15.05.1975
Efri deild: 94. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4355 í B-deild Alþingistíðinda. (3621)

11. mál, launajöfnunarbætur

Frsm. 2. minni hl. (Ragnar Arnalda) :

Herra forseti. Ég heyrði ekki betur en hv. frsm. fjh.og viðskn. væri mér sammála um þá túlkun á 1. gr. frv. sem ég hélt fram áðan. Hann tók einmitt fram að heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins hefðu samið um annað en það sem greinir í 1. gr. Á þeim grundvelli get ég ekki túlkað hans orð öðruvísi en hann sé mér sammála um áframhald þeirrar ályktunar sem ég dró áðan. Ég orðlengi því ekki frekar um það atriði, en vil þó halda þeirri brtt., sem ég hef hér flutt, til streitu og láta hana koma til atkv., þar sem ég tel að annað geti valdið misskilningi og sé hyggilegra að breyta þessu, einkum gagnvart þeim aðilum sem ekki eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands.

Um hina till., sem ég flutti, er það að segja að við umr. í n. kom fram að hæstv. forsrh. mundi vera reiðubúinn til að lýsa því yfir að barnalífeyrir, þ. e. meðlag, yrði tekinn til endurskoðunar og ný ákvörðun tekin um það atriði af hálfu ríkisstj., en þetta getur verið reglugerðaratriði og er ekki endilega nauðsyn að það sé fest í lög. Með hliðsjón af hinu mikla gildi þess að slík yfirlýsing komi fram hér í þinginu og enda þótt með þeim hætti sé allt ákvörðunarvald lagt á vald hæstv. ríkisstj. og engu sé beinlínis lofað um hver upphæð verður eða hve mikil hækkun verður á hlutfallstölu, þá tel ég samt að slík yfirlýsing sé það mikils virði að tilvinnandi sé að draga till. til baka í trausti þess að yfirlýsingin verði hér gefin.