06.12.1974
Sameinað þing: 18. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

14. mál, útbreiðsla sjónvarps

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 14 flyt ég ásamt 7 öðrum þm. Framsfl. till. til þál. um útbreiðslu sjónvarps. Till. þessi eða svipaðs eðlis var flutt á síðasta þingi. Sú breyting hefur verið gerð nú að till. nær einnig til útbreiðslu sjónvarps til báta á fiskimiðum.

Í grg. segir m.a. að veturinn 1972–1973 kom fram í svari við fsp. á hv. Alþ. að 407 býli bjuggu í lok ársins 1972 við slæm eða ófullnægjandi skilyrði til sjónvarpsmóttöku. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta hafi breyst lítið á þeim tíma sem síðan er liðinn. Vera má að þessum býlum hafi fækkað nokkuð, en staðreyndin er sú að litið hefur verið unnið að útbreiðslu sjónvarps á allra síðustu árum. Kemur þetta m.a. greinilega fram í skýrslu eða áætlun um sjónvarpsdreifikerfið, sem nýlega hefur verið lögð fram á Alþ. Áætlun þessi er hin fróðlegasta og gefur miklar upplýsingar um það mál sem hér er til umr. Þar er það staðfest að á síðustu árum hafi framkvæmdir verið í algeru lágmarki.

Í grg. er sömuleiðis áætlað að kostnaður við að koma móttöku sjónvarps til þeirra býla allra, sem þess njóta ekki nú, muni vera einhvers staðar á stærðargráðunni 225 millj. kr. á verðlagi um áramótin 1972–1973. Í fyrrnefndri áætlun er kostnaðaryfirlit. Þar kemur fram að kostnaður við nýjar stöðvar, sem yrði hver fyrir fleiri en 8 notendur, er áætlaður 49.5 millj. kr., en kostnaður við nýjar stöðvar, hver fyrir færri en 8 notendur, áætlaður 220 millj. kr. eða samtals kostnaðurinn við þennan þátt, þ.e. að koma sjónvarpsmóttöku til þeirra býla, sem þess njóta ekki í dag, 269.5 millj. kr.

Er því ljóst að stærðargráðan er eins og grg. till. gerir ráð fyrir, og má segja að þarna sé einn þáttur sem ekki hafi hækkað mikið á þeim tíma sem er liðinn, virðist hafa verið áætlaður nokkuð hár á árunum 1972–1973.

Til viðbótar koma fram í þessari athyglisverðu skýrslu áætlanir um sjónvarpsdreifikerfi fyrir hafsvæðið umhverfis Ísland. Það er allmiklu meiri framkvæmd en hin, sem ég hef nú rætt um. Áætlað er að það muni kosta 650 millj. kr. að koma sjónvarpi til báta á fiskimiðum.

Allt er þetta skýrt mjög vandlega í umræddