03.12.1974
Sameinað þing: 16. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

310. mál, samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Umr. þessar hafa eins og vænta mátti farið nokkuð á við og dreif, en ég hygg þó, að eftirtektarvert sé, að umr. hafa hnigið að uppgjöri milli fyrrv. stjórnarflokka innbyrðis fremur en að efni málsins sjálfs, hvort heldur er um breytingar á fyrirkomulagi íslenskra varna eða þá varðandi þörf á vörnum á íslandi.

Um leið og ég vek athygli á þessu, þá finnst mér líka skylt að vekja athygli á því, þegar hv. 3. þm. Reykn. er að ræða þessi mál, þá hefur hann sérstaklega orð á því, að í málefnasamningi fyrrv. ríkisstj. hafi reyndar orðalagið verið óljóst að því er varðar varnarmál. Þetta vildu þeir alþb.-menn ekki viðurkenna meðan fyrrv. ríkisstj. sat að völdum. Það er enn fremur eftirtektarvert, að það gætti töluverðrar sjálfsgagnrýni, jafnvel sjálfsásökunar, hjá þessum hæstv. þm., þar sem hann var að tala um, að e.t.v. hefði eftirrekstur þeirra alþb.-manna ekki verið nægilegur á framkvæmd hins óljósa orðalags. En hvað snertir uppgjör við fyrrv. samstarfsflokk, þá læt ég þá um að kljást um það og geri það ekki frekar að umræðuefni.

Eins og kom fram í ræðu utanrrh. hefur nú verið lokið við endurskoðun varnarsamningsins samkv. 7. gr. hans með þeim árangri, að engar breytingar hafa verið gerðar á samningnum og honum verður ekki sagt upp nema með 18 mánaða fyrirvara, eins og mælt er fyrir um í 7. gr. hans. Hins vegar hafa verið gerðar nokkrar breytingar á fyrirkomulagi varnanna í samræmi við stefnuskrá núv. ríkisstj., en þar eru einkum tvö atriði, sem máli skipta, ef ekki þrjú. Það er í fyrsta lagi aðskilnaður almenns flugs á Keflavíkurflugvelli og varnarstarfseminnar. Það er í öðru lagi búferlaflutningur allra varnarliðsmanna á varnarsvæðið eða Keflavíkurflugvöll. Og það er í þriðja lagi aukin þátttaka íslendinga í störfum þeim, sem innt eru af hendi á Keflavíkurflugvelli. Öll þessi atriði, sem stjórnarflokkarnir eru sammála um, horfa til bóta í framkvæmd varnarsamningsins og í því sambandi tel ég ekki ástæðu að fara mörgum fleiri orðum um þessar breytingar, en vil þó taka það fram að gefnu tilefni, að auðvitað er nauðsynlegt að hefja ýmsar framkvæmdir til að gera þessar breytingar að veruleika.

Það má að vísu vera matsatriði, hvort hér er um stórframkvæmdir að ræða eða ekki. En hvort heldur menn vilja kalla þetta miklar eða litlar framkvæmdir, þá geta þær vissulega valdið röskun á efnahagslífi landsmanna, ef ekki er að gætt og fylgst með því, að þær dragi ekki til sín vinnuafl frá framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar. Á það verður lögð áhersla. Þá hygg ég, að það sé að vilja flestra íslendinga, að sú fækkun eigi sér stað í varnarliðinu, sem samrýmanleg sé öryggi landsins, þannig að það sé ekki skert. Og sú fækkun gerir það nauðsynlegt, ef eftirlitsstarfsemi á áfram að halda frá Keflavíkurflugvelli, að íslendingar taki aukinn þátt í þeirri starfsemi, sem þar er unnin. ég tel aukna þátttöku íslendinga í þessari starfsemi hafa þannig tvíþætt gildi. Annars vegar verður þessi aukna þátttaka íslendinga í þessum störfum til þess að unnt er að fækka varnarliðsmönnum, og hins vegar er þátttaka íslendinga í ýmsum störfum á Keflavíkurflugvelli, m.a. og helst varðandi eftirlit um umferð umhverfis landið, til þess fallin að íslendingar sjálfir sinni þeirri sjálfsögðu skyldu að fylgjast með, hvaða umferð fer fram í loftinu yfir og umhverfis landið í sjónum, hvort heldur er ofan sjávar eða neðan sjávar í kringum landið. Ég er ekki smeykur við að þessi aukna þátttaka íslendinga í þessum störfum verði til þess að draga mátt úr íslenskum sjávarútvegi frekar en framkvæmdir þær, sem nauðsynlegar eru til að koma breytingunum á, heldur sé unnt að gera hvort tveggja, að koma í framkvæmd aukinni þátttöku íslendinga í störfum á Keflavíkurflugvelli og koma á breytingum þeim, sem það samkomulag, sem hér er á dagskrá, gerir ráð fyrir, án þess að draga mátt úr íslenskum sjávarútvegi eða öðrum atvinnuvegum landsmanna.

