16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4403 í B-deild Alþingistíðinda. (3742)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Það er sérkennileg árátta á hv. 1. þm. Sunnl. að svara ævinlega í dúr þegar hann er ávarpaður í moll. Hann segist vænta þess, að ég sé svo velviljaður iðnaðinum og ég vilji þess vegna samþykkja þetta frv. Ég hef verið og er velviljaður iðnaðinum og þess vegna tek ég mark á formanni Félags ísl. iðnrekenda. Svona sáraeinfalt er málið.

Hann nefndi sér til fulltingis handabönd sem hann hefði átt í að mér skildist í trúlofunarstíl, við formann Félags ísl. iðnrekenda. Ég hygg nú að handabandið hefði orðið traustara og trúverðugra ef svo óheppilega hefði ekki viljað til að hæstv. núv. iðnrh. tókst að fella hann frá þeim ráðherradómi með tveimur atkv.