05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

28. mál, jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Fsp. er svo hljóðandi:

„Er ætlun ríkisstj. að nota heimild í l. til þess að jafna flutningskostnað á sementi á þann hátt, að líkt verð geti verið á þeirri vöru um land allt? Ef svo er, hvenær má vænta þess að það verði gert?“

Svarið er:

Lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi hafa verið framkvæmd frá 1. apríl s.l., en þá var sett reglugerð um framkvæmd l. svo og ákveðið flutningsjöfnunargjald, 700 kr. á hvert tonn, bæði innlent og innflutt. Jafnframt voru ákveðnir flutningsgjaldataxtar, bæði á sjó og landi.

Á næstunni mun stjórn sjóðsins, en í henni eiga sæti þrír menn: Valgeir Ársælsson, Svavar Pálsson og Örn Guðmundsson, athuga þau ágreiningsatriði um flutningsgjöld á landi, sem komið hafa upp, og önnur framkvæmdaatriði, þ. á m. um þá verslunarstaði sem við er miðað í reglugerðinni.

Að því er snertir verðlag á sementi, þá heyrir það ekki undir viðskrn., heldur iðnrn. Skv. upplýsingum þeim, sem ég hef fengið frá framkvæmdastjóra Sementsverksmiðju ríkisins, er verð á sementi úr vöruskemmu nú hið sama á öllum þeim rúmlega 50 stöðum á landinu sem jöfnun flutningskostnaðar nær til. Í þessari reglugerð, sem er reglugerð nr. 78 frá 1974, þá eru taldir upp verslunarstaðir sem við er miðað. Þeir eru, telst mér til, alls 55, fyrst 13 verslunarstaðir sem jafnframt eru aðaltollhafnir, auk þess 42 aðrir sem jöfnunin á að ná til.

Í 1. gr. þessarar reglugerðar segir: „Framkvæma skal jöfnun á flutningskostnaði sements þannig að kostnaður í vöruskemmu á hverri sementstegund frá hverjum innlendum framleiðanda eða innflutningsaðila verði hið sama á þeim verslunarstöðum sem jöfnunin nær til.“

Ég skal játa að ég hef ekki flett upp á lögunum, en ég vil ganga úr frá því að þessi gr. sé í samræmi við lögin. Þar af leiðandi er miðað við það að verðið sé hið sama á verslunarstað. Hitt getur auðvitað verið og er sjálfsagt, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, að þar með er ekki tryggt að raunverulegt verð til hvers notanda verði hið sama, því að það liggur í augum uppi, að flutningskostnaður frá verslunarstað til heimills og til notkunarstaðar er mismunandi, og fljótt á litið sýnist mér að það muni vera erfitt að koma í veg fyrir slíkt. Hins vegar er hitt atriðið, sem hann benti á og sjálfsagt er að athuga og er í athugun, hvort ekki þurfi að koma fleiri verslunarstaðir þarna til greina. Hann nefndi Kirkjubæjarklaustur, það er ekki með í þessari upptalningu. Á Suðurlandi eru Vík, Hvolsvöllur, Hella, Selfoss, Þorlákshöfn. Það eru aðrir staðir þar sem gætu sjálfsagt komið til álita, eins og Hveragerði, Kirkjubæjarklaustur. Þetta eru atriði sem þessi n. er að athuga. Sömuleiðis er auðvitað álitamál og getur orðið ágreiningsatriði, hvort þeir flutningsgjaldataxtar, t.d. á landi, sem hann minntist á og ákveðnir hafa verið af n., eru réttilega metnir. Ég hef enga aðstöðu til að kveða upp neinn dóm um það, en það er eitt af þeim atriðum sem n. er að athuga.