Ræðumenn hafa gagnrýnt, að samkomulag það, sem hér um ræðir, sé lauslega orðað. Í því sambandi vil ég aðeins taka það fram, að varnarsamningurinn frá 1951, sem er til grundvallar þessu samkomulagi, er svo eindreginn og ákveðinn að öllu leyti, eins og raunar ég hygg að hv. þm. Kjartan Ólafsson hafi einmitt skýrt tekið fram, að réttur íslendinga er alger og sjálfstæður. Við þurfum ekki að spyrja bandaríkjamenn um, hvernig við viljum í raun og veru framkvæma varnarsamninginn, nema að svo miklu leyti sem við óskum eftir atbeina þeirra. Ef eitthvað er í því samkomulagi, sem við erum hér að ræða í dag, sem óljóst er og við þurfum að knýja á bandaríkjamenn að efna eða framkvæma, þá getum við með tilvísun til varnarsamningsins frá 1951 krafist þess, að þeir framkvæmi nefnt atríði samkomulagsins. Og ef það er svo mikilvægt, að það geti ráðið úrslitum um afstöðu okkar, þá getum við bent þeim á, að við höfum vald til þess bæði að krefjast endurskoðunar varnarsamningsins og uppsagnar, þannig að í þessu felst engin hætta, en er sjálfsögð kurteisisskylda, að í samningum sé gert ráð fyrir því, að tekið sé tillit til beggja samningsaðila.

Það skýtur og nokkuð skökku við að heyra þá fulltrúa Alþb., sem hér hafa talað í dag, hafa uppi ýmsar getgátur um það, hvað fólgið sé í fyrirætlunum samkomulagsins um nánari samvinnu landhelgisgæslunnar íslensku, almannavarna og varnarliðsins. Þessir menn og málgagn þeirra hafa krafist þess, að varnarliðið tæki til varna, þegar erlend fiskiskip hafa brotið rétt á okkur íslendingum og tekið til við veiðar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Ég vil taka það fram, að ég tel það algerlega óraunhæft og út í bláinn að setja slíka kröfu fram, því að varnarliðið eða þátttaka okkar í Atlantshafsbandalaginu getur ekki leyst innbyrðis ágreiningsatriði Atlantshafsbandalagsríkjanna sjálfra þeirra á milli. Því er væntanlega aukin samvinna á þessu sviði fyrst og fremst til þess fallin, að við sameiginlega fáum upplýsingar frá þeim og getum með þeim hætti betur gert okkur grein fyrir því, hverjir fara um okkar næsta nágrenni.

Ég skal ekki fara nánar út í einstök atriði samkomulagsins. Ég býst við því að hæstv. utanrrh. geri það, að svo miklu leyti sem tilefni hefur gefist til og fsp. hefur verið til hans beint. En ég vil taka það fram, að með þessu samkomulagi stendur óskert og óhaggað, að íslendingar eiga rétt til þess með einhliða yfirlýsingu að segja varnarsamningnum upp, þegar þeir telja hann ekki lengur nauðsynlegan. Við sjálfstæðismenn höfum haldið því fram, allt frá því að varnarsamningurinn var gerður 1951, að það yrði að fara eftir mati á aðstæðum á hverjum tíma, hvort varnarlið dveldist hér á landi eða ekki. 1949 og 1951 var var það skýrt þannig, að hér á landi skyldi ekki vera her á friðartímum. 1951 var styrjöld í Kóreu talin verða til þess, að nauðsynlegt væri að hafa hér varnarlið, þ.e.a.s. styrjaldarátök í Kóreu voru talin verða til þess, að um ófriðartíma væri að ræða

