16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4406 í B-deild Alþingistíðinda. (3746)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Af því, sem fram hefur komið í ræðum hv. 3. þm. Austf. og hv. 3. þm. Reykv., er ekkert sem ástæða er til að svara. En þar sem hv. 7. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, telur ástæðu til þess að gera aths. við frv., þá tel ég rétt og skylt að rekja aftur þau atriði sem hann nefndi gegn frv.

Ég held að það kenni nokkurs misskilnings hjá hv. þm. þegar hann telur að sú tilhögun, sem farið er fram á í þessu frv., hljóti að draga mikinn dilk á eftir sér og verða til þess að fjöldi samtaka muni koma í kjölfarið. Hv. þm. gleymist það, sem margsinnis hefur verið tekið fram í umr., bæði hér og í Ed., og greinilega kemur fram í grg. frv., að fyrir þessu, sem hér er lagt til að gert verði, eru fordæmi sem staðið hafa í lögum í marga áratugi. Það mun hafa verið strax árið 1945 eða fyrir 30 árum sem lögfest var búnaðarmálasjóðsgjald sem bændur sjálfir greiða og leggst ekki á vöruna. Þetta gjald, sem bændur sjálfir greiða, skyldi skiptast milli Stéttarsambands bænda og búnaðarsambandanna. Ég minnist þess ekki að hv. þm. hafi fyrr hreyft aths. um þetta fyrirkomulag sem staðið hefur í þrjá áratugi.

Annað dæmi er það að samkv. lögum frá 1966 er svo ákveðið að hluti af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, sem framleiðendur sjávarafurða greiða, skuli renna til samtaka útvegsmanna og sjómanna. Þarna er annað atriði sem er algerlega hliðstætt.

Þessi tvenn lagaákvæði, sem hafa staðið áratugum saman, hafa ekki dregið þann dilk á eftir sér sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson er nú að spá, og ég tel engin rök liggja til þess að ætla, þó að hér komi þriðja atvinnugreinin til, iðnaðurinn, sem óskar eftir sams konar skipan, þó að það yrði lögfest, að það mundi draga nokkurn dilk á eftir sér. Þetta tvennt er gersamlega hliðstætt.

Þá er það í annan stað nokkur misskilningur að hér sé verið að fá atbeina ríkisvaldsins til þess að innheimta félagsgjöld til þessara félaga. Það er sérstaklega tekið fram, bæði í frv. og í grg., að þessu fé á að verja til eflingar iðnaði, til tækniaðstoðar og leiðbeiningar fyrir iðnaðinn í landinu.

Það var minnst á það hér að þetta ætti ríkissjóður að taka að sér án endurgjalds. Nú verður álagning þessa gjalds tiltölulega einföld þar sem fyrir er iðnlánasjóðsgjald sem verið hefur í lögum í mörg ár og er, að ég ætla, nú 0.5%. Það leggst á nákvæmlega sama stofn og það gjald sem hér er gert ráð fyrir og beinlínis ákveðið í frv., í 2. mgr. 1. gr., að þetta iðnaðarmálagjald skuli lagt á með iðnlánasjóðsgjaldi. Það er því ákaflega einfalt í framkvæmd.

Þegar því er haldið fram að verið sé að gera iðnaðinum einhvern óeðlilegan greiða með því að þetta skuli vera honum að kostnaðarlausu, þá má minna á að bæði iðnfyrirtæki og raunar atvinnureksturinn í mörgum greinum annast innheimtu á margvíslegum gjöldum fyrir opinbera aðila, gjöldum sem skipta milljörðum kr., og þessir innheimtuaðilar fá enga þóknun eða greiðslu fyrir. Það er rétt að hafa það í huga um leið og menn telja það eftir að sá háttur verði á hafður sem hér er lagt til að gert verði.

