16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4396 í B-deild Alþingistíðinda. (3723)

173. mál, nýting innlendra orkugjafa

Nú skal getið þeirra hitaveituframkvæmda, sem unnið er að, og þeirra, sem í undirbúningi eru:

Hitaveita Reykjavíkur vinnur að lagningu hitaveitu í Kópavog, Garðahrepp og Hafnarfjörð og miðar þeim framkvæmdum vel.

Samkvæmt lögum, er samþykkt voru á þessu þingi um hitaveitu Suðurnesja, er nýstofnað félag með aðild sveitarfélaga þar og ríkisins um lagningu hitaveitu til allra þéttbýliskjarna á Suðurnesjum og síðar til Keflavíkurflugvallar. Að undirbúningi þessara framkvæmda er nú unnið af fullum krafti. Boranir hafa verið gerðar í Svartsengi, en einnig er ráðgert að rannsaka annað svæði á Suðurnesjum, svonefnd Eldvörp.

Á Akranesi er ráðgerð hitaveita með jarðvarma frá Leirá í Leirársveit. Þar er nú verið að framkvæma djúpborun og standa vonir til að þar fáist nægilegur jarðvarmi til húshitunar á Akranesi.

Hitaveita frá Deildartunguhver til Borgarness og nágrannasveita má heita fullhönnuð nú og er þess að vænta að hafnar verði framkvæmdir innan skamms.

Á Blönduósi hafa verið rannsakaðir möguleikar til húshitunar með jarðvarma. Hafa verið boraðar þar tvær holur, en því miður án árangurs. Ráðgert er á næstu vikum að hafin verði borun þriðju holunnar, og gefi hún árangur má gera ráð fyrir því, að hitaveita verði lögð á Blönduósi innan skamms tíma.

Í Varmahlíð í Skagafirði er nýtekin til starfa hitaveita fyrir þá byggð, sem þar er, og gert ráð fyrir að áframhaldandi jarðhitaleit verði framkvæmd á því hitasvæði í sumar.

Á Sauðárkróki hefur verið starfrækt hitaveita um allmörg ár. Eru uppi ráðagerðir um að auka við hitaveituna og verður væntanlega boruð ein 1000 metra hola á þessu ári.

Á Siglufirði hefur verið borað eftir heitu vatni í Skútudal. Árangur þeirra borana var sá, að þar má fá 60–70°C heitt vatn, sem nægir til um 75% varmaþarfar kaupstaðarins. Viðbótarvarmaþörf má fullnægja með olíuhitun eða hitun hitaveituvatnsins með rafskautskötlum. Talið er, að þetta sé hagkvæm lausn á húshitunarmálum Siglufjarðar. Gert er ráð fyrir að leggja aðfærsluæð og hluta dreifikerfis í bænum á þessu ári.

Í Ólafsfirði og á Dalvík hafa verið starfræktar hitaveitur um nokkurt skeið. Á báðum stöðum er áhugi á því að auka hitaveiturnar með viðbótarjarðborunum. Má gera ráð fyrir því, að þær verði framkvæmdar á þessu ári.

Talið hefur verið til skamms tíma að á Akureyri yrði að byggja húshitun á raforku. Á hinum síðustu mánuðum hafa verið leiddar líkur að möguleikum til þess að hita upp hús á Akureyri með jarðvarma. Í því sambandi fara nú fram ýmsar rannsóknir í Eyjafirði og nágrenni Akureyrar og beri þær ekki árangur er hugsanlegt að fá jarðvarma leiddan austan úr Þingeyjarsýslu til húshitunar á Akureyri.

Í Þingeyjarsýslu hafa farið fram boranir, sem eru mjög athyglisverðar. Er þar fyrst að telja Hveravelli í Reykjahverfi, en þaðan fær Hitaveita Húsavíkur varmaorku sína. Þar var borað með góðum árangri og er hugsanlegt að þann jarðvarma væri hægt að nota til hitunar fleiri staða en Húsavíkur. Þá hefur farið fram borun á Laugum í Reykjadal sem bar einnig mjög góðan árangur. Undanfarið hefur verið borað í Aðaldal.

Á Austurlandi telja sérfræðingar ekki miklar vonir um verulegan nýtanlegan jarðvarma. Ráðgert er að bora tilraunaholu við Urriðavatn á Fljótsdalshéraði.

Á Suðurlandi hafa verið ráðgerðar hitaveitur á Eyrarbakka og Stokkseyri í samvinnu við hitaveitu á Selfossi. Þó er hugsanlegur möguleiki á að unnt sé að fá jarðvarma nær þessum stöðum niðri við ströndina.

Í Þorlákshöfn er að hefjast djúpborun með stórvirkum bor. Eru menn bjartsýnir um að þar fáist nægilegur jarðvarmi fyrir hinn vaxandi bæ Þorlákshöfn.

