16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4401 í B-deild Alþingistíðinda. (3734)

259. mál, skákkennsla

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Hæstv. forseti. Ísland hefur eignast tvo stórmeistara í skák á meðan margfalt fjölmennari þjóðir margar hverjar eiga engan. Það var því enginn hverdagsatburður þegar Guðmundur Sigurjónsson kom heim með stórmeistaratitilinn nú í vetur og gleði okkar minnkaði auðvitað ekki við frábæra frammistöðu Friðriks Ólafssonar stórmeistara litlu síðar.

Ég er sammála flm. þessa frv. um nauðsyn þess að greiða fyrir því að stórmeistarar okkar geti í ríkum mæli helgað sig skákíþróttinni. Það er nú áreiðanlega orðið þröngt um afgreiðslu þessa máls hér á þessu þingi og óvíst hversu um hana fer. Ég hef rætt þetta ofurlítið við hæstv. fjmrh. og við erum málinu velviljaðir efnislega. Teljum við rétt að það komi fram, m. a. vegna þeirrar tvísýnu sem augljóslega er á um afgreiðslu málsins á þessum síðustu stundum þingsins.