02.12.1974
Neðri deild: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

55. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þetta frv. til l. um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi og vænti þess að það fái jákvæðar undirtektir á þessu þingi og verði afgr. sem lög.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. mun þetta lagafrv. ekki hafa fengið afgreiðslu hér á þingi þrátt fyrir það að aðilar verslunarinnar í landinu hafi lýst yfir eindregnum stuðningi við frv. í því formi sem það er nú lagt fram. Þetta frv. hefur mjög mikla þýðingu, ekki aðeins fyrir verslunina í heild, heldur einnig fyrir þau hundruð nemenda sem stunda nám í Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólanum.

S.l. fimmtudag var ég staddur á nemendafundi í Verslunarskóla Íslands, þar sem voru um 300–400 nemendur, og þeir ræddu af alvöru og ábyrgð um það frv. sem hér liggur fyrir Alþ. Það fer ekki á milli mála að þessi mikli fjöldi nemenda hafði mikinn áhuga á því að frv. yrði samþ. og Alþ. með þeim hætti styddi viðleitni þessa unga fólks til þess að verða betri og hæfari þegnar í þjóðfélagi okkar. Það er því von þessara nemenda og ég færi þau skilaboð — með leyfi hæstv. forseta, að Alþ. taki vel á þessu frv. og samþykki það eins og það liggur fyrir. Með því vinnst í fyrsta lagi fyrir nemendur á viðskiptasviði að öll námsskilyrði verða mun betri, í öðru lagi skapast betri möguleikar til þess að reka þessar stofnanir, Verslunarskólann og Samvinnuskólann, á viðunandi hátt, en vitað er að báðir þessir skólar hafa verið í svelti hvað rekstrarfé áhrærir í fjölda ára og hafa því miður ekki fengið álíka undirtektir hjá hinu opinbera sér til stuðnings sem margir aðrir framhaldsskólar. Til viðbótar kemur það í öðru lagi að stofnkostnaður þess kennsluhúsnæðis, sem nota verður í framtíðinni vegna þessarar menntunar, verður greiddur úr ríkissjóði að 80%. Hefur það geysilega mikla þýðingu fyrir þessa skóla báða. Í þriðja lagi mun frv. gera skólunum kleift að vera með námsefni sem bæði verður viðtækara og betra en þessir einkaskólar hafa getað leyft sér að hafa til þessa.

Viðskiptamenntun hefur því miður ekki skipað þann sess né notið þeirrar viðurkenningar sem skyldi. Verslun og viðskipti verða stöðugt mikilvægari atvinnugrein í verkaskiptingu þjóðanna og einnig hér innanlands. Hefur því mikla þýðingu fyrir þjóðina í heild hvernig haldið er á viðskipta- og verslunarmálum. Góð skilyrði til menntunar á þessu sviði eru besta leiðin til að tryggja að góður árangur náist fyrir þjóðarbúið. Að því er stefnt með þessu frv. sem til þessa hefur ekki fengið afgreiðslu á Alþ., en eins og hæstv. menntmrh. sagði áðan er Alþingi nú skipað með öðrum hætti en á síðasta þingi og þess er því að vænta að betri skilningur ríki fyrir jákvæðri afgreiðslu þessa máls.