05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

38. mál, brú yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurninni á þskj. 41 vil ég gefa eftirfarandi svar.

Í fyrsta lagi: „Hvað líður undirbúningi að smíði brúar yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi?“

Fyrstu athuganir á brúarstæði á Ölfusá hjá Óseyrarnesi voru gerðar sumarið og haustið 1952. Þessi frumathugun leiddi í ljós að brúin þyrfti að vera um 440 m löng. Leiðin milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar með brú á Ölfusá hjá Óseyrarnesi var síðan tekin í þjóðvegatölu árið 1955 undir nafninu Hafnarskeiðsvegur og er hann enn í tölu þjóðvega samkvæmt gildandi vegáætlun. Mun Jörundur Brynjólfsson, þáv. þm. árnesinga, hafa beitt sér fyrir því. Á árunum 1960–1963 voru gerðar frekari athuganir á brúarstæði þessu. Var þá m.a. komið upp sjálfritandi vatnshæðarmæli austan við ósinn árið 1962. Var það gert til þess að kanna hvort jakastíflur trufluðu mjög vatnsrennsli í ósnum. Vatnshæðarmæling var haldið áfram í 8 ár og reyndust truflanir af völdum íss mjög óverulegar. Í vegáætlun 1971 var veitt fé til jarðvegskönnunar á brúarstæðinu. Kom þá fram að Þjórsárhraunið nær vestur fyrir ósinn og á því að fást trygg undirstaða undir brú á þessum stað.

Þá kemur annar þáttur: „Hver er nú talinn kostnaður við smíði þeirrar brúar?“

Á grundvelli þeirra upplýsinga, sem að framan greinir, hefur verið gerð lausleg ágiskun um kostnað við vega- og brúargerð um Ölfusárós. Er kostnaður við brúna ágiskaður 280 millj. kr., en við veginn, sem yrði um 11 km langur, um 170 millj. kr. Er þá miðað við bundið slitlag. Yrði því ágiskaður heildarkostnaður 450 millj. kr. miðað við verðlag í ágúst þessa árs. Ef bundnu slitlagi yrði sleppt lækkar vegagerðarkostnaðurinn um 50 millj. kr.

Í þriðja lagi er spurning um það hvort vegamálaráðh. vilji beita sér fyrir fjárveitingu til þessarar brúar á næstu vegáætlun. Er hún svo hljóðandi:

„Hefur hæstv. samgrh. í hyggju að beita sér fyrir því að Óseyrarnesbrúin verði tekin inn á vegáætlun næst þegar hún verður afgr. á Alþ.?

Varðandi síðustu spurninguna, um það hvort samgrh. muni beita sér fyrir því að Óseyrarnesbrúin verði tekin inn á þá vegáætlun, sem lögð verður fram á yfirstandandi þingi, skal það tekið fram að mörg verkefni biða úrlausnar þeirrar vegáætlunar. Þó að ekki verði að þessu sinni gefið fyrirheit um að þetta verkefni verði meðal þeirra, tel ég að það væri ánægjulegt verkefni og a.m.k.verði að koma til fjármagn til þess að ljúka fullnaðarrannsóknum um gerð brúarinnar. Æskilegt hefði verið að verkið hefði a.m.k. getað hafist á umræddu áætlunartímabili, þótt það verði ekki séð fyrr en við afgreiðslu vegáætlunar fyrir tímabilið 1975–1979, enda mun fjármagn það sem verður til ráðstöfunar ráða mestu um framkvæmdir á því tímabili. Rétt er í sambandi við þessa ákvörðun, þegar hún verður tekin, að taka tillit til þess við hafnarframkvæmdir þeirra staða sem mundu njóta brúarinnar.

Þetta svar vona ég að nægi hv. fyrirspyrjanda.