04.12.1974
Neðri deild: 15. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. úr hófi. Ég er hv. 3. þm. Reykv. sammála um að það er kannske ekki frjótt að vera að deila mikið um fortíðina í þessum málum, raforkumálum. En þar sem hann vék nokkuð að þeim málefnum sem mér hafa verið hjartfólgin á undanförnum þingum, þ.e.a.s. orkumálum norðlendinga, tel ég mér skylt að fara hér nokkrum orðum um og leiðrétta sumt af því sem hann sagði um þau mál.

Þegar þessi hv. þm, varð orkuráðh. árið 1971 var svo ástatt á Norðurlandi að þar stóð deila ein mikil sem menn þekkja gjörla, Laxárdeilan, og hafði komið raforkumálum norðlendinga í nokkurn vanda. Það er rétt sem hann sagði að þessi deila var þess eðlis að það var erfitt að taka á henni, bæði fyrir fyrrv. ríkisstj. og eins á tíma viðreisnarstjórnarinnar. Hins vegar var það svo að hann ákvað einhliða, án þess að hafa samráð við norðlendinga, að leysa raforkumál norðlendinga með því að tengja þá þegar Norðurland við Landsvirkjunarsvæðið, og þessi ákvörðun var tekin þegar ákvörðun var tekin um Sigölduvirkjun. Það var þessi ákvörðun hæstv. ráðh. sem við margir norðlendingar gagnrýndum, ekki vegna þess að við værum mótfallnir tengingu landshluta eins og hann hefur oft haft á orði og látið blöð sín segja frá, heldur vegna þess að við töldum að á undan því að tengja saman landshluta ætti að koma að virkja nokkuð myndarlega á Norðurlandi þannig að það yrði til staðar orka bæði sunnan heiða og norðan til að miðla milli landshluta þegar lína yrði reist. Þá kæmi hún að fullum notum, en fyrr ekki. Enda var það svo að þegar þessi ákvörðun var tekin um að tengja Norðurland og Suðurland, þá var því miður engin rannsókn til á því hvernig fara mundi um línu milli þessara landshluta. Það var engin rannsókn til á því hvernig hanna ætti línu yfir hálendið, — upphaflega var ætlunin að línan lægi yfir hálendið, — og heldur engin önnur rannsókn til á þessari tengingu. Ef hæstv. ráðh. hefði farið að ráðum flestra forustumanna norðlendinga á þeim tíma þegar hann tók við orkumálum í sínu rn., hefði hann hafíð þegar undirbúning að virkjun á Norðurlandi, t.d. gufuvirkjun sem þá voru þegar til skýrslur um að væru mjög jákvæðar virkjanir, og þá hefði verið allt öðruvísi um að lítast á Norðurlandi í orkumálum. Þá hefði t.d. ekki verið skorin niður fjárveiting til þess að rannsaka Kröflu árið 1972 og 1973 eins og gerðist í hans ráðherratíð. Ef áhersla hefði verið lögð á þetta af hæstv. fyrrv. iðnrh. og hæstv. fyrrv. ríkisstj. hefði verið farin sú leið að virkja á Norðurlandi og tengja síðan Norðurland og Suðurland saman til þess að ná mætti ákveðinni hagkvæmni með því að miðla orku milli landshluta. Þetta er í stórum dráttum sá ágreiningur sem verið hefur á milli forustumanna norðlendinga og hæstv. fyrrv. ráðh. orkumálá, hv. 3. þm. Reykv.

Ég taldi nauðsynlegt að rifja þetta upp vegna þeirra ummæla hans sem hér hafa fallið. Hann vill svo vera láta að nú stafi höfuðvandinn í orkumálum norðlendinga af því að mér skilst, að það hafi ekki verið hafist handa um byggðalinu en það hafi verið hægt að byrja á henni 16. sept. Nú er 4. des. Þarna er sem sagt þessi tími sem hæstv. ráðh. telur að hafi farið forgörðum í að reisa línu milli landshluta sem á að hafa ráðið úrslitum um það að þegar hefur verið stórfelldur orkuskortur á Norðurlandi. Það er fyrirsjáanlegt, að það tekur a.m.k. 2 ár að koma þessari línu upp. A.m.k. eru margir sérfróðir menn þeirrar skoðunar að það verði ekki minna en 2 ár sem taki að koma þessari línu upp, en hv. 3. þm. Reykv. telur að þessar fáu vikur, sem hann segir að hafi farið forgörðum í framkvæmd þessa verks, séu höfuðvandinn í dag.

Það mætti kannske út af þessu benda á það að þegar hæstv. fyrrv. orkuráðh. lét af embætti hafði hann ekki gert ráðstafanir til þess að það væri aðili til sem gæti staðið að framkvæmd þessa máls. Það var að vísu til n., sem hann hafði sett á laggir, sem átti að annast ýmislegt í sambandi við línuna, annast yfirumsjón með hönnun línunnar, efnispöntun og annað slíkt. Vitanlega gat sú n. ekki staðið að framkvæmd þessa verks. Ég vil benda hv. 3. þm. Reykv. á að það var fyrst í tíð núv. hæstv. ríkisstj. að Rafmagnsveitum ríkisins var falið formlega að annast þetta verk, og mér vitanlega hefur ekki verið tekin nein neikvæð afstaða til þessa verks nú, einfaldlega af þeirri ástæðu, að tíminn til að afla norðlendingum orku á annan veg er farinn forgörðum. Ég fæ ekki betur séð en það þurfi, jafnvel þótt mönnum þyki ýmislegt að þessu verki, að fara ofan í saumana á því hvort það sé ekki algerlega nauðsynlegt samt sem áður. Og ég vænti þess að hæstv. orkuráðh. hafi þegar látið athuga það.

Ég segi enn og aftur, það hefði verið æskilegra að fara þá leið að virkja á Norðurlandi fyrst en tengja síðan þessa landshluta saman. Þá hefði m.a. verið hægt að kanna það, með hvaða hætti það hefði verið hagkvæmast. Ég veit ekki til þess að þeirri spurningu hafi verið svarað hvort það hefði verið æskilegra að fara öræfaleiðina svonefndu, ef svo hefði veríð að staðið að næg orka væri fyrir hendi á Norðurlandi. Það liggur í augum uppi að það hefði verið miklu ódýrara fyrir alla aðila og þjóðina í heild að fara þá leið. En ég veit ekki til þess að þeirri spurningu hafi nokkurn tíma verið svarað hvort það hefði verið tæknilega hægt, hvað það hefði kostað í samanburði við byggðalínuna.

Ég vil hins vegar að lokum, til þess að forðast misskilning, enn undirstrika að það hefur ekki mér vitanlega verið tekin nein neikvæð afstaða gegn byggðalínu á því stigi sem nú er í okkar orkumálum, einfaldlega vegna þess að við höfum e.t.v. ekki annarra kosta völ til þess að afstýra stórfelldum vanda á Norðurlandi, stórfelldum orkuskorti sem er einfaldlega vegna þess að röng ákvörðun var tekin eftir lausn á viðkvæmri deilu. Ég veit að ráðh. var vandi á höndum,en hann tók því miður ranga ákvörðun í þessum efnum þegar hann var orkuráðh., og þar af er meginvandi okkar norðlendinga í orkumálum.