03.12.1974
Sameinað þing: 15. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

Minningaríbúð um Jón Sigurðsson

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Áður en gengið er til dagskrár leyfi ég mér að tilkynna hv. Alþingi að s.l. sunnudag afhentu forsetar Alþingis húsnefnd Jóns Sigurðssonar-hússins í Kaupmannahöfn til umráða og varðveislu minningaríbúð um ævi og störf Jóns Sigurðssonar. Fór afhendingin fram við hátíðlega athöfn í húsinu sjálfu. Viðstaddir athöfnina voru: Ásgeir Bjarnason, forseti Sþ., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, forseti Ed. og Ingvar Gíslason, varaforseti Nd. Forseti Sþ. hafði orð fyrir þingforsetum við athöfnina, en Sigurður Bjarnason sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn stjórnaði athöfninni. Þá var einnig viðstaddur af hálfu Alþingis Friðjón Sigurðsson skrifstofustjóri.

Eins og kunnugt er hafa þeir Lúðvík Kristjánsson sagnfræðingur og Steinþór Sigurðsson listmálari hin síðari ár unnið að því, skv. ósk og að ráði þingforseta, að búa minningaríbúðina í þann stakk sem hún nú hefur. Við athöfnina í Kaupmannahöfn s.l. sunnudag lýsti Lúðvík Kristjánsson minningaríbúðinni og gerði grein fyrir verki þeirra félaga.

Ég vil að lokum minnast þess, að Karl Sæmundsen, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn og kona hans gáfu Alþingi hús Jóns Sigurðssonar fyrir nokkrum árum og er þar að leita upphafs þessa máls.