Í sambandi við öflun og nýtingu jarðhita á Íslandi skulu nefndar þessar nýjungar og umbætur:

Í fyrsta lagi hefur nú verið keyptur til landsins stórvirkur gufubor, sem getur borað niður á 3600 m dýpi. Hann er nú að byrja að bora í Þorlákshöfn. Þetta er stærsti bor í eigu landsmanna og kostaði um 280 millj. kr. Annar bor kemur til landsins í næsta mánuði, hentugur bor fyrir lághitasvæðin.

Í öðru lagi hefur nú verið veitt mun meira fjármagn til jarðborana og jarðhitaleitar en á undanförnum árum, skv. fjárlögum. Þá verður hluta tekna af 1% sölugjaldi samkvæmt lögum um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða varið til jarðborana og jarðhitaleitar. Þessi tekjustofn getur orðið mikil lyftistöng fyrir undirbúning að nýtingu jarðhita.

Í þriðja lagi hefur reglum um jarðhitalán verið breytt þannig, að hlutur Orkusjóðs verður 60%, en hlutur sveitarfélaga og annarra umsækjenda 40%.

Þegar á allt þetta er litið verða að teljast miklir möguleikar á því að unnt verði á næstu árum að nýta mun meiri jarðvarma til húshitunar heldur en áætlað hefur verið hingað til.

II. Hverjar eru áætlanir ríkisstjórnarinnar um rafhitun húsa um land allt, þar sem jarðvarmi er ekki tiltækur? Hverjir verða árlegir áfangar? Hver verður árlegur kostnaður og hvernig verður hann fjármagnaður?

Með tilliti til þess, sem að framan greinir um stóraukna jarðhitaleit, má búast við að jarðvarmi fáist til húshitunar í auknum mæli og nái til fleiri íbúa en áður var áætlað.

Engu að síður er það ljóst, að sums staðar á landinu verður húshitun með jarðvarma ekki við komið og verður stefnt að rafhitun húsa á þeim svæðum. Forsendur þess, að vel takist til með rafhitun húsa, eru þessar:

Í fyrsta lagi, að nægileg orkuframleiðsla sé fyrir hendi í landinu. Í öðru lagi, að öflugar stofnlínur um byggðir landsins verði lagðar til þess að unnt sé að flytja orkuna milli byggðarlaga. Í þriðja lagi, að sjálft dreifikerfið um sveitir landsins verði styrkt svo, að það geti annað orkuflutningi til húshitunar hinna einstöku býla.

Varðandi fyrsta liðinn skal tekið fram, að unnið er að byggingu raforkuvera á Suðurlandi við Sigölduvirkjun, á Vestfjörðum Mjólkárvirkjun, á Norðurlandi Kröfluvirkjun og á Austurlandi Lagarfossvirkjun, sem nýlega var tekin í notkun.

Enn fremur eru ráðagerðir uppi um ný orkuver og má þar nefna á Suðurlandi Hrauneyjarfoss, sem verður á næstunni tilbúinn til ákvörðunar um útboð og framkvæmdir. Á Vesturlandi eru áform um virkjun Kljáfoss, á Vestfjörðum um virkjun Dynjandisár og Suðurfossár á Rauðasandi, og enn fremur standa yfir athuganir á virkjunum við Ísafjarðardjúp. Þá er unnið að áætlun um virkjun Blöndu og áframhaldandi rannsóknum við Jökulsá eystri í Skagafirði, við Skjálfandafljót, Jökulsá á Fjöllum, Bessastaðaárvirkjun í Fljótsdal svo og Fljótsdalsvirkjun. Gera má ráð fyrir, að flestar þessara virkjana komi til framkvæmda á næstu árum, en á þessu stigi málsins er ekki unnt að segja til um tímaröð.

Varðandi annan liðinn er að því stefnt, að lögð verði 132 kv. lína frá Hvalfirði um Borgarfjörð, Holtavörðuheiði, Húnavatnssýslur, um Varmahlíð til Akureyrar, þaðan verði síðan byggð háspennulína frá Akureyri að Kröflu og síðan áfram frá Kröflu til Egilsstaða og þaðan um sunnanverða Austfirði til Hornafjarðar. Enn fremur hefur verið lögð lína frá Andakílsárvirkjun til Snæfellsness.

Um þriðja liðinn er það að segja, að út frá þessum stofnlínum og virkjunum þarf að ljúka við og styrkja dreifikerfi sveitanna. Það er hins vegar eins og nú er háttað málum of veikt í ýmsum héruðum landsins til að geta flutt raforku til húshitunar. Þess vegna verður nú á þessu ári byrjað að styrkja dreifikerfin.

Þessar aðgerðir, sem nú hefur verið lýst, ættu að stuðla að framkvæmd þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að gera allt sem unnt er til þess að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu til húshitunar.

Loks skal það tekið fram, að unnið er að endurskipulagningu orkuöflunar og raforkudreifingar með það fyrir augum að draga úr miðstýringu, en auka áhrif sveitarfélaga og héraðssambanda, gera verkaskiptingu og ábyrgð skýrari en nú er og skapa festu í stjórn og meðferð orkumála.