04.12.1974
Neðri deild: 15. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það mátti heyra á ræðu hv. 3. þm. Reykv. að þau orð, sem ég lét hér falla áðan, komu ekki vel við hann. Ég skil það líka mætavel. Hann vildi gjarnan reyna að láta líta svo út sem ég hafi ekki farið með rétt mál og að hans afstaða í þessum málum öllum hafi verið hin eðlilegasta og það sé ekkert út á það að setja hvernig hann brást við, þegar til hans var leitað í sambandi við nýtingu innlendrar orku.

Hann vék að gjaldskrárbeiðnum Reykjavíkurborgar, og eins og hann orðaði það að það hafi komið til sín sendinefnd eftir sendinefnd og þá úr Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði. Þetta er alveg hárrétt. Sendinefndir frá öllum þessum byggðarlögum fóru til hæstv. fyrrv. iðnrh. Vegna hvers ? Halda menn að þeir hafi farið í erindisleysu til þessa ráðh.? Nei, erindi þeirra var að að ýta við ráðh., vekja hann til umhugsunar um nýtingu innlendrar orku. (MK: Þetta er úrlausn hjá þér, en ekki hjá Reykjavíkurborg). Úrlausn ráðh. var sú, að 4–5 mánuðum eftir að Reykjavikurborg hafði beðið um gjaldskrárhækkun, þá var leyfið veitt. En hvað hafði þá skeð í millitíðinni ? Hæstv. fyrrv. iðnrh. gerði sér grein fyrir þeirri óðaverðbólgu sem var í landinu. Hann vissi að ef hann dró nógu lengi að svara Reykjavíkurborg, veita umbeðna gjaldskrárhækkun, þá væri arðsemi þessa fyrirtækis komin aftur niður fyrir núll og þess vegna ekki hægt að ráðast í þær framkvæmdir sem Hitaveita Reykjavíkur hafði hugsað sér að gera. Honum er fullvel ljóst að það er skilmáli þeirra samninga sem Hitaveita Reykjavíkur hefur gert í sambandi við lán á alþjóðavettvangi að fyrirtækið skili 7% arðsemi til þess að hægt sé að ráðast í nýjar framkvæmdir. Þannig lék þessi fyrrv. hæstv. ráðh. sér að þeirri óðaverðbólgu sem í landinu var, dró Hitaveitu Reykjavíkur hvað eftir annað á svari og það auðvitað framkallaði allar þær sendinefndir sem voru að ónáða ráðh, í hans ráðherratíð og hann sagði frá hér áðan. Og þegar hann að lokum vaknaði, þá sló hann bara í borðið og sagði við borgarstjórann í Reykjavík: Jæja, nú er ekkert með það, nú fær Hitaveita Reykjavíkur hækkunina, enda standið þið við ykkar samninga. — Menn muna þegar þetta bréf var skrifað, og það hlógu margir þegar hæstv. þáv. iðnrh. skrifaði borgarstjóranum í Reykjavík bréf til þess að reyna að láta líta þannig út að það væri Hitaveita Reykjavíkur sem á hefði staðið, en ekki þáv. hæstv. iðnrh.

Varðandi Hitaveitu Suðurnesja er mér það fullkomlega ljóst að þeir aðilar sneru sér til fjmrn. varðandi þetta mál, varðandi skattlagningu þessa fyrirtækis. Niðurstöðurnar urðu þær hins vegar að ríkið yrði aðili í sambandi við stofnun þessa félags, þar sem þar syðra væri notandi sem ríkið bæri vissa ábyrgð á. Þegar leitað var umsagnar iðnrn. var sagt: Þá verður hér að vera a.m.k. 50% eign ríkissjóðs. — Það var umsögnin og það var það sem kom frá rn. sem aðeins fylgdist með, eins og hæstv. fyrrv. iðnrh. vildi láta líta út áðan.

