05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

19. mál, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þó að hv. fyrirspyrjandi, Jónas Árnason, hafi nú sjálfur gleymt fsp. sinni og vilji ræða um fundinn í gær, þá skal ég að sjálfsögðu svara fsp., sem hann nú bar fram, hvað gert verði ef eigendur umræddra jarða neiti að leyfa byggingu verksmiðjunnar eða láta land af hendi. Vil ég taka fram að ég hef ástæðu til að ætla að það verði ekki ágreiningsmál, heldur muni þetta nást með góðum samningum við þá sem þarna eiga hlut að máli. Hitt er annað mál, að það kemur dálítið spánskt fyrir að þessi hv. þm. skuli bera eignarrétt einstaklinga ákaflega mikið fyrir brjósti, því að þess hefur ekki orðið sérstaklega vart að undanförnu í málflutningi hans og samflokksmanna hans eða tillögu- og frumvarpaflutningi þeirra þar sem eignarrétturinn virðist harla lítils virði, enda í samræmi við grundvallarskoðanir þeirra.

Hins vegar vil ég taka fram út af fsp. frá Stefáni Jónssyni, að það var í rauninni aðalinntakið í ræðu allra þeirra gesta, sem þessir tveir hv. þm. buðu víðs vegar að af landinu til þess að fræða heimamenn um hvað þeir ættu að gera, var að lýsa því sterkum, óhugnanlegum orðum hvílík eiturspúandi verksmiðja það væri sem ætti að fara að reisa þarna, hún mundi eitra andrúmsloftíð, leggja byggðirnar í auðn, eyðileggja alla fiskgegnd í Hvalfjörð, eyðileggja laxveiði í þeim ám, sem þar væru nærri, fyrir utan náttúrlega að menga hugarfarið. Þessi eiturspúandi verksmiðja var ógnvekjandi, og árás þessara þm. og þeirra fólks á þessum fundi var auðvitað fyrst og fremst á fyrrv. iðnrh. sem í 3 ár hefur verið að undirbúa þetta mál og eins og skjalfest liggur fyrir var því eindregið fylgjandi og hvetjandi að þessi verksmiðja yrði reist. Og það er það, sem hæstv. samgrh. átti við með ummælum sínum.

Nú er þess í fyrsta lagi að geta, að þó að ýmsar efnaverksmiðjur í heiminum hafi þangað til fyrir nokkrum árum verið þannig úr garði gerðar að þær hafi valdið óþrifnaði og úr reykháfum þeirra hafi komið reykur og ryk, sem vafalaust hefur verið stórlega heilsuspillandi, þá ættu þessir hv. þm. að gera sér grein fyrir því að á hinum síðari árum, eftir að sú alda hófst um allan heim að vernda náttúruna, vinna gegn mengun, rányrkju og hvers konar slíkum eyðingaröflum, hefur orðið gerbreyting í þessum efnum. Ýmis fyrirtæki, þ. á m. Union Carbide, hafa á undanförnum árum varið til þess tugum millj. dollara að finna hreinsitæki og gera aðrar þær ráðstafanir sem gætu komið í veg fyrir slíkt. Einnig er vitanlegt að í Bandaríkjunum gilda nú strangari reglur, strangari kröfur eru gerðar í þessum efnum, um varnir gegn mengun, heldur en í nokkru öðru landi. Hér á Íslandi höfum við einnig strangar reglur, og ljóst er að heilbrigðiseftirlitið og forstöðumaður þess, sem er kunnur að sínum mikla áhuga á að efla heilbrigðiseftirlitið og koma í veg fyrir hvers konar mengun, það hefur gjörsamlega í hendi sér að setja þær reglur sem þarf. Auk þess ber þess að gæta að eftir þeim till., sem fyrir liggja, verður þetta fyrirtæki, járnblendiverksmiðjan, ef af verður, að meiri hluta eign íslendinga og íslendingar í meiri hluta í stjórn, þannig að við getum sett hvaða kröfur til hreinlætis og þrifnaðar sem við teljum þörf á.

Sannleikurinn er sá að með þeim nýjustu tækjum, sem fundin hafa verið upp í þessu efni og þegar eru komin í notkun við nokkrar nýrri járnblendiverksmiðjur, er ekki um að ræða neina mengun frá reykháfum. Er talið að í mesta lagi um 1% af þessu fari út í andrúmsloftið og sé ósýnilegt og skaðlaust með öllu. Um afrennslisvatn frá þessari verksmiðju er ekki að ræða. Kælivatnið allt saman er í lokuðu kerfi. Að því er snertir frárennsli, þá er það eins og frá venjulegum íbúðarhúsum, verkstæðum og verksmiðjum, fylgir auðvitað venjulegum heilbrigðisreglum og reglum byggingarsamþykkta, og að því er snertir þann fasta úrgang, þá er það eldfastur steinn og grjót, sem engin mengun stafar af. A.m.k. hafa við ítarlegar rannsóknir á þeim efnum engin efni fundist sem geta valdið hættu eða mengun. Það, sem verið er að mikla fyrir fólki í sambandi við álverksmiðju, er viss flúorhætta, en ekki er um flúor að ræða við þessa framleiðslu.

Árásir þessara þm. tveggja og þeirra fylgismanna og þeirra, sem þeir smöluðu á fundinn, eru að meginefni til árás á fyrrv. iðnrh. Meira að segja gekk það svo langt að hv. þm. Jónas Árnason lýsti því yfir í lok fundarins á Leirá í gær, að ef ég gerði nú eitt, ef ég stöðvaði þessa járnblendiverksmiðju, þá skyldi hann lýsa því yfir opinberlega að núv. iðnrh. væri bæði skynsamari og farsælli iðnrh. heldur en sá sem gegndi embættinu á undan.