28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

44. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég missti því miður af að heyra framsögu fyrir þessari till. og ég verð að skýra þingheimi frá því af hverju ég missti möguleikann nú rétt á þessu augnabliki. Það var einmitt vegna þess að kona leitaði til mín í öngum sínum yfir því að heimilið var að fara í rúst af vinneyslu húsbóndans og bað mig sér til hjálpar núna í algeru öngþveiti hvað væri hægt að gera. því miður er þetta annað dæmi á stuttum tíma sem ég sannreyni að á sér stað hér í borginni. Fyrir nokkru bauð einn af varðstjórum lögreglunnar mér að koma með sér í helgarferð eða vera á helgarvakt svo að ég fengi að kynnast því sem væri að ske í borginni um helgar. Einnig hafði læknir samband við mig og bauð mér líka að vera á varðstofunni og sjá með eigin augum þær hörmungar, sem dyndu yfir mörg heimili yfir helgar vegna vínneyslu. Það er vegna þess að þetta á sér stað utan þings að við nokkrir höfum talið skyldu okkar að taka lítið skref í þeim áfanga að bæta úr þessu böli. Hvort þetta skref verður stigið eða fleiri skref fylgja á eftir skulum við ósagt látið, en við væntum þess eindregið.

Það kom hér fram að skoðanir hefðu breyst á drykkjuskapnum og það væri litið á hann víða sem sjúkdómseinkenni. Báðar þær konur, sem hafa leitað til mín í vandræðum sínum, hafa tjáð mér að engin leið sé að koma mönnum þeirra inn á hæli. Þetta eru báðir menn í góðum stöðum hér í Reykjavík, annar á vegum hins opinbera og hinn í hárri stöðu hjá hálfopinberu fyrirtæki, vel þekktir borgarar. Þegar þeir „detta í það“, eins og sagt er, dögum saman og eyðileggja heimilið, þá hafa þær leitað til lækna og reynt að koma mönnum sínum á sjúkrahús, en fengið synjun. Þetta er sérstakt vandamál sem þyrfti að athuga. Þær geta ekkert sagt annað: Maðurinn er fullur og hefur legið í fylliríi í marga daga og það er allt komið í öngþveiti. — Eina lausnin er að segja að hann gangi að sínu heimilisfólki með barsmíðum og það hafi ekki lengur svefnfrið, þá fyrst er byrjað að hlusta.

Nei, við, sem viljum álykta að skora á ríkisstj. að hafa hér lítils háttar fordæmi, væntum liðsinnis í þessa átt, að draga úr þessu böli. Við væntum liðsinnis. Það er rétt að boð og bönn eru kannske ekki lausnin á vandamálinu, ég get vel fallist á það. En ég fullyrði að nauðsynlegt er að þeir menn, sem ábyrgð eiga að hafa í þjóðfélaginu, sýni gott fordæmi eins og talað var um áðan, — þeir sem ábyrgð eiga að hafa sýni af sér nokkra sjálfsafneitun. Það er algerlega út í hött að segja að ekki sé hægt að bjóða til samkomu öðruvísi en að vín fylgi með. Stór hluti mannkynsins hefur slíkar samkomur og afneitar víni, afneitar vínneyslu. Ég minnist þess einnig að í menntaskólanum, sem við sátum bæði í hv. 9. landsk. og ég, fóru fram miklar umr. einu sinni og þá var talað um drykkjumennt. Sú sorgarsaga átti sér stað, að sá, sem harðast barðist fyrir drykkjumenntinni, situr nú innilokaður vegna ógæfuverka er hann framdi fyrir nokkrum árum í drykkjuvímu. Ég er ekki að segja að saman hafi farið hans skoðun og það verk, en drykkjuskap er um að kenna.

Um þetta má hafa langt mál. En það, sem við viljum, er að hafist verði handa, þó að í litlum stíl sé, og tekin ákvörðun um að lagfæra þetta, ráða bót á því óþolandi ástandi sem er að verða hér á Íslandi vegna ofneyslu áfengis. Vissulega munum við með því að,bæta úr þessu ástandi bjarga mörgum heimilum bjarga mörgum börnum frá því að horfa á heimilisföðurinn og jafnvel móður sína einnig fara í rúst að meira og minna leyti. Það tekur langan, langan tíma og eru ólýsandi kvalir fyrir ungar sálir að þurfa að ganga í gegnum slíkt.

Það er ekki sæmandi svokallaðri menningarþjóð að halda á þessu máli þannig að við þorum ekki að ræða það alvarlega og taka á því af krafti. Það má sjálfsagt velta vöngum yfir því, með hvaða hætti árangur er bestur og mestur. En það verður að horfast í augu við þetta vandamál, sem er vaxandi í íslensku þjóðfélagi, og við verðum að hafa kjark til að ráðast að því eins og við teljum að best megi verða svo að úr dragi þessu mikla böli. Tískan á að komast í lið með okkur, það er alveg rétt, en tískan verður öndverð lækningunni vegna þess að í veislum fyrirmannanna birtast myndir þar sem er skálað og glösum lyft. Það er það, sem kemur á skerminn, það er það, sem kemur í blöðin. Þetta viljum við forðast. Við viljum miklu fremur að það spyrjist út að menn sýni þá einurð að þeir geti hist án þess að þurfa að hafa vín um hönd.

Ég harma það að sá háttur skuli hafa verið tekinn upp í nýársboði forseta Íslands að nú skuli skálað í kampavini. Áður þekktist það ekki. Ég man eftir því að einn virðulegur embættismaður þar var augafullur í fyrsta sinn sem það átti sér stað, fyrir allra manna augum sem þar voru, augafullur á stuttum tíma.

Það þýðir ekkert að þora ekki að ræða þetta mál. Ég skal taka undir orð 9. landsk, þm. að það þarf að ræða það frá öllum hliðum og vera ófeimnir. Við ráðum ekki bót á því öðruvísi. E.t.v. sýnist sumum að þessar umr. nálgist undarlegheit, að fara út í svona smáatriði. En það kemur þá bara fram hversu vandamálið er víðtækt og alvarlegt og einnig viðkvæmt, Ég vænti þess, að brtt., sem kom hér fram, verði einnig rædd, og sætti mig við að till. fari í n. í trausti þess að allt er þegar þrennt er og hún fái þá meðferð í n. og n. afli sér víðtækra gagna um hvað er að ske hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit um annað pláss þar sem lögreglumenn hafa sagt mér að þeir kvíði fyrir hverri helgi vegna vaxandi vínneyslu og óláta á heimilunum í því sambandi. Það er vel tímabært að afla viðtækra gagna í þessu efni og birta alþjóð. Við, sem að þessu stöndum enn í þriðja sinn, væntum þess að þetta verði fyrsta skref, þó að lítið sé, á þeim áfanga að bæta úr viðkvæmu en alvarlegu böli í þjóðfélaginu.