16.05.1975
Neðri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4421 í B-deild Alþingistíðinda. (3749)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér er fullljóst, hvaða mál hér er á dagskrá. Það er mál um iðnaðarmálagjald sem á dagskrá er, og samkv. þingsköpum eiga menn að ræða á hverjum tíma þau mál sem á dagskrá eru. Ég vildi leyfa mér að biðja hæstv. forseta að finna ekki að því, þótt ég aðeins lesi hér upp, það eru 6 eða 6 línur, úr álsamningnum sem er íslensk lög og fékk lagagildi hér á Íslandi árið 1966. Í álsamningnum er D-kafli, sem heitir: „Lög sem fara skal eftir, deilur og gerð. 45. gr. Lög þau sem fara skal eftir.“ Það er af gefnu tilefni sem ég leyfi mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa þessa 21. gr.:

„Samning þennan ber að skýra, túlka og framkvæma samkv. ákvæðum hans,“ — en hann er orðinn íslensk lög, — „aðalsamningsins og hinna fskj., eftir því sem unnt er, og að öðru leyti fer um skýringu, túlkun og framkvæmd, gildi og áhrif samnings þessa að íslenskum lögum“.

Það var það, sem ég lagði áherslu á, þegar ég greip hér fram í áðan.

Rétt er svo það að það er í samningnum ákvæði um alþjóðlega gerð. En hún er þannig skipuð, að gerðardómstóll er skipaður einum manni af hálfu íslendinga og einum af hálfu svisslendinga og formaðurinn er úr hópi manna sem tilnefndir eru af Alþjóðabankanum, svokallaðri SID-gerðardómssamþykkt. Öll ríki Alþjóðabankans eru aðilar að þeim gerðardómi, og engu af þeim ríkjum hefur nokkurn tíma dottið í hug að þau með því afsöluðu sér sinni lögsögu. En mér er ekki kunnugt um að jafn ákveðin ákvæði og eru einmitt í lögum okkar íslendinga hér séu um það, að það skuli fara um ágreining, sem kemur upp á milli ríkjanna, eins og beinlínis segir: að íslenskum lögum.

Meira þarf ég ekki að segja til staðfestingar því að rétt var það sem ég greip fram í hjá síðasta hv. ræðumanni.