05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

38. mál, brú yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það hefur áður verið rætt um brú á Ölfusá í Óseyrarnesi af eðlilegum ástæðum og allir hafa haft áhuga á að koma þessu mannvirki á sem um það hafa rætt undanfarna tvo áratugi. En að brúin er ekki enn komin stafar eingöngu af því að fjármagn hefur vantað til þessara framkvæmda. Athuganir hafa leitt í ljós að þarna er unnt að gera brú, en lengi vel héldu menn að það væri tæknilega ómögulegt. Vegagerðin hefur haft rannsóknina með höndum og komist að raun um að brúin og vegurinn muni kosta 450 millj. kr. miðað við verðlag eins og það var í ágúst, en miðað við verðlag eins og það er í dag mundu það vera um 500 millj. kr.

Því hefur oft verið lýst hvaða hagræði gæti orðið að þessari brú. Hún mundi tengja saman kauptúnin á suðurströndinni og sveitarfélögin á Suðurlandi. Sérstaklega fær brúin gildi eftir að höfnin í Þorlákshöfn hefur verið lagfærð og gerð að raunverulegri höfn. Þessu þarf ekki að lýsa vegna þess að þetta þekkja flestir.

Ég vil aðeins við þetta tækifæri taka fram að ég tel að þetta sé eitt af þýðingarmestu verkefnum sem þm. Sunnl. þurfa að beita sér fyrir. Það verður svo að vera ákvörðun sunnlendinga í hvaða röð þeir vilja taka þau verkefni sem helst kalla að. Er það brúin í Óseyrarnesi, sem á að vera næsta verkefnið, eða er það eitthvað annað, sem liggur enn meira á? Á þeim tveimur mínútum, sem ég nú hef til umráða, er ekki tækifæri til að ræða frekar um það.