Frá lokum síðustu heimsstyrjaldar hafa brotist út átök og styrjaldir 54 eða 55 sinnum og samkv. því hafa sjaldan eða aldrei verið friðartímar í heiminum samkv. upprunalegri skilgreiningu, þegar við gengum í Atlantshafshandalagið og þegar við gerðum varnarsamninginn 1951. Og samkv. þeirri skilgreiningu eða samanburði væru ekki heldur friðartímar nú. En Bjarni heitinn Benediktsson, sem hv. þm. Kjartan Ólafsson vitnaði til áðan, skilgreindi einnig friðartíma og benti á, að vegna tækniframfara og breytinga í hernaðartækni, væri ekki rétt að miða við hugtakið friðartímar, heldur yrði að meta og vega aðstæður á alþjóðavettvangi hverju sinni, þegar menn tækju afstöðu til þess, hvort hér væri þörf varnarliðs eða ekki. Þetta er stefna Sjálfstfl. Sjálfstfl. telur það skyldu íslensku þjóðarinnar, ef hún vill vernda sjálfstæði sitt og öryggi, að meta það og vega hverju sinni, hvort þörf er á varnarliði hér á landi eða ekki. Og þegar það er gert, þá er hollt og rétt að hafa í huga hvaða hlutverki varnarliðið á að gegna. Það á í fyrsta lagi að stuðla að því að friður og friðarástand haldist í okkar heimshluta og koma í veg fyrir að árás verði gerð á landið. Það á í öðru lagi að reka héðan flug til eftirlits með siglingum í og á hafinu kringum landið og fylgjast með ferðum ókunnra flugvéla um íslenskt flugstjórnarsvæði svo og erlendra skipa ofan og neðan sjávar til að tryggja tímanlegar upplýsingar m.a. um hernaðarleg umsvif. Og það á í þriðja lagi, ef svo illa tekst til að með því er talið var áður tekst ekki að tryggja frið, að veita þá viðnám gegn árás á landið, ef gerð yrði, og halda uppi vörnum þar til frekari liðsauki berst. Ég hygg, að meiri hluti íslensku þjóðarinnar hafi goldið samþykki sitt við þessum sjónarmiðum í kosningunum í vor og það hafi hvorki verið meiri hl. á Alþ. því, er lét af störfum á s.l. vori, né á því Alþ., sem nú situr að störfum, fyrir því að gera Ísland varnarlaust. Að þessu leyti er Alþ. spegilmynd af skoðunum þjóðarinnar sjálfrar, eins og vera ber í lýðræðisríki.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. kemur fram það markmið, að Keflavíkurstöðin geti gegnt hlutverki sínu í samræmi við öryggishagsmuni Íslands á hverjum tíma. Í kosningastefnuskrá sjálfstæðismanna í utanríkis- og varnarmálum var tekið fram, að eitt af meginhlutverkum ríkisstj. væri að gera þjóðinni á hverjum tíma rækilega grein fyrir því, hvaða ytri atvik ráði mestu um öryggishagsmuni hennar. Ég tel, að með samkomulagi því, sem nú er gert við Bandaríkjastjórn, hafi skapast grundvöllur fyrir því, að stöðug athugun á varnar- og öryggishagsmunum landsins geti farið fram innan ramma varnarsamningsins og þannig sé unnt að breyta fyrirkomulagi varna á hverjum tíma, eins og best samrýmist hagsmunum íslendinga. En auk þess er það skylda stjórnvalda og ég tel það skyldu núv. ríkisstj. að fylgjast svo með atburðarás og viðhorfum á alþjóðavettvangi, að unnt sé að hafa þessi mál öll í stöðugri endurskoðun og breyta um ýmislegt í framkvæmd varnarsamningsins, þegar ástæða þykir til.

