04.11.1974
Neðri deild: 3. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

10. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Frv. það, sem hér er á dagskrá, er flutt eftir að samráð hefur verið haft við alla þingflokka um þær breyt., sem frv. gerir ráð fyrir á þingsköpum Alþingis.

Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir, að fjvn. yrði skipuð 9–11 mönnum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Aths. hafa komið fram um það að hafa ekki óákveðna tölu að þessu leyti, og varð því að samkomulagi, að í Ed. yrði gerð breyt. á frv., þannig að 1. gr. orðaðist svo: 1. fjárveitinganefnd, skipuð 10 mönnum.

Í aths. við þetta lagafrv. kemur fram, að fjvn. var fyrst kjörin í Sþ. árið 1934 í kjölfar breyt., sem gerðar voru á stjskr. og þingsköpum árið áður. Þá var ákveðið, að n. skyldi skipuð 9 mönnum. Á þeim fjórum áratugum, sem liðnir eru síðan, hafa verkefni n. stóraukist, og mörg undanfarin ár hafa nm. orðið að skipta með sér verkum við athugun einstakra málaflokka. Þykir því eðlilegt að heimila fjölgun í n. Þessu til viðbótar má geta þess, að með fyrirhugaðri fjölgun mun öllum þingflokkum vera tryggður fulltrúi í fjvn.

Þar sem samkomulag er á milli þingflokka um efni þessara breyt., er það von mín og ósk, að hv. þdm. hraði afgreiðslu þessa frv. Ég sé ekki ástæðu í þessari deild frekar en í Ed. að gera till. um, að frv. fari til nefndar.