04.12.1974
Efri deild: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

52. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið þetta frv. til athugunar og meðferðar. N. kallaði á sinn fund stjórnarformann Happdrættis Háskóla Íslands sem skýrði fyrir n. frv. og tilgang þess.

Með þessu frv. er stefnt að því, að það verði unnt að standa við þær framkvæmdir hjá Háskóla Íslands, sem teljast mjög brýnar á næstunni, og þessi breyt. á l. um Happdrætti Háskóla Íslands mundi gera Happdrætti Háskólans kleift að efla starfsemi sína á næstunni, þannig að unnt væri að standa við fyrirhugaðar framkvæmdir.

Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands hefur farið þess á leit og dómsmrh. gerði það reyndar einnig í framsögu sinni, að máli þessu verði hraðað eins og kostur er. því vil ég fara þess á leit, herra forseti, að að lokinni þessari umr. fari 3. umr. einnig fram, þannig að hægt verði að afgreiða þetta mál frá Ed. í dag.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta mál, en n. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt.