05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

28. mál, jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin. Ég geri mér grein fyrir að erfitt er að framkvæma þessi lög þannig að það verði líkt verð á sementi um allt land. En það vantar mikið á að það hafi verið gert enn sem komið er og er gott að heyra það af munni hæstv. ráðh. að ætlunin er að vinna að þessu, þannig að lögin verði framkvæmd eins viðtækt og mögulegt er.

Ég ræddi við forstjóra Sementsverksmiðjunnar fyrir stuttu. Ég ræddi við tvo kaupfélagsstjóra á Suðurlandi. Þeir sögðu mér að það væri enn óákveðið hvað yrði greitt í flutningskostnað á sementi austur á Selfoss og austur í Rangárvallasýslu og forstjóri Sementsverksmiðjunnar staðfesti það. Í rauninni vita kaupfélagsstjórarnir eða verslunarstjórar ekki hvaða verð þeir geti haft á sementinu á meðan ekki er vitað hvað verður greitt úr þessum svokallaða sjóði í flutningskostnað. Forstjóri Sementsverksmiðjunnar bjóst við því að 700 kr. af hverju framleiddu tonni væri nú orðið allt of lágt gjald í þennan sjóð til þess að unnt væri að greiða raunverur legan flutningskostnað.

Það er örugglega fleiri staðir en Kirkjubæjarklaustur sem vantar inn í þá upptalningu, sem fylgir reglugerðinni, til þess að hægt sé að jafna þetta. Ég geri ráð fyrir að það sé nauðsynlegt að taka tillit til þess að frá hinum ýmsu verslunarstöðvum þarf að dreifa sementinu til notenda og flutningsgjaldið þurfi að vera riflegra einmitt vegna þess.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og sérstaklega að hann vildi beita sér fyrir því að lagfæra það sem enn er ógert í þessu efni.