16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4403 í B-deild Alþingistíðinda. (3741)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Hæstv. forseti. Hér var vitnað í formann Félags ísl. iðnrekenda, að hann hefði verið hér í dag. Ég varð var við það, því að ég heilsaði honum og kvaddi hann með handabandi. Ég sagði honum, hvernig málin stæðu, og spurði að því hvort hann væri ekki sama sinnis og hann var þegar hann kom á fund iðnn. í gærdag. Hann sagði það vera. Hann sagði að málinu hefði verið spillt í Ed., en hann væri eigi að síður þeirrar skoðunar að það væri rétt að fylgja því sem forveri hans hefði lagt til. Það var að samþykkja umrætt gjald. Það var vitnað í bréfið í gær sem forveri Davíðs Schevings Thorsteinssonar skrifaði undir, forstöðumaður iðnaðardeildar SÍS skrifaði undir og formaður Landssambands iðnaðarmanna skrifaði undir. Allir óskuðu þeir eftir því að ríkisstj. flytti frv. í því formi, sem nú er, að öðru leyti en því að lagmetisiðnaðurinn kom við málið í Ed.

Hér var talað um að þetta mál hefði verið afgreitt á 15 mínútum í n., það hefði ekki verið lesið þar. En skyldu hv. þm. ekki hafa þá venju að lesa frv. í sætum sínum hér í hv. d., frv. sem liggja á borðunum fyrir framan þá? Það hefur verið minnst á að þetta frv. væri ekki torskilið. Það er einfalt í sniðum og hv. þm. Magnús Kjartansson snerist gegn málinu, að hann sagði hér í gær, vegna þess að það væri raunverulega svo einfalt, það væri ekkert annað en gjaldheimtan. Hann snerist gegn því af því að hann þóttist skilja málið. En hann snerist gegn því á skökkum forsendum eigi að síður. Hv. 3. þm. Austf. er það vel að sér, að ég er sannfærður um að hann hefur, a. m. k. eftir þær umr. sem nú hafa farið fram, skilið hvað í frv. stendur. Ég vil einnig trúa því að hann sé það velviljaður iðnaðinum að hann geti unnt þeim atvinnuvegi að fá ósk sína uppfyllta, sem kostar ríkissjóð ekki neitt, en gerir iðnaðinum eigi að síður mikið til þæginda og hagnaðar.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess að hv. d. samþykki þetta frv. nú við 3. umr. og að það megi verða að lögum, eins og iðnaðurinn óskar eftir.