16.05.1975
Efri deild: 95. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4356 í B-deild Alþingistíðinda. (3626)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að deila við forseta um hve oft ég hef tekið til máls, vegna þess að ég hafði aldrei hugsað mér að vera neitt sérlega langorður. En ég skildi það svo að ég hefði tvívegis gert hlé á máli mínu, fyrra skiptið vegna þess að forseti óskaði sérstaklega eftir því, en í síðara sinnið vegna þess að hæstv. samgrh. var ekki viðstaddur til þess að svara fsp. sem ég hafði lagt fyrir hann. Ég tók það svo, þegar ég síðan bar upp fsp. í síðara sinn, að þá hefði ég verið að halda áfram ræðu minni sem mér tókst ekki að halda fram á hinum fyrra fundi. En þetta er í sjálfu sér aukaatriði af því að það var aldrei meining mín að orðlengja frekar þetta mál.

Ég lagði nokkrar spurningar fyrir hæstv. samgrh.í dag og fékk við þeim svör og ég þarf aðeins að gera örfáar aths. við þessi svör um leið og ég síðan kynni brtt. sem við hv. þm. Stefán Jónsson höfum lagt fram í þessu máli. En ég hafði einmitt lýst því yfir að ég óskaði eftir því að fá að heyra yfirlýsingar og svör hæstv. samgrh. áður en till. yrði borin fram.

Í fyrsta lagi spurði ég hæstv. samgrh. að því, hvort um það yrði að ræða að ráðist yrði í nýjar framkvæmdir ef frv. þetta yrði samþykkt, sem sagt hvort með samþykkt þessa frv. fengist fjármagn til að ráðast í aðrar framkvæmdir en þær sem nú væru tilgreindar í vegáætlun. En mjög mismunandi yfirlýsingar höfðu heyrst hjá hv. þm. um þetta efni. Hæstv. ráðh., sem var að vísu svolítið óljós lengi framan af, og var ekki alveg ljóst hvert svarið ætlaði á endanum að verða, svaraði að lokum býsna skýrt og ljóst að á þessu ári yrði ekkert af þessu fé notað til framkvæmda sem ekki væru tilgreindar í þeirri vegáætlun sem hér er til umfjöllunar. Hann sagði að vísu að hugsanlegt væri að eitthvað lítils háttar yrði notað af þessu fé ef það fjármagn, sem til ráðstöfunar væri á vegáætlun, hrykki ekki til þeirra framkvæmda sem þar væru ráðgerðar. En ekki yrði sem sagt um að ræða neinar viðbótarframkvæmdir frá því sem áður hafði veríð hugsað. Þetta tel ég að hafi verið ákaflega athyglisverðar upplýsingar sem gott var að fá fram því að þetta upplýsir töluvert mikið málið og sýnir okkur að samþ. frv. breytir raunverulega engu á árinu 1975. En á árinu 1976 er ætlunin að endurskoða vegáætlun og það er í raun og veru nægur fyrirvari og nægur tími að hugsa til þess hvernig þessum málum verði hagað á næsta vetri.

Ég vil svo aðeins að lokum andmæla nokkrum fullyrðingum hæstv. samgrh. sem að vísu er kannske ekki mikil þörf á að andmæla vegna þess að ég taldi mig hafa talað nægilega skýrt fyrr. En hann hafði greinilega misskilið og þarf nú næstum ekki að kalla á hæstv. samgrh. þess vegna, ég er sannfærður um að hann viti betur en hann sagði. En það fyrst og fremst um afstöðu mína til þessa máls. Hann hélt því nefnilega fram að ég hefði snúist gegn fjáröflun til framkvæmda á Norður- og Austurvegi, eins og hann orðaði það. En þetta er að sjálfsögðu hin mesta firra, eins og margoft hefur komið fram. Ég hef ekki snúist gegn hvers konar fjáröflun í þessu skyni en ég hef snúist gegn þessari tilteknu fjáröflunaraðferð. Nákvæmlega þennan sama útúrsnúning var hæstv. samgrh. með í umr. um vegáætlun áðan þar sem hann reyndi að telja mönnum trú um að ég hefði snúist gegn fjáröflun í þessu skyni, en það er að sjálfsögðu rangt, eins og raunar kemur skýrt fram af þeim brtt. sem við höfum síðan flutt.

