15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4345 í B-deild Alþingistíðinda. (3591)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Ég þurfti því miður að bregða mér frá og gat því ekki verið viðstaddur þegar þetta mál kom hér til umr. Mér virðist á meðferð þeirri sem málið hefur fengið í Ed. að menn hafi ekki áttað sig alveg á því, hvað í þessu frv. felst.

Frv. felur það í sér, að þrenn landssamtök atvinnurekenda í iðnaði, þ. e. a. s. Landssamband iðnaðarmanna, Félag ísl. iðnrekenda og Iðnaðardeild Sambandsins, fóru þess á leit við iðnrn. að þeim yrði gert kleift að innheimta með lögum með sérstakri skattheimtu gjöld af aðildarfélögum sínum. Þetta er efni frv. Erindi um þetta barst þegar ég gegndi störfum iðnrh., og þegar ég fór að kanna málið kom í ljós að Félag ísl. iðnrekenda og Iðnaðardeild Sambandsins höfðu engan áhuga á þessari aðferð við að innheimta félagsgjöld af aðildarfélögum sínum. En vegna þess að Landssamband iðnaðarmanna taldi sig hafa átt í vandræðum með að innheimta slík félagsgjöld af aðildarfélögum þeirra landssamtaka höfðu þau skrifað upp á sameiginlegt bréf, en höfðu ekki áhuga á málinu og það var ekki flutt meðan ég gegndi störfum iðnrh.

Ég er þeirrar skoðunar að innheimta félagsgjalda eigi að vera einkamál hverra samtaka um sig og það sé algerlega fráleitt að ríkið taki að sér að verða innheimtuaðili fyrir slík samtök. Í því væri að sjálfsögðu fólgið undarlegt fordæmi, því að þetta gæti að sjálfsögðu leitt til þess að alls konar félagasamtök í þjóðfélaginu, verkalýðssamtök, vinnuveitendasamtök og við skulum nefna hvaða samtök sem er, færu þess á leit við ríkið að það gerðist innheimtuaðili fyrir sig svo að menn þyrftu ekki að standa í þeim snúningum að innheimta gjöld af sínum félagsmönnum.

Ed. virðist eitthvað hafa misskilið þetta mál því að hún hefur bætt þarna inn Sölustofnun lagmetisiðnaðarins sem er að sjálfsögðu samtök af allt öðru tagi en þessi þrjú atvinnurekendasamtök, sem ég var að nefna áðan, og á á engan hátt heima í þessu kerfi þannig að sú breyting byggist á algerum misskilningi á eðli þessa máls sem er ekkert nema þetta senu ég var að tala um, að það er farið fram á að ríkið innheimti meðlimagjöld þeirra félaga, sem eru aðilar að Landssambandi iðnaðarmanna, Félagi ísl. iðnrekenda og Iðnaðardeild SÍS. Eins og segir í nál. mínu á þskj. 796, tel ég algerlega fráleitt að ríkið taki að sé innheimtustörf af þessu tagi, og ég legg því til að frv. verði fellt.