28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

44. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það er til gamalt máltæki sem segir að svo lengi megi brýna deigt járn að bíti. Það á við að verulegu leyti að því er varðar það sem hefur komið fram undir þessum umr. Ég fagna því að þau sinnaskipti hafa átt sér stað hjá hv. alþm. að þeir þora þó, þeir sem eru andvígir, að koma upp í ræðustól og lýsa skoðun sinni. Það er virðingarvert, þó að ég fallist ekki á þá skoðun.

Það er rangt hjá hv. 4. þm. Vesturl. að við séum að gefast upp í þessu máli, — það er slæmt að hann skuli vera farinn úr salnum. Sannleikur málsins er sá, eins og ég tók fram áðan, að við töldum og teljum að sú málsmeðferð, sem sú hv. n., sem fengið hefur þetta mál til meðferðar tvívegis, hefur viðhaft, sýndi að það væru einhver öfl hér á hv. Alþ., sem vildu beita þeim vinnubrögðum að þetta mál væri svæft. Má því segja að þessa nýbreytni okkar flm. megi skoða sem krók á móti bragði að því er þessa einstaklinga varðar.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. 4. þm. Vesturl. að það vinnst enginn sigur í þessu máli á stuttum tíma. En við teljum að með því að halda þessu máli vakandi og eins og nú hefur orðið reyndin á a.m.k. að fá um það umr. hér í þinginu séum við að sýna að hér er ekki um neina uppgjöf að ræða, siður en svo. Ég get a.m.k. lofað hv. 4. þm. Vesturl. því, að ég er ekki að gefast upp, hann má biða lengi eftir því.

Hæstv. forsrh. er farinn líka. Ég er nokkuð undrandi á því að hæstv. forsrh. skuli þykja brýn nauðsyn til þess bera varðandi þetta mál, sem búið er að vísa tvisvar til n. og liggja tvö ár í n., að taka nú upp till. hér á Alþ. um að vísa því til n. eftir það sem á undan er gengið hér fyrr í dag. Það hefði verið miklu frekar ástæða til þess af hæstv. forsrh. að taka upp till. þess efnis að vísa hinu málinu til n., sem var hér til atkvgr. fyrr, — máli, sem er í fyrsta skipti fyrir þinginu, og var vitað fyrir fram að var þó talsvert deilumál. Hér var það ekki vitað. Enginn hv. alþm. hafði undanfarin tvö ár talað gegn þessu máli. Það var því engin sérstök ástæða til þess af hæstv. forsrh. að taka upp till. þess efnis að vísa málinu til n., það var miklu frekar í sambandi við hitt.

Ég vil segja það um brtt. hv. 2. landsk. þm. að ég tel að hún eigi að koma til viðbótar, vera viðbót við þá till., sem hér liggur fyrir. Ég tel það ósköp eðlilegt. Með þeirri málsmeðferð tel ég mig geta staðið að slíku.

Hvað meinar hv. 2. landsk. þm., núv. form. Alþfl., þegar hann segir að till. sé góð út af fyrir sig, en hún nái skammt? Er þetta ekki sú aðalröksemd, sem menn heyra oft og tíðum þegar tekin eru upp svona mál, að það borgi sig ekki, þetta sé svo lítið skref að það taki því varla að vera að stiga það? Þetta er a.m.k. sú mótbára, sem ég hef oft heyrt utan þessa salar. En ég fagna því að hv. 2. landsk. þm. er búinn að tjá sig, en hefur ekki gert það áður og fleiri hv. þm., sem ekki hafa séð ástæðu til þess áður, eru búnir að tjá sig og þar með er fengin umr. um málið sem ekki hefur fengist fyrr.

Þó tók hv. 2. landsk. þm. fram sérstaklega, að hann mundi ekki loka öllum dyrum fyrir utanrrh. Hann vildi lofa honum að hafa opnar dyr vegna þessara veislufanga. Menn geta skipst á skoðunum um hvort á að vera sérstök undantekning fyrir hæstv. utanrrh. Ég tel að það eigi ekki að vera. Ég átti von á því, að hv. 9. landsk. gæti stutt okkur í þessu máli, en hún lýsti því yfir að hún teldi sig ekki geta greitt því atkv., þó að mér virtist hún væri efnislega algerlega sammála okkur sem till. flytjum. En hún sagði: Við erum ekki að ráðast að þessu stóra vandamáli eftir réttum leiðum. — Hvað eru réttar leiðir í þessum efnum? Hvaða leiðir vill hv. 9. landsk. þm. fara, sem hún telur rétta leið? Það væri gott að fá það fram, ef einhver ein sérstök leið er sú hin eina rétta. Hún eins og margir fleiri hefur talað um drykkjumenningu, og á síðasta Alþ., ef ég man rétt, kom hér fram frv. að l. um drykkjumenningu. Ég minnist ekki annars en í því frv. hafi verið hreinlega um það að ræða að lögskipa drykkjumennsku. Mér fannst það, sem hv. 9. landsk. þm. kom inn á í sinni ræðu, vera eitthvað álíka: Svona og svona margar flöskur í þessu og þessu samkvæmi. Ég felli mig ekki við þetta.

Ég er sömu skoðunar og hv. 7. landsk. þm. Ég tel að það sé engin drykkjumenning til. Ég tel að það sé engin menning samfara áfengisneyslu, það sé þveröfugt, og við höfum svo að segja öll dæmi um það ef skoðað er þetta vandamál og þær afleiðingar sem af því leiðir.

Ég tek undir það með hv. 9. landsk. þm. að gera fyrst kröfur til okkar og vitanlega er hér verið að gera það, gera fyrst og fremst kröfur til ráðandi manna í þjóðfélaginu, að þeir, eins og var einu sinni orðað, hafi ekki frumkvæði að drykkjusíðum. Það er það sem við teljum okkur vera að gera, krefjast þess af þeim mönnum, sem hafa á orði í tíma og ótíma hið geigvænlega böl, sem þeir telja samfara áfengisneyslu, að þeir taki nú til hendinni og sýni gott fordæmi. Hæstv. menntmrh. hefur gert þetta og á skildar þakkir fyrir og við viljum einmitt fá hina hæstv. ráðh. til þess að fylgja því fordæmi.

Ég tel að boð og bönn séu kannske ekki þær leiðir sem leysi þetta vandamál, en aðhald í þessum efnum er nauðsynlegt. Ég veit ekki hvað hv. S. landsk. þm. á við þegar hún segir: Ábyrgar, siðmenntaðar leiðir í þessum efnum. Ég tel að stjórnvöld geti sýnt þá einu ábyrgu og siðmenntuðu leið í þessum efnum að viðhafa ekki áfengi í opinberum veislum. Það er sú hin eina ábyrga og siðmenntaða leið.

Hv. 9. landsk. þm. endaði á því að segja að hún lýsti fullri ábyrgð á hendur mönnum í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu, og ég tek undir það. Það er vissulega full ástæða til að vekja athygli manna á því hvernig á þessum málum er haldið af hálfu opinberra aðila. Ég tel að hv. 9. landsk. þm. geti best undirstrikað þetta álit sitt með því einmitt að greiða þessari till. atkv., en ekki vera á móti henni, því að ég gat ekki annað fundið en efnislega væri hún alveg sammála þessari tillögu.