Ef við leiðum hugann að því, hvað það er, sem við íslendingar þurfum að kanna í þessu sambandi sérstaklega, þá hygg ég, að það fari ekki á milli mála, að það sé fyrst og fremst, að við verðum að fylgjast með umferð umhverfis landið. Við verðum að vita um það, hverjir fara um okkar næsta nágrenni. Í þessu sambandi er ómetanlegt það starf, sem rekið er frá Keflavíkurflugvelli og af Atlantshafsbandalaginu. Við getum ekki gert okkur grein fyrir því, íslendingar, hvaða hættur steðja að öryggi okkar, ef við höfum ekki fullkomnar upplýsingar og yfirlit yfir þá og þau tæki, sem eru á ferð og á sveimi umhverfis okkar land.

Þá hlýtur það að vera skylda okkar að fylgjast svo með alþjóðastjórnmálum, að við gerum okkur grein fyrir því, hvort á hverjum tíma sé um hættuástand að ræða eða ekki. Ég held, að ég ýki ekki, að frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafi stjórnmálamenn og fréttamenn sjaldnast verið jafnsvartsýnir um horfur og um þessar mundir. Þessi svartsýni stafar ekki fyrst og fremst af því, að spennan hafi aukist milli austurs og vesturs, heldur af því, að þrátt fyrir samkomulagsumleitanir milli austurs og vesturs hefur ekki tekist að ná neinum áþreifanlegum árangri, nema þeim árangri sem nýorðinn er í samningum milli rússa og bandaríkjamanna varðandi eftirlit með framleiðslu og notkun kjarnorkuvopna. Ef við lítum á árangur öryggismálaráðstefnu Evrópu eða funda um gagnkvæman og sameiginlegan samdrátt herja í Mið-Evrópu, þá hefur sá árangur verið sorglega lítill. Það má hins vegar gleðjast yfir því, að Austur og Vestur talast við, og það er fyrsta skilyrðið til þess að samkomulag náist. Við íslendingar stuðlum svo best að því að árangur náist í þeim samningaviðræðum, að við tökum fullkominn þátt í varnarbandalagi Atlantshafsríkjanna, þar til áþreifanlegur árangur er kominn í ljós. Það má tala fjálglega um það, að jafnvægi í alþjóðastjórnmálum hafi ekki gildi fyrir fámenn ríki. ég hygg, að við, sem erum sjálfstætt ríki, hljótum að óska eftir því að jafnvægisleysi verði ekki til þess að við missum okkar sjálfstæði. En það er vissulega hætta á því, ef tómarúm skapast hér á Íslandi, að sterk öfl mundu þá flæða að landinu, svo að ekki sé sagt yfir landið.

Ég held líka, að svartsýni manna á viðhorfin í alþjóðastjórnmálum eigi rætur sínar að rekja til ástandsins í efnahagsmálunum, til olíuvandamálsins, sem gerir það að verkum, eins og ég hygg að við öll, sem hér sitjum inni, gerum okkur grein fyrir, að setið er á sprengju í Mið-Austurlöndum nær og hvaða dag sem er getum við vaknað upp við það, að þar hafi styrjöld brotist út, og þegar styrjaldarbál er kveikt á einum stað, er ekki að vita hve mikið það kunni að breiðast út.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu lengri. En ég skal þó taka það fram að gefnu tilefni, að frændþjóðir okkar, danir og norðmenn, hafa ekki eingöngu talið óþarfa að hafa erlent varnarlið vegna þess að þeir hafa sinn eigin her, heldur og vegna þess að vegna legu sinnar eru þessi ríki í nánari tengslum við önnur Atlantshafsbandalagsríki heldur en við, sérstaklega þó danir. Hvað norðmenn snertir er stöðugt um að ræða heræfingar, varnaræfingar og heimsóknir frá bandalagsríkjum innan Atlantshafsbandalagsins, sem gerir það að verkum, að um sama gagn er að ræða og ef erlent varnarlið væri þar.

