16.05.1975
Sameinað þing: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4389 í B-deild Alþingistíðinda. (3705)

120. mál, fiskvinnsluverksmiðja á Snæfellsnesi

Frsm. (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Þetta er að vísu dálítið annar handleggur sem ég mun nú um fjalla. Atvmn. Sþ. hefur haft til meðferðar till. á þskj. 168 til þál. um að Síldarverksmiðjur ríkisins byggi og starfræki verksmiðju á Snæfellsnesi. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela stjórn Síldarverksmiðja ríkisins að hefja nú þegar undirbúning að því að byggja og starfrækja verksmiðju á Snæfellsnesi er unnið geti feitan fisk og fiskúrgang.“

Það varð ekki samkomulag í n. um að afgreiða þessa till. með þessum hætti, heldur leggur n. einróma til að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta kanna hvort hagkvæmt sé að byggja og starfrækja verksmiðju á Snæfellsnesi er unnið geti feitan fisk og fiskúrgang.“

Og fyrirsögnin breytist þar af leiðandi til þessa.

Till. til þál. um athugun á byggingu og rekstri fiskvinnsluverksmiðju á Snæfellsnesi.“

N. þótti sem orðalag ályktunartill. um það beinlínis að fela stjórn Síldarverksmiðja ríkisins að hefja þegar undirbúning að byggingunni væri óhyggilegt. Það þyrfti að athuga fyrst allar aðstæður. Sveitarfélög þar vestra hafa stofnað með sér félagsskap, Nesmjöl, sem þau svo kalla, hafa að vísu ekki enn talið sér fært af fjárhagsástæðum að hefjast handa, en í rannsókninni þyrfti að athuga sérstaklega, ef hagkvæmt er að reka slíka verksmiðju sem ég efast akki um fyrir mína parta, hvort ekki er hægt að skjóta fjárhagsstoðum undir það fyrirtæki til þess að það gæti reist þessa verksmiðju. Ég dreg enga dul á það að ég er þeirrar skoðunar að þetta sé betur komið í höndum einkafyrirtækja heimaaðila og sveitarfélaganna heldur en að ríkið sjálft byggi og reki verksmiðju þar vestra.

N. varð sammála um þessa breytingu, sem er í því fólgin að hagkvæmni málsins verði könnuð fyrst áður en teknar eru frekari ákvarðanir.