Það, sem ég hef hins vegar snúist gegn, er að ríkissjóður taki óhagkvæmustu og heimskulegustu lán sem unnt er að fá á lánamarkaði, og í því sambandi væri athyglisvert fyrir hv. þm. að hugsa sér að kæmi að því að við þyrftum að endurgreiða þessar 2000 millj. kr. að 10 árum liðnum, ef hliðstæð þróun á eftir að verða á þeim 10 árum sem nú líða frá því að þetta lán er tekið og verið hefur á undanförnum 10 árum. Að vísu eru allar líkur á því að þróunin verði miklu hastarlegri og miklu óhagstæðari fyrir ríkissjóð. En sem sagt, ef hún verður eins og hún var á liðnum 10 árum, þá þarf ríkissjóður að endurgreiða þetta 2000 millj. kr. lán með 5 200 millj. ef um er að ræða venjulegt lán með sæmilegum vöxtum. Hann þarf að borga 11000 millj. í staðinn fyrir þessar 2000 millj. ef um yrði að ræða gengislán og þróun í gengismálum væri hliðstæð þeirri sem orðið hefur á s. l. 10 árum, en ef um verðtryggt lán er að ræða, þá þyrfti hann að borga 26 400 millj. í endurgreiðslu fyrir þessar 2000 millj., ef sem sagt verðlagsþróun yrði með svipuðum hætti og hún hefur verið undanfarin 10 ár, en allar líkur henda nú til að hún yrði miklu óhagstæðari fyrir ríkissjóð. Ég vil sem sagt spyrja menn að því hvort mönnum sýnist ekki sitthvað, fjáröflun og fjáröflun, í sambandi við þetta, hvort mönnum er nákvæmlega sama hvort þeir leggja 5 200 millj. kr. fjárhagsbyrði á ríkissjóð eða hvort þeir leggja 26 400 millj. kr. fjárhagsbyrði á ríkissjóð í sambandi við framkvæmdir hans. Þetta er kjarni málsins í sambandi við fjáröflunarhliðina, sá kjarni sem menn verða að reyna að koma inn í höfuðið á sér fyrr eða síðar þótt erfiðlega gangi fyrir ýmsa.

Ég þarf svo ekki frekar að orðlengja þetta mál. Ég hef ásamt hv. þm. Stefáni Jónssyni flutt brtt. á þskj. 814 sem fela í sér að um verði að ræða almenna lántöku, annaðhvort á innlendum eða erlendum markaði, til þessara sömu framkvæmda, ekki happdrættisskuldabréfalán, ekki verðtryggt lán. Og í öðru lagi höfum við lagt það til, hv. þm. Stefán Jónsson og ég, að lán þetta skuli nota til að byggja upp hringveginn umhverfis landið og tengibrautir út frá honum. Við viljum sem sagt ekki einangra þetta við þessa tvo vegi, sem nefndir eru í tillgr., heldur við hringveginn allan og við viljum bæta tengibrautum við. Þá á ég t. d., svo að ég nefni sem dæmi, við leiðina frá Akureyri til Dalvíkur og Ólafsfjarðar eða leiðina úr Norðurárdal og vestur á firði, svo að dæmi séu nefnd.

Í öðru lagi viljum við, að það sé skýrt tekið fram í frv. að fé þessu skuli ekki varið til að leggja varanlegt slitlag á hraðbrautir. Við viljum að það komi skýrt fram, því sé slegið föstu vegna ótta sem uppi er og það ekki að ástæðulausu um að verulegur hluti af þessu fjármagni, þegar þar að kemur — það verður víst ekki á þessu ári, fari til slíkra framkvæmda sem ekki geta talist ýkjanauðsynlegar eins og á stendur.

Til vara, ef þessar till. verða felldar, leggjum við fram eina brtt. og hún er sú ein að við 7. gr. bætist setningin: „Fé þessu skal þó ekki varið til að leggja varanlegt slitlag á hraðbrautir.“