16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4402 í B-deild Alþingistíðinda. (3740)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Ég ræddi þetta mál nokkuð í gær á fundi og fann að ýmsu efnislega í því og einnig málsmeðferðinni, og má telja gott þótt menn séu hraðlæsir, að hv. nm. skyldu komast í gegnum það á þeim 15 mínútum sem upplýst var að málið hefði legið fyrir.

Ég hef haft samband við formann Félags. ísl. iðnrekenda, Davíð Scheving Thorsteinsson, og hann leyfir mér að hafa þetta eftir sér: „Málið er mjög gallað og skoðun mín er eindregin sú, að því beri að fresta. Ég hef“, segir hann, „tjáð hæstv. iðnrh. þessa skoðun mína þannig að ekkert fer á milli mála um þetta“. Ef þetta verður dregið í efa, þá hygg ég að viðkomandi geti náð tali af honum því að til skamms tíma sat hann hér niðri í Kringlu. Því legg ég enn á ný áherslu á það að þessu máli verði frestað, enda ekki mikill skaði skeður, þar til við getum tekið þetta mál til þeirrar rækilegu yfirvegunar sem það krefst, sér í lagi vegna þess fordæmis sem ég óttast að það kunni að gefa. Það er engin sönnun fyrir réttmæti þessa máls að búnaðarsamtökin, hin harðskipulögðu og vel skipulögðu, ein elstu samtök í landinu, hafi troðið þessu fram á sínum tíma.

Hins vegar er ekki nema von, þegar mörg mjög áríðandi mál iðnaðarins liggja óbætt hjá garði, að hæstv. iðnrh. reyni að borga á sig hjá iðnaðinum með því að betra sé þó að veifa röngu tré en öngu.