16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4403 í B-deild Alþingistíðinda. (3743)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin, og ekki skal ég skipta mér af þeim innanflokksátökum. Ég vil aðeins votta það hér hvernig þetta mál bar að á sínum tíma. Það gerðist meðan ég gegndi starfi iðnrh. þá kom þangað það bréf, sem hér hefur verið vitnað til, undirritað af forustumönnum þriggja atvinnurekendasamtaka í iðnaði, þ. e. a. s. Félags ísl. iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna og iðnaðardeildar Sambands ísl. samvinnufélaga. Ég tók þessu vel og sagðist skyldu kanna málið á vinsamlegan hátt.

Þegar ég fór að kanna málið kom í ljós að Félag ísl. iðnrekenda taldi enga ástæðu til þess að flytja slíkt frv., og það ítrekaði Davíð Scheving Thorsteinsson á nefndarfundinum í gær. Hann sagði að þeir í Félagi ísl. iðnrekenda væru ekkert of góðir til þess að innheimta sín félagsgjöld sjálfir og teldu sig eiga mjög auðvelt með það. Slíkt hið sama tjáði mér forstöðumaður iðnaðardeildar Sambands ísl. samvinnufélaga, að hann hefði engan áhuga á því að þetta mál yrði flutt, og þess vegna hvarf ég frá því að flytja það. Auk þess er þetta mál annarlegs eðlis. Það skapar fordæmi sem menn verða a. m. k. að velta fyrir sér, og þar við bætist að samtök, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, sem er að sjálfsögðu allt öðruvísi samtök en þessi þrjú atvinnurekendasamtök sem ég hef greint frá, þau villtust inn í frv. í Ed. vegna þess að dm. virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því efni sem í því frv. felst. Mér finnst því einsætt og tel það ekki annað en lágmarkssanngirni af hæstv. iðnrh. að fallast á það að líta á málið dálítið betur til hausts. Það skiptir varla afskaplega miklu máli hvort þetta mál kann að verða lögfest nokkrum mánuðum fyrr eða síðar.