15.05.1975
Efri deild: 94. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4354 í B-deild Alþingistíðinda. (3620)

11. mál, launajöfnunarbætur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið frv. til athugunar eins og það kemur frá Nd. og meiri hl. n. mælir með því að frv. verði samþ. eins og Nd. afgreiddi málið. Minni hl. gerir grein fyrir afstöðu sinni með séráliti.

Þær breytingar, sem urðu á frv. í meðferð Nd., eru sumar smávægilegar. Þar er um leiðréttingar að ræða, það hafði verið um villur að ræða í texta. En hins vegar breytist skerðingarhlutfall vegna tekjutryggingar samkv. 7. gr., þ. e. a. s. í staðinn fyrir að skerðingarhlutfall var í brtt., eins og hún var lögð fram upphaflega, 45 þús. kr. frá 1. apríl 1975 til 30. júní og síðan 46 380 kr. frá 1. júlí eða hækkun um 3%, er skerðingarhlutfallinn breytt í 46 380 kr. á báðum stöðum. Þetta er gert til hagræðingar þar sem Tryggingastofnunin taldi mjög erfitt í framkvæmd að breyta skerðingarhlutfallinu á þennan hátt. Þetta hefur í för með sér smávægilega útgjaldahækkun fyrir ríkissjóð.

Þar að auki er breyting á 11. gr. frv. sem fjallar um fjárfestingarlánasjóði, Gr. er stytt allverulega og varð á henni veruleg breyting í meðförum Nd. 1. mgr. fellur alveg niður, þar sem kveðið var á um lánskjör sjóða, og hljóðar gr. nú svo:

„Fjárfestingarlánasjóðir endurláni það fé, sem þeir fá til ráðstöfunar, með sambærilegum kjörum og þeir sæta sjálfir. Heimilt er að ákveða lánskjör þessara sjóða þannig að ákvæði um verðtryggingu eða gengisákvæði nái til ákveðins hluta hvers láns.“

Síðan skal ríkisstj, setja meginreglur um þessi lánskjör í samráði við Seðlabanka Íslands og Framkvæmdastofnun ríkisins.

Varðandi þá brtt., sem hv. 5. þm. Norðurl. v. lagði hér fram við 1. gr., þá vil ég aðeins endurtaka það, sem ég sagði í framsögu, að ég sagði þá að til þess að taka af tvímæli um það hvaða kjör skuli ríkja frá 1 júní n. k., fari svo að samningar hafi þá ekki tekist á milli aðila á vinnumarkaðnum um fyrirkomulag vísitölubindingar launa í framhaldi af bráðabirgðasamkomulaginu sem í gildi er til þess tíma, er hér gert ráð fyrir að ákvæðin um launajöfnunarbætur haldi gildi þar til samningar hafi tekist milli heildarsamtakanna á vinnumarkaðnum. Þessi ákvæði má telja í samræmi við venjur í slíkum tilvikum. Um þetta orðalag var haft samráð við forustumenn ASÍ og þótti rétt að þetta kæmi fram, færi svo að heildarsamtökin hefðu ekki lokið samningum 1. júní. Að öðru leyti er það ljóst, eins og hv. þm. sagði, að heildarsamtök launþega hafa þegar samið um hærri launajöfnunarbætur en var í brbl. og eru í frv. og þær gilda að sjálfsögðu nú. Hins vegar þykir rétt að staðfesta brbl. með þeim tölum sem upphaflega voru í gildi um launajöfnunarbætur. Varðandi 2. brtt. hv. þm. mun hæstv. forsrh. gera d. grein fyrir því atriði.