16.05.1975
Sameinað þing: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4383 í B-deild Alþingistíðinda. (3695)

291. mál, fasteignamiðlun ríkisins

Flm. (Guðrún Benediktsdóttir) :

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 6. þm. Norðurl. e. að flytja till. til þál. á þskj. 729 svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta semja og leggja fyrir næsta reglulegt Alþ. frv. til l. um fasteignamiðlun ríkisins er stuðla skal að því, að verðlag fasteigna verði sem næst kostnaðarverði á hverjum tíma og á þann hátt komið í veg fyrir óeðlilegan gróða og fasteignabrask sem er mjög verðbólguhvetjandi.“

Eins og kunnugt er búa flestir íslendingar í eigin húsnæði og er venjan sú, að fjölskyldur byrja gjarnan smátt, en stækka síðan við sig þegar efni og ástæður leyfa. Þannig er það ekki óalgengt að fjölskyldur skipti um íbúð á 5–10 ára fresti fyrstu 15–20 ár búskapar. Milliliðakostnaður sá, er fylgir fasteignasölu, nemur 2% af verði eignarinnar, en það eru um 100 þús. kr. fyrir hverja 5 millj. kr. eign. Þegar hugsað er til að greiða þarf rífleg mánaðarlaun hátekjumanns fyrir hverja slíka sölu hlýtur mönnum að ofbjóða og koma í hug hvort ekki megi spara. Í Reykjavík og nágrenni eru skráðar samkv. símaskránni a. m. k. milli 40–50 fasteignasölur. Fjöldi þeirra bendir til að atvinnuvegur þessi þyki gróðavænlegur.

Árið 1973 var í Reykjavík einni þinglýst 2209 afsölum fyrir fasteignum og árið 1974 voru þær 2303. Sé miðað við að meðalverð sé 5–6 millj., fyrir hverja eign, þá er um að ræða sölu fyrir um 11–14 milljarða kr. á hverju ári miðað við núgildandi verðlag. Af þessari upphæð renna 2% eða um 220–280 millj. kr. í vasa fasteignasalanna. Er augljóst að þetta eitt út af fyrir sig hlýtur að vera verðbólguhvati.

Með till. þessari er gert ráð fyrir að umrædd þjónusta á vegum ríkisins verði ókeypis eða seld á kostnaðarverði. Mætti þá e. t. v. hugsa sér að ná rekstrarkostnaðinum með hækkun þinglýsingargjalda. Með því að tengja skrifstofu þessa Húsnæðismálastofnun ríkisins er hægt að hafa auðveldan aðgang að mati íbúða, byggingartíma, teikningum og fleira viðvíkjandi hverri eign. Ekki þarf getum að því að leiða hver þægindi og sparnaður á tíma og fyrirhöfn það er fyrir almenning að eiga kost á allri þjónustu varðandi fasteignaviðskipti á einni og sömu skrifstofunni, að ekki sé minnst á þann gífurlega fjárhagslega sparnað sem þessi stofnun kæmi til með að veita.

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hafa fengið tækifæri á þessum nauma tíma, sem eftir er þings, til að flytja þetta mál. Það varðar ekki einungis hag almennings, sem á í fasteignaviðskiptum, heldur einnig þjóðarhag varðandi verðbólguvandann o. fl. Væri vel ef þessu máli yrði fylgt fast eftir á Alþ. á hausti komanda þannig að þetta þjóðhagsmál næði sem fyrst fram að ganga til velfarnaðar landsbúum.