Um það viðhorf í lýðræðisríkjum að vilja draga úr hernaðarútgjöldum og stærð herja er það að segja, að þetta er eðlilegt viðhorf. Það er sama viðhorf og hjá okkur íslendingum að vilja helst vera lausir við erlent varnarlið héðan af landi. Að þessu leyti mega lýðræðisríki gæta sín að sofna ekki á verðinum, þeim verði sem nauðsynlegt er að halda til þess að tryggja sjálfstæði og öryggi landanna. Í einræðisríkjum er ákaflega einfalt fyrir valdhafana að segja þegnunum, hvað þeir verði á sig að leggja til þess að halda vígbúnaðarkapphlaupinu áfram og skara fram úr í því. Þar er einræðisherrann alvaldur og hann getur skammtað mönnum brauð og smjör og daglegar lífsþurftir. Í lýðræðisríkjum verður það ekki svo. Þar þarf fólkið sjálft að vera sér þess meðvitandi að þörf er aðgæslu, þörf er að vera á verði. Og meðan einræðisríki er til, sem yfir vopnavaldi búa, þá eru lýðræðisríki ekki óhult. Við þurfum ekki annað en rifja upp söguna hvernig önnur heimsstyrjöldin komst af stað. Við hefðum þá gjarnan viljað að lýðræðisríkin hefðu verið á verði og eytt meiru í hernaðarútgjöld. Við erum þeirrar skoðunar og þeirrar sömu skoðunar voru flokksbræður hv. þm. Gils Guðmundssonar og Kjartans Ólafssonar fyrir seinni heimsstyrjöldina, að hefðu lýðræðisríkin þá verið á verði, þá hefði e.t.v. ekki komið til þeirrar styrjaldar og nasisminn ekki orðið sá ógnvaldur og bölvaldur sem raun bar vitni í annarri heimsstyrjöldinni.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja áherslu á það, sem hér hefur verið á minnst, að það er nauðsyn að íslendingar reyni eftir fremsta megni að ná sem mestri samstöðu í meðferð utanríkismála sinna. Það á ekki að nota utanríkismálin sem tæki eða vopn í baráttu flokkanna innanlands. Við eigum að hefja okkur upp yfir það að gera utanríkismálin á ábyrgðarlausan hátt að bitbeini í innanríkismálabaráttu okkar. Þegar við leitum sem víðtækastrar samstöðu meðal þjóðarinnar, þá held ég að það fari ekki á milli mála, að takmarkið hljóti að vera að vernda sjálfstæði og öryggi landsins.

Hér á Alþ. eru fulltrúar 5 stjórnmálaflokka. Ég hygg að það sé hægt að segja að þrír þeirra hafi skýra og ákveðna afstöðu til þess, að þátttaka í varnarbandalagi Atlantshafsríkjanna sé íslendingum nauðsynleg. Jafnvel mun hluti fjórða stjórnmálaflokksins vera sömu skoðunar. Það er aðeins einn stjórnmálaflokkur hér á Alþingi íslendinga, sem telur það ekki þjóna sjálfstæðishagsmunum íslendinga. Í þessum efnum er því mjög viðtæk samstaða meðal íslendinga hvað snertir þátttökuna í Atlantshafsbandalaginu. Og ég hygg að varðandi spurninguna um dvöl varnarliðs á Íslandi sé einnig töluverð samstaða meðal þessara flokka. Við teljum eðlilegt og sjálfsagt, að hér séu varnir í landinu fyrst um sinn, en síðar kunna leiðir að einhverju leyti að skilja, hvernig meta skuli viðhorfin í alþjóðastjórnmálum að þessu leyti, hve miklar varnirnar skuli vera, hve viðtæk þau varnar- og eftirlitsstörf, sem héðan eru rekin, eða hvernig þeim skuli háttað. Við skulum fremur leita samstöðu að þessu leyti, þessir 3 stjórnmálaflokkar og jafnvel 4 stjórnmálaflokkar, sem hér eiga fulltrúa á Alþ., heldur en gera mikið úr því sem kann að skilja á milli okkar í einstökum túlkunaratriðum eða matsatriðum á þessu sviði. Á þessum grundvelli hygg ég að unnt sé að ná víðtækri þjóðarsamstöðu í varnar- og öryggismálum, sem er skilyrði fyrir því að við getum tryggt sjálfstæði okkar í framtíðinni.