem oftar að hæstv. fjmrh. þáv. var andvígur mörkuðum tekjustofnum og mátti ekki heyra það nefnt að í þessu frv. væri markaður tekjustofn með þessum hætti, að það stæði 2% af gróða Áfengisverslunarinnar. Þess vegna var það lagt til fyrir frumkvæði og varfærni þáv. hæstv. fjmrh. að í stað þess að í lögunum stæði: „2%“ af áfengisgróðanum, sem hefði gert miklu meira, í var tilgreind ákveðin upphæð sem ríkisvaldið hefur síðan látið undir höfuð leggjast að auka í sama hlutfalli og ætlunin var í fyrstu. Þess vegna hefur þessi sjóður brugðist tilgangi sínum, og það er margsannað að ríkissjóður getur ekki náð þeim tilgangi sem þessum lögum var ætlað að ná, nema þá að stóraukin séu framlög ríkissjóðs í þessu skyni. Þetta eru verkefni sem ríkissjóði er skylt að sinna, og það gera ekki aðrir í nægilega stórum stíl. Þótt fjöldi áhugamanna starfi í þjóðfélaginu, þá hafa þeir takmarkað fjármagn til þess að sina þeim störfum sem þeir annars hefðu bæði getu og vilja til að sinna. Það, sem vantar því til að leysa þetta mál, er meira fjármagn sem aftur á móti mundi verða til þess að spara fjármagn á öðrum sviðum.

Ég vek enn athygli á því hvílíku gífurlegu beinu fjárhagstjóni það veldur í okkar þjóðfélagi að þessum málum er ekki sinnt sem skyldi. Það má um deila kannske hvort fjáröflun Gæsluvistarsjóðs ætti að vera í þeim stíl sem upphaflega var hugsað í lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, 2% af áfengisgróðanum. Sjálf var ég þeirrar skoðunar, en ég hef sannfærst um það nú í vetur að það er rétt, sem hv. flm. þessa máls í Ed. hefur bent á, að þessi fjáröflun verður sennilega enn drýgri til þess að greiða úr vandanum sem hér er við að fást.

Eins og menn sjá af því hvernig n. hefur klofnað, þá er hér ekki um flokksmál að ræða. Það er því svo, eins og raunar vera ber í öllum þingmálum, að þm. greiða atkv. eftir sannfæringu sinni. Þeir eru ekki bundnir af öðru samkv. stjórnarskrá landsins. Þess vegna heiti ég nú á hv. þdm. til fulltingis. Þetta er gífurlegt vandamál sem þarfnast lausnar. Og því lengur sem dregst að leysa þetta mál, því meira tjón verður bæði fyrir menn, eignir og þjóðfélagið í heild. Ég leyfi mér að vera svo bjartsýn, og þarf kannske enga sérstaka bjartsýni til, svo augljóst sem þetta mál ætti að vera, að vænta þess að hv. þdm. ljái þessum hugmyndum fylgi sitt. Þeir vinna þá að því að leysa úr gífurlegum vanda og létta um leið með vissum hætti undir með hinu opinbera að veita þessu fólki þá þjónustu sem það á vissulega rétt á, þjóðfélaginu er nauðsyn að veitt verði og ríkinu vissulega ber að gera. Þess vegna vek ég athygli á því að það er ekki um það að ræða að þeir peningar, sem um er fjallað í þessu frv., séu frá neinum öðrum opinberum sjóðum teknir. Það er gert ráð fyrir því að þessi upphæð bætist ofan á það áfengisverð sem nú er og mörgum þykir víst ærið fyrir. En ekki er það samt hærra en svo að ætíð rennur áfengið út í stríðum straumum.

Ég leyfi mér enn að skora á hv. þdm. að greiða atkv. eftir sannfæringu sinni, skilningi sínum og verða til þess að þetta frv. hljóti framgang í Alþ.

Ég vil bæta við einni röksemd enn. Hér er um að ræða mikið hugsjónamál flm. þessa frv. Það er um að ræða mál sem þm. hefur beitt sér fyrir af alefli og allir viðurkenna að beinist að því að leysa gífurlegan óleystan, vanræktan vanda. Ég vil láta í ljós þá skoðun að verði slíkt frv. fellt á Alþ. þá þýði það að áfram haldi það að fá byr undir vængi úti í þjóðfélaginu. Stundum er sagt að Alþ. sé afgreiðslustofnun ríkisstj. En það er nú svo að stjórnarskipun okkar er sú að ríkisstj. er þingbundin, en þingið ekki stjórnbundið. Þess vegna hlýtur ríkisstj. að framkvæma þann vilja Alþingis sem ég vona að komi á daginn eftir afgreiðslu þessa frv., þrátt fyrir það að menn séu e. t. v. ekki á einu máli í ríkisstj. um aðferð þessa til fjáröflunar. Það er ofurskiljanlegt, að menn séu ætið hræddir við það að ef ein lítil gátt er opnuð þá kunni að orsakast af því mikið flóð af alls kyns undanþágum. Hér er þó ekki um þess konar mál að ræða, að ég tel. Og hér tel ég alveg tvímælalaust að það sé Alþ. sem eigi að taka af skarið.