02.12.1974
Neðri deild: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

56. mál, Námsgagnastofnun

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Fyrrv. menntmrh., hv. 3. landsk. þm., Magnús T. Ólafsson, skipaði n. í júlí 1972 til þess að endurskoða l. um Ríkisútgáfu námsbóka og lög um Fræðslumyndasafn ríkisins með það fyrir augum, hvort ekki þætti tiltækilegt að sameina þessar stofnanir og tryggja sem hagkvæmast samstarf þeirra í milli og þá einnig við skólarannsóknadeild menntmrn. Í ráði var um hríð og lagaheimild er raunar fyrir því að sameina fræðslumyndasafnið og menntmrn., en við nánari athugun var talið réttara að kanna hvort ekki væri hentugra að sameina fræðslumyndasafnið ríkisútgáfu námsbóka. Í þeirri n., sem skipuð var til þess að endurskoða framangreind lög, áttu sæti Andri Ísaksson prófessor, sem var formaður n., Benedikt Gröndal forstöðumaður Fræðslumyndasafnsins, Ingi Kristinsson skólastjóri, Jón Emil Guðjónsson framkvstj. Ríkisútgáfu námsbóka og Guðbjartur Gunnarsson kennari. Hinir tveir síðast nefndu gátu lítinn þátt tekið í störfum n. vegna fjarveru á því tímabili, sem n. einkum starfaði, en í stað Jóns Emils starfaði þá Gunnar Guðmundsson skólastjóri Laugarnesskólans, þáv. staðgengill Jóns hjá Ríkisútgáfunni. Auk nefndarmanna, sem ég hef nú greint, vann Guðný Helgadóttir fulltrúi í menntmrn. með n. að undirbúningi og öðrum störfum.

Samhljóða frv. þessu var lagt fyrir 94. löggjafarþing til kynningar. Það var lagt fram seint á þingi og ekki gert ráð fyrir að það yrði afgreitt þá.

Meginefni þessa frv. er að sameina Ríkisútgáfu námsbóka og Fræðslumyndasafn ríkisins í eina stofnun undir heitinu Námsgagnastofnun. Jafnframt er leitast við að efla þessa nýju stofnun til þess að gegna því þýðingarmikla hlutverki að sjá íslenskum skólum fyrir sem bestum og fullkomnustum náms- og kennslugögnum og annast framleiðslu, útgáfu og miðlun hvers konar námsefnis og kennslutækja og fylgjast með margvíslegum nýjungum á þessu sviði, jafnframt því sem henni er ætlað að halda uppi fræðslu- og upplýsingastarfsemi meðal kennara að því er þessa þætti varðar.

Frv. fylgir mjög ítarleg grg. í aths. þess og ég ætla að spara tíma hv. þd. með því að leyfa mér að vísa til aths. með frv. og hafa ekki fyrir því lengri framsögu. En ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.