Hann vék að þeim orðum mínum þar sem ég sagði að hann hefði þá fyrst vaknað þegar orkukreppan skall á. Ég minnti á það sem þessi hv. þm., fyrrv. hæstv. iðnrh., sagði sjálfur og ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp hér upphafið að hans ræðu. Hann sagði:

„Í haust, þegar sýnt var hver þróunin væri framundan í olíumálum, þ.e. olíuskortur og mjög stórfelldar verðhækkanir olíu, sem flestir fróðir menn töldu að væru komnar til frambúðar, þótti mér einsætt að okkur íslendingum hæri að endurskoða öll áform okkar um nýtingu innlendra orkugjafa.“

Það var ekki fyrr en orkukreppan skall á sem þáv. iðnrh. taldi ástæðu til þess að endurskoða, eins og hann orðar það, -endurskoða öll áform okkar um nýtingu innlendra orkugjafa. Þá var hann búinn að sitja í ráðherrastól í 21/2 ár og hafði ekkert gert í því að endurskoða þessi mál, að hann segir hér.

Síðan vék hann að Sigöldu og þeirri virkjun sem þar er unnið að og hver hefði verið hugsun hans í sambandi við Sigölduvirkjun. Það má m.a. benda þessum hv. þm., fyrrv. hæstv. ráðh., á það að hann hugsaði sér að í sambandi við Sigölduvirkjun yrði leitað eftir fyrirtæki sem hér yrði stofnsett, — fyrirtæki sem þyrfti mikla orku. Hann setti þess vegna á stofn n. um orkufrekan iðnað og þegar hann fór úr ráðherrastól stóð til að hans dómi að hér yrði byggð verksmiðja, málmblendiverksmiðja, og það var hans fyrirætlan þegar hann fór úr ráðherrastól. Að sjálfsögðu hugsaði hann sér samtengingu á milli Sigölduvirkjunar og málmblendiverksmiðjunnar sinnar fyrirhuguðu við Hvalfjörð.

Hann vék að byggðalínu og vildi tengja. Jú, það er alveg rétt. Hann hafði stór orð um tengilínu þegar hann tók við og hún skyldi liggja norður yfir allt hálendið. Það var alveg sama hvernig íslensk vetrarveðrátta yrði, þangað skyldi lögð lína, hundurinn norður sem kallaður var, og það hlaut að vera af vonsku fyrrv. iðnrh. að ekki hafði verið lögð lína norður í land til þess að tengja saman raforkukerfið. Þessi lína var ekki byggð í tíð fyrrv. hæstv, iðnrh. Hann komst síðar meir á þá skoðun að fenginni reynslu að hyggilegra væri að standa að byggðalínu, sem meira og minna var vitað að kæmi upp eftir því sem orkuverin yrðu byggð, og kom á seinustu stundu fram með till. þar um. Og bann hafði ekki fyrirhyggju, eins og ég sagði áðan, til þess að tryggja fjármagn í sambandi við þær framkvæmdir. Það lét hann öðrum eftir, eins og hann sagði sjálfur, hæstv. fyrrv. fjmrh. og svo að sjálfsögðu þeim sem tók við af honum.

Ég hjó eftir því í lok ræðu hv. 3. þm. Reykv. að hann vonaðist til þess að þrátt fyrir neikvæða stefnu hæstv. iðnrh. í þessu máli, væri núv. fjmrh, ekki sama sinnis. Ég veit ekki til að hæstv. núv. iðnrh. sé neikvæður í þessu máli, miklu fremur hitt, að hann hefur uppi áform í þessum málum, miklu stærri áform en áður voru hjá fyrrv. ráðh. Við aðrir, sem í ríkisstj. sitjum, erum sammála um það og munum gera okkar til þess að nýting íslenskrar orku verði meiri í framtíðinni en hún hefur verið.

Það er alveg rétt sem hv. þm. sagði að lokum: Við eigum sjálfsagt ekki að vera að karpa um þessa hluti. En þá veldur sá miklu sem upphafinu veldur.