28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

17. mál, varanleg gatnagerð í þéttbýli

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Till. sú um aukinn stuðning við varanlega gatnagerð í þéttbýli o.fl., sem hér liggur fyrir, var einnig flutt á síðasta þingi, en varð þá ekki útrædd. Í þessum málum hefur ýmislegt það gerst, frá því að till. var flutt þá, sem rétt er að rekja sem inngangsorð að sjálfri till., en þar get ég látið nægja að vísa til ítarlegrar framsögu í fyrra að mörgu leyti.

Í fyrsta lagi hefur nauðsyn virkra aðgerða ríkisvaldsins orðið enn ljósari. Æ fleiri sveitarfélög hyggja á stór átök, unnu rösklega að verkefnum sínum á s.l. sumri eða héldu fram því sem hafið var. Hið merka framtak austfirðinga og víðtækt samstarf sveitarfélaga þar um lagningu bundins slitlags á vegina í kaupstöðum og kauptúnum eystra varð öðrum viss fyrirmynd um framkvæmd alla. Vestfirðingar unnu í sumar mjög myndarlega að þessu verkefni, höfðu með sér samstarf og miðaði vel áfram. Sömu sögu má segja víðar frá. En austfirðingar fundu í sumar áþreifanlega hve mjög skortir á að stórátak í þessu efni verði leyst án verulegs viðbótarstuðnings, ekki einungis með lánsfé, heldur beinlínis aðstoðar ríkisvaldsins í formi aukins þéttbýlisvegafjár eða í öðru formi. Þar var unnið miklu minna en ááætlað var, miklu minna en verið hefði ef t.d. till. okkar frá fyrra þingi hefði á einhvern hátt komið til framkvæmda og komið sveitarfélögunum til góða.

Í öðru lagi var í fyrra lagt fram frv. til breyt. á vegal. sem varð ekki heldur útrætt. Þar var eitt atriði till. okkar beinlínis tekið inn, þ.e. íbúamarkið 300 lækkað í 200. Í meðförum þingsins var einnig sýnilegt að reglurnar um skiptingu þéttbýlisvegafjárins yrðu ekki eins og verið hefur og gekk þó ekki eins langt um breytingar þar og við flm. teljum að nauðsynlegt hefði verið að ná fram. Byggðanefnd Alþ. hafði og tekið mál þetta sérstaklega að sér og m.a. þess vegna voru líkur á, að reglurnar um úthlutun fjárins yrðu til bóta fyrir minni sveitarfélög, en Reykjavík hætti að hirða bróðurpartinn af þessu fjármagni. Einnig stóðu vonir til þess þá og gera væntanlega enn að þau 10% af þéttbýlisfénu, sem renna eiga til sérstaklega aðkallandi framkvæmda, hyrfu ekki alfarið í einhverja Kópavogsgjá. Allt var þetta á réttri leið, en lítið gerðist, enda þingrof og nýjar kosningar fyrir dyrum. Tillöguflutningurinn nú á nýjan leik var því sjálfsagður, enda í mörgu tilliti víðfeðmari en svo að líklegt sé að þar fáist allt fram nema með stöðugum eftirrekstri.

Í þriðja lagi komu þessi mál til umr. á sumarþinginu. Hækkun bensínskattsins hafði auðvitað í för með sér hækkun þéttbýlisfjárins í krónum en hélst þó engan veg í hendur við hækkun tilkostnaðar. Þm. stjórnarandstöðunnar fluttu þá till,. að við hækkun bensinskattsins rynni sérstaklega ákveðinn hluti beint til varanlegrar gatnagerðar, sem yrði þá viðbótartekjustofn fyrir sveitarfélögin til þessa mikla verkefnis síns. Þessi till. var felld og er því málið í sömu sporum hvað þetta snertir.

Í fjórða lagi er nú komið hér fram í þinginu frv. til l. um eflingu Lánasjóðs sveitarfélaga sem er vissulega spor í rétta átt, m.a. í sambandi við þetta verkefni. Sumt er þó verið að setja í annan vasann með því að taka úr hinum, og á ég þar við jöfnunarsjóðsframlagið, en í heild er frv. til bóta, þótt segja mætti að ríkisvaldið hefði átt að leggja þar til ríflegri hlut en ráð er fyrir gert.

Ekkert þessara fjögurra atriða, sem hér hefur verið vikið að, gat breytt neinu um nauðsyn þess að halda málinu í heild vakandi og knýja á um margt það, sem enn á langt í land. Ástæður tillöguflutningsins liggja ljóst fyrir, enda hlaut þessi till. í fyrra svo eindreginn og ákveðinn stuðning úr öllum landshlutum að vafalaus nauðsyn hennar liggur ótvírætt fyrir, staðfest af þeim sem gerst til þekkja.

