28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

29. mál, bætt skilyrði til viðtöku hljóðvarps- og sjónvarpssendinga

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt er nú þegar farið að ræða í fullri alvöru möguleika á því að hefja litaútsendingar frá íslenska sjónvarpinu og virðist mikill þrýstingur vera í því máli, bæði af hálfu starfsmanna sjónvarpsins og hins vegar af hálfu sjónvarpsáhorfenda á Reykjavíkursvæðinu. Jafnframt er farið að ræða í fullri alvöru hugmyndir um að byggja jarðstöð fyrir margar millj. kr. til þess að taka á móti sjónvarpssendingum frá gervihnöttum, og mun svipað um það mál að segja og hitt, að þar mun ríkja mikill þrýstingur, að þetta verði gert, af tæknimönnum Sjónvarpsins annars vegar og einkum og sér í lagi áhorfendum sjónvarps á Reykjavíkursvæðinu hins vegar. Á sama tíma og þetta er rætt í fullri alvöru og aðeins virðist vera um tímaspursmál að ræða, hvenær af þessu verður, — að sjálfsögðu fjárhagslegt spursmál líka, — þá er stór hluti þjóðarinnar sem ekki nýtur útsendingar frá Ríkisútvarpi, hljóðvarpi og sjónvarpi, nema með höppum og glöppum. Ég vil taka það sérstaklega fram að hér er um að ræða mun stærri hluta þjóðarinnar en menn almennt gera sér grein fyrir. Hér er um að ræða heila landshluta eins og Austfirðingafjórðung varðandi útsendingar hljóðvarps og stóra kaupstaði víðs vegar um land varðandi sjónvarpsútsendingar, enda líður varla svo kvöld að ekki sé tilkynnt í sjónvarpinu um bilaða senda úti á landi eða miklar truflanir á móttökuskilyrðum, sem gera það. verkum að fólk utan Reykjavíkursvæðisins nær ekki eðlilegum sjónvarpssendingum.

Hér hefur verið rætt nokkuð mikið um nauðsyn þess að hækka afnotagjöld hljóðvarps og sjónvarps. Spurning getur verið, hversu mikið af tekjum þessara tveggja fjölmiðla eigi að koma beint frá notendum og hversu mikið ætti e.t.v. að koma til þessara fjölmiðla úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Einungis vegna þess, að þegar um svo mikið misrétti er að ræða varðandi móttökuskilyrði á hljóðvarps- og sjónvarpssendingum, þá má segja að það geti verið í hæsta máta óeðlilegt að byggja tekjur þessara tveggja fjölmiðla á gjöldum þeirra, sem þeirra þjónustu njóta og ekki sitja við sama borð. Hv. þm. mun vera það mætavel kunnugt að slík reiði hefur oft verið úti á landsbyggðinni með þjónustu útvarpsins, þ.e.a.s. hljóðvarps og sjónvarps, að fólk þar hefur haft á orði að neita að greiða afnotagjöld sín að hluta eða jafnvel alveg.

Ég vil taka það sérstaklega fram, að viðgerðarþjónusta á sendistöðvum, einkum og sér í lagi sjónvarpsins, virðist vera mjög slök. Það eru mörg dæmi þess að menn úti á landi þurfi að bíða dögum saman eftir því að sendi sé kippt í lag. Það eru jafnvel dæmi þess, að þegar þeir sjónvarpsmenn koma úr sumarfríi sínu og hefja sendingar sjónvarps á ný, þá séu endurvarpsstöðvarnar meira eða minna í ólagi. Síðasta dæmið, sem ég veit um þetta, er frá því í sumar, þegar sjónvarpið hóf sendingar sínar með því að senda út frá þjóðhátíðinni á Þingvöllum. Sjónvarpið var beðið um að gera þetta til þess að þjóðin öll gæti notið þeirrar hátíðar fyrir milligöngu þessa voldugasta fjölmiðils þjóðarinnar. Hins vegar gerðist það, að þegar ísfirðingar kveiktu á tækjum sínum á þessum degi, þá kom í ljós að endurvarpsstöðin til þeirra var biluð og þeir náðu engri sendingu. Þeir gátu ekki tekið þátt í þeirri þjóðhátíð sem m.a. við hv. alþm. vorum viðstaddir á Þingvöllum og aðrir landsmenn gátu notið í krafti ríkisfjölmiðlanna tveggja. Þetta er vitaskuld hreint hneyksli og algjörlega óforsvaranlegt, að þegar slík hátíð stendur yfir og sjónvarpið hefur fengið nóg ráðrúm til þess að ganga úr skugga um að allir sendar þess séu í lagi, þá gerist það þegar sendingar eiga að hefjast að endurvarpsstöð fyrir einn af stærri kaupstöðum landsins sé ekki í lagi, þannig að kaupstaðarbúar, sem voru búnir að hlakka til þess að njóta sömu réttinda og aðrir landsbúar, þ.e.a.s. að geta fylgst með þessum hátíðarhöldum, sjá ekkert nema snjó á skermum sínum. Þegar þannig er haldið á málum er ósköp eðlilegt að hitni í mönnum og þeir fari að orða það að neita að greiða afnotagjöld fyrir þá þjónustu sem þeir ekki fá.

Ég vil taka það fram, að mér finnst sjálfsagt að leggja út í nýjar framkvæmdir varðandi uppbyggingu útvarps og sjónvarps. Mér finnst sjálfsagt að reyna við fyrsta tækifæri að hefja litasendingar frá íslenska sjónvarpinu og koma upp móttökustöð hér á landi fyrir sendingar gervihnatta frá erlendum sjónvarpsstöðvum. En ég vil líka taka það skýrt fram, að ég mun ekki fylgja því að þetta verði gert á sama tíma og stór hluti þjóðarinnar, ekki aðeins nokkrir sveitabændur á afskekktustu stöðum, heldur heilir landshlutar og stórir kaupstaðir, nýtur ekki sendinga ríkisfjölmiðlanna tveggja nema með höppum og glöppum. Það á að ganga fyrir öðrum framkvæmdum á þessum sviðum að byggja upp eðlileg móttökuskilyrði um land allt. Þegar því er lokið, þá má fara að huga að litasendingum fyrir reykvíkinga og aðra þá sem nálægt höfuðborginni búa.