05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

19. mál, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram um fund þann sem haldinn var upp í Borgarfirði í gær, þykir mér rétt að undirstrika það, að ég tel að borgfirðingar muni hér eftir sem hingað til geta ráðið sínum málum sjálfir og þurfi ekki að stefna til þeirra mönnum norðan úr landi til þess að gefa þeim upplýsingar sem svo engar voru nema öfgar. Ég tel það ekki neinar upplýsingar að gagni fyrir borgfirðinga þó að fyrrv. oddviti þeirra mývetninga, sem bauðst til að gefa ráð, skýrði frá því að í hans heimabyggð, sem hann hefur stjórnað síðasta kjörtímabil, væri svo komið að ungmennafélagið væri klofið, karlakórinn hefði lagst niður og hann sjálfur fallið sem oddviti. Ég held að þeim heimamönnum í Borgarfirði hafi ekki fundist þetta stórkostlegar upplýsingar, enda bauðst hann til að svara spurningum, ef menn yrðu til að spyrja. Einn spurði um það atriði hvort kísilgúrverksmiðjan hefði haft þau áhrif sem hann þarna lýsti. Og við því þarf hann ekki svar. Ég hef líka sannanir fyrir því að þessi sami maður hafi á öðrum fundi hælt kísilgúrverksmiðjunni alveg sérstaklega og forustumönnum hennar, en þá var hann norðan heiða.

Ég held því að það sé rétt hjá hv. 5. þm. Vesturl. að þessi fundur hafi verið sérkennilegur og sérstæður einmitt vegna þeirrar smalamennsku sem átti sér stað af hans hendi um menn utan héraðs. Til þessa hefur hv. 5. þm. Vesturl. mætt á fundum í héraði án þess að hafa slíka smalamennsku. Hann hefur haft venjulega tilfærslu innan kjördæmisins en ekki seilst svo langt sem hann gerði þarna. Segi ég, að nú er Bleik brugðið fyrst sótt er lið svo langt að.