Án þess að vera með langa og mikla endurtekningu þess, sem ég sagði í fyrra, ítreka ég mikilvægi þess að sveitarfélögin geti sem fyrst og best lokið þessu verkefni. Fá atriði veit ég líklegri til að breyta svip og umhverfi þessara byggðarlaga, gera þau um leið byggilegri, laða fólk til búsetu þar, þó að óteljandi atriði önnur blandist þar inn í. Þetta er ekki heldur aðeins félagslegt réttlætismál, ekki síður nær það inn á það, sem ég vil kalla menningarlegt svið, því að umhverfismenning er þar ekki veigalítill þáttur og margt fylgir í kjölfar hennar sem ekki er lítils virði. Fáum framkvæmdum hef ég vitað íbúana fagna eins einlæglega og þessum. Mismunurinn er það gífurlegur frá því sem áður var og kostirnir við hið nýja fyrirkomulag svo afgerandi að engum dylst. Samstarf sveitarfélaga í þessu átaki er einnig til fyrirmyndar og vonandi aðeins upphafið að meiri og betri samvinnu að sameiginlegum hagsmunamálum, m.a. í því að ná í sem flestu til fulls jafnaðar við Reykjavík. Þar hefur togstreita og rígur staða í milli verið of ríkur þáttur og áberandi í mörgum greinum og væri mér sennilega best að fara ekki frekar út í þá sálma hér.

Í þessum málum er áhugi, framkvæmdavilji og samhjálp fyrir hendi. Aðalatriðið er fjármögnunin og að því víkur till. okkar rækilega. Ég hafði þar alla fyrirvara á eins og í fyrra um breytingar og lagfæringar, nýjar eða einhverjar aðrar leiðir en hér er lagt til. Öllu slíku erum við að sjálfsögðu reiðubúnir að breyta og bæta úr, því að ekki dettur okkur í hug að hér sé á einu færu leiðina drepið.

Áætlanagerð á þessu sviði er sjálfsögð. Segja má, að sveitarfélögin hafi sum hver gert þegar áætlun af þessu tagi, ýmist ein sér eða sameiginlega. Alhliða áætlun, sem gjarnan mætti taka skemmri tíma, svo sem 3 eða 4 ár, væri hins vegar nauðsyn til að geta sem best gert sér grein fyrir umfangi framkvæmdanna. Það hlýtur um leið að vera forsenda þess að fjármögnunarhliðinni verði skipulega sinnt og fyrir henni séð sem allra best. Margs konar áætlanir eru nú í gangi, að vísu misjafnlega langt á veg komnar, en í flestum þeirra mun að finna þætti sem samtengdir eru því brýna verkefni sveitarfélaganna. Nú hefur verið talið eðlilegt að Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökin standi fyrir áætlunargerðinni, og sé þeim það mögulegt ætti það að vera verðugt viðfangsefni og þörfin ræki á eftir að sem fyrst lægju fyrir þær niðurstöður sem á þyrfti að byggja. Ég á vísa von þess að íbúatakmarkið verði fært niður á þessu þingi með tilliti til frv. á þinginu í fyrra, og þá er aðeins spurning um það hvort íbúamörkin ættu ekki að færast enn neðar, t.d. í 100 eða þá til þeirra marka þar sem hægt væri að tala um þéttbýlismyndun á annað borð. Staðir sem þeir, er undir þetta flokkast, munu fáir, en þörfin sú hin sama og vöxtur þeirra getur verið ótrúlega hraður, eins og dæmi eru um, og hví þá ekki að greiða veg þeirra sem best frá upphafi.

Heildartekjur Vegasjóðs eru orðnar ærið miklar og olíukreppan hefur gert erfiðara að hækka bensínverðið beinlínis til vegagerðar því að sjálfkrafa verðhækkanir erlendis frá hafa verið svo yfirþyrmandi. Nú erum við flm. síður en svo á því að skerða megi möguleika Vegagerðar ríkisins til hvors tveggja, endurnýjunar og góðs viðhalds. Hins vegar tel ég að fyrst og fremst þurfi að huga að þeim vegaframkvæmdum sem brýnastar eru, þannig að vegir sem víðast um landið verði að heita má akfærir áður en að hraðbrautarframkvæmdum út frá Reykjavík kemur, a.m.k. mega þær ekki hafa hinn minnsta forgang, þótt ég viðurkenni nauðsyn þess að halda þeim áfram einnig. Ég ber hins vegar ekki saman nauðsyn þeirra framkvæmda og þeirra sem við erum með í huga í okkar tillögugerð. Aukning á hluta sveitarfélaganna í heildarfjárhæð Vegasjóðs hlýtur og að koma niður á þeim framkvæmdum, ef ekki er hægt að standa að hvoru tveggja í einu, og þá með e.t.v. enn auknum álögum á bensinverðið, sem okkur þykir þó sannast sagna ærið fyrir. Mín skoðun er a.m.k. sú að frekar eigi að draga í bili úr hraðbrautaráformunum út frá Faxaflóasvæðinu á meðan hinu er sinnt af fullri alvöru, sem mest er þörfin fyrir, lagningu bundins slitlags á götur í þéttbýli, og séð fyrir vel akfærum vegum sem viðast um landið. En til þess þarf fleira, eins og við bendum á í tillögunni. Sveitarfélögin þurfa að fá í sinn hlut aukið fé hlutfallslega, þar sem allar framkvæmdir þeirra ern skammt á veg komnar, sums staðar ekki byrjaðar enn. Höfðatölureglan hefur verið þessum stöðum mjög óheppileg, svo að ekki sé meira sagt, og Reykjavíkursvæðið, þar sem allar framkvæmdir eru vel á veg komnar, hefur hins vegar notið þessarar höfðatölureglu ótæpilega. Þetta er ekki gert af neinni andreykvískri ástæðu hjá okkur. Það hlýtur aðeins að vera jafnréttismál að önnur sveitarfélög komist hér eitthvað nálægt mesta þéttbýlinu um aðstöðu alla. Það verður vart gert án þess að frá einhverjum sé tekið og þá þeim sem helst má við því.

Ég hlýt enn að ítreka þann lið í till. okkar sem snertir þjóðvegi þá sem liggja í gegnum endilöng byggðarlögin með gífurlegri umferð og gegnumakstri. Þar verður að koma til breyting, og ekki verður það til fulls gagns fyrr en ríkið tekur þetta að sér að fullu og öllu. Ég sá einhvers staðar töluna 90 km í þessu sambandi yfir allt landið. Ekki þætti það mjög langt eða óyfirstíganlegt ef um hraðbraut væri að ræða út frá Reykjavík. Hér leggjum við sem sagt til sérstaka hlutdeild utan þéttbýlisvegafjárins til að gera þetta kleift, því að engin sanngirni er í því að mismuna svo sveitarfélögum sem hér er gert og leggja á þau byrðar sem koma þeim ekki nema að takmörkuðu leyti við. Í fullri alvöru hefur verið um það rætt heima á Reyðarfirði t.d. að loka hreinlega veginum í gegnum kauptúnið og benda Vegagerð ríkisins á nýtt vegarstæði ofan kauptúnsins ef Vegagerðin tæki ekki meiri þátt í kostnaði við þjóðveginn í gegnum kauptúnið en hún hefur þegar gert, oft í aukaviðhaldi, sem geysilegur gegnumakstur hlýtur óhjákvæmilega að skapa og hefur skapað þar. Þetta hefur verið rætt í töluverðri alvöru. En eitt er víst, hér er um algera sérstöðu margra byggðarlaga að ræða sem þarf að ráða á bót og verður ekki gert nema á einhvern þann hátt sem við bendum á.

Svo að lokum eru það bændurnir okkar sem við viljum a.m.k. sýna lít á að koma til móts við, þeir sem búa við rykmökkinn sumarlangt sé veðrið bærilegt og þurfa að ganga að störfum sínum í þeim rykmekki sem fylgir svo heyinu oft heim í hlöðuna og er að nokkru leyti plága á vetrum einnig. Við gerum okkur fullljóst að verkefnið er viðamikið og erfitt viðfangs. Lágmarkskrafa er að kanna a.m.k. þá möguleika sem Vegagerð ríkisins hefur til að koma sem mest í veg fyrir þá slæmu mengun sem bændur og búalið verða hér við að búa. Þetta er sérstakt viðfangsefni og erfitt, en ástæðulaust að láta sem það sé ekki til og full ástæða til að hyggja að því jafnhliða öðrum vegagerðarframkvæmdum. Við leggjum meira að segja á þetta sérstaka áherslu, því að allir þekkjum við hve hvimleitt vandamál þetta er bændum mjög víða og áhugi þeirra mikill á því að einhver lausn fáist þótt takmörkuð væri.

Herra forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til framsögu minnar frá því í fyrra um mál þetta, en aðeins ítreka eitt: þéttbýlisvegaféð, sem er uppistaða þeirrar aðstoðar sem sveitarfélögin fá frá opinberri hálfu, er allt annað og veigaminna framlag gagnvart verkefni dagsins í dag, lagningu bundins slitlags á göturnar, eða miðað við það verkefni að hafa göturnar sæmilega akfærar malarbrautir, eins og hingað til hefur verið látið nægja víðast hvar og hlutverk þéttbýlisvegafjárins var í upphafi að taka í þátt. Þessi verkefnamunur hlýtur að kalla á nýtt viðhorf, nýjar tekjuleiðir, og eitt er víst, þau framlög skila sér í hvívetna, eru góð fjárfesting og þörf og geta átt eftir að vera virkur líður í nýrri og heppilegri búsetuþróun á Íslandi en síðustu áratugir hafa fært landsbyggðinni. Hér þarf því að hyggja vel að og láta einskis ófreistað til að hraða þessum nauðsynjaframkvæmdum sem mest og best. Að því miðar þessi tillöguflutningur okkar eindregið.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessu máli verði vísað eftir þessar umr. til hv. allshn.