Varðandi það atriði, að Félag ísl. iðnrekenda óski ekki eftir framgangi þessa frv., þá er það misskilningur. Það liggur fyrir í bréfum, bæði eldri og nýrri bréfum frá þessum þrennum samtökum, að þau óskuðu sameiginlega eftir því að frv. yrði flutt, Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna og Samband ísl. samvinnufélaga. Þó að það muni hafa komið fram á fundi iðnn. Nd. að núv, formaður Félags ísl. iðnrekenda hafi haft sitt hvað við þetta að athuga, þá hefur mér ekki borist, hvorki munnleg né skrifleg, sú álitsgerð stjórnar Félags ísl. iðnrekenda að sú stjórn hafi breytt um viðhorf til þessa frv. Það stendur því óhaggað að þessi þrenn samtök standa að þessu frv.

Ég býst við því, eins og fram hefur komið hjá frsm. meiri hl. n., að aths. formanns Félags ísl. iðnrekenda hafi e. t. v. mest beinst að þeirri breytingu sem gerð var í Ed. En hún var sú, að ákveðið var að iðnaðarmálagjald það, sem greitt yrði af lagmeti, skyldi renna til Sölustofnunar lagmetisiðnaðar. Það kom nefnilega fram, þegar spurst var fyrir um þær verksmiðjur sem framleiða lagmeti, að aðeins ein þeirra er í Félagi ísl. iðnrekenda, en allar hinar utan við. Þess vegna var það málefnalega ekki óeðlileg brtt. frá iðnn. Ed. að gjaldið af lagmetisframleiðslu skyldi renna til þeirrar sölustofnunar.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. En þó er ekki hægt að skilja svo við þetta mál, að ekki sé minnst á þátt þess manns sem hér hefur nú beitt sér mest á móti þessu máli, hv. 3. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar. Svo er nefnilega mál með vexti, að meðan hann var iðnrh. fóru þessi samtök fram á að þetta frv. yrði flutt. Frv. var samið, iðnrh. þáv. féllst á að flytja það og lagði það fyrir fyrrv. ríkisstj. Það var samþykkt í vinstri stjórninni að málið skyldi flutt. Þegar til kom reyndust vera vissir formgallar á frv. sem þyrfti að skoða nánar. En áður en búið væri að lagfæra það hafði Alþ. verið leyst upp á s. l. vori og þess vegna var málið ekki lagt fram. En það er ástæða til þess að minnast á þetta vegna þess að þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík óhöpp henda þennan hv. þm. Þetta er í þriðja sinn hér á Alþ., sem hann snýst á móti málum sem hann hefur sjálfur sem iðnrh. beitt sér fyrir og tekið ákveðna afstöðu með.

Þetta hófst skömmu eftir stjórnarskiptin. Hann hafði lagt fram í sinni ráðherratíð frv. um verðjöfnunargjald á raforku. Þegar það var endurflutt af núv. stjórn eftir stjórnarskiptin snerist þessi hv. þm., höfundur og flytjandi frv. áður, algerlega á móti því, talaði á móti því og greiddi atkv. á móti því. Að ekki sé talað um hið fræga mál, járnblendiverksmiðjuna, sem hann hafði beitt sér fyrir í full þrjú ár og skrifað bréf til Union Carbide. Vitna ég þar ekki í óundirskrifuð eða óafgreidd drög að bréfum, heldur vitna í það bréf sem er undirskrifað af þessum hv. þm. sem iðnrh. og sent Union Carbide þar sem hann lýsir því yfir að „ríkisstj. og ég“ eins og hann orðar það oftar en einn sinni í bréfinu, — Lúðvík XIV. sagði: „Ríkið, það er ég,“ en þessi hæstv. ráðh. hafði annað orðalag: „Ríkisstj. og ég“ teljum það mjög mikilvægt að þetta mál komist í framkvæmd og lýsir eindregnum stuðningi sínum við það. Þegar svo málið er lagt fyrir Alþ. berst hann á hæl og hnakka gegn því. Nú höfum við þriðja tilvikið, og það er þetta mál, sem hann hefur sjálfur undirbúið og ætlað sér að flytja í fyrrv. ríkisstj. þótt honum ynnist ekki tími til þess. Nú telur hann því allt til foráttu og telur málið alveg fráleitt frá öllum hliðum. Stundum er sagt, að allt sé þegar þrennt er, en það má vel vera að við eigum eftir að lifa fleiri atvik af sama tagi.