15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4343 í B-deild Alþingistíðinda. (3590)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég verð að byrja á því að biðja hv. d. afsökunar á því að ég skuli leyfa mér að blanda mér inn í flokksdeilur sjálfstæðismanna, því að það hefur farið svo í þessu máli eins og í hverju málinu á fætur öðru á þessari síðustu nótt þingsins að það eru hér logandi deilda í milli deilur á milli þm. sjálfstfl. þannig að við í stjórnarandstöðuflokkunum þurfum nú raunar ekki annað að gera heldur en bara sitja rólega og horfa á þetta „skuespil“.

Ég kveð mér hljóðs af því að ég á sæti í iðnn. og hv. formaður n. sagði, sem rétt er, að ég hefði ekki tekið afstöðu til þessa máls á fundinum þegar það var athugað, Nú hefur hv. 1. þm. Sunnl. og raunar síðasti ræðumaður líka lýst því svo fögrum orðum hvað það sé búið að fjalla vandlega um þetta mál, það sé búið að fá eðlilega skoðun o. s. frv., o. s. frv., að ég er orðinn hálfruglaður. Ég veit ekki hvort ég er með á nótunum. Mér vitanlega hefur málið ekki verið tekið fyrir nema á einum fundi í iðnn. Sá fundur stóð 15 mínútur, frá því kl. 1.45 til kl. 2.00 í dag. Á þennan fund voru kallaðir þrír menn, tveir frá Landssambandi iðnaðarmanna og einn frá Félagi ísl. iðnrekenda. Það var heldur losaraleg umr. sem fór fram og ég er þá heyrnarlaus og skilningslaus ef það er ekki rétt að t. d. talsmaður Félags ísl. iðnrekenda, formaður þess, hefði allt á hornum sér um þetta mál og talaði fyrst og fremst um hvað það væri orðið meingallað. Það var fyrst þegar gengið var á hann og sagt við hann: Telur þú gallana svo mikla að þú viljir málið ekki fram? — þá kom á hann hik.

Formaður Landssambands iðnaðarmanna talaði líka fyrst um gallana, en hann sagðist skilja það svo að þingfrv. væru oft gölluð þegar þau væru gerð að lögum í upphafi. Menn yrðu stundum að sætta, sig við það ef þeir teldu þau betur en ekki. Og það kom í ljós að hann taldi þetta gallaða frv. þó betra en ekki. Þetta er mér vitanlega öll skoðun sem fram hefur farið á málinu, og ég held að ég hafi verið viðstaddur í byrjun fundarins. Ég varð ekki var við að frv. væri lesið. Það er því von að ég hafi hikað. Málið er nokkurra daga gamalt í þinginu og ég vildi fá að íhuga það. En sú íhugun, svo langt sem hún hefur náð á þessum 11–12 stundum, sem liðnar eru síðan, hefur öll stefnt í þá átt að að þetta sé ekki gott mál og það sé lágmarkskrafa að það verði athugað mun betur, séð um hvað þetta snýst. Jú, það á að taka þetta gjald af iðnaðarvörum. Þó er stóriðjan, orkufrekur iðnaður, öll þau miklu fyrirtæki, undanskilin. Svo á þetta gjald að renna aftur til sömu aðila. Það kemur fram í frv. að t. d. Samband ísl. samvinnufélaga á að vera sér í bás svo að ríkið á að taka nokkrar millj. Þetta mun snúast um 20 millj. alls. Ríkið á að taka nokkrar millj. af SÍS og borga það aftur til SÍS, hreinlega, ekkert annað. Og eins er með lagmetisiðnaðinn. Það á að taka þessa prósentu af framleiðslu lagmetisiðnaðarins og svo á að skila peningunum aftur til lagmetisiðnaðarins. Ég skil ekki þessi ríkisafskipti og ég undrast það satt að segja að Sjálfstfl. skuli beita sér fyrir því að lögfesta ríkisafskipti af þessu tagi. Þetta er alls ekki sambærilegt t. d. við útflutningsgjaldið í sjávarútvegi sem er lagt á allar sjávarútvegsvörur og síðan veitt í mismunandi tilgangi til ákveðinna, stórra verkefna. Mér finnst því að það sé verið að byrja hér á nýrri ríkisinnheimtu sem ætti að geta farið fram alveg án afskipta ríkisins. Ef þessir aðilar vilja setja þessa peningaupphæð til hliðar og nota hana til þess að efla sína starfsemi, þá hljóta þeir að geta lagt þetta sjálfir til hliðar og þurfa varla hjálp ríkisins til þess.

Að lokum þetta: Það stendur í frv. að ekki megi bæta þessu gjaldi á verð framleiðslunnar. Það lagaákvæði er alveg skýrt. En spurningin er: Hvernig er hægt að tryggja að það verði ekki? Hvernig er hægt að tryggja það? Án þess að ég vilji ákæra nokkurn mann um að brjóta slík lög, þá vilja slík ákvæði oft gleymast og þegar frá liður er hætt við að þetta gjald mundi renna inn í þá kostnaðarreikninga sem vöruverðið er byggt á. Mér kæmi því ekki á óvart þó að þetta gjald, þessar 20 millj., lenti á neytendunum þegar allt kemur til alls, áður en langt líður, ef þetta mál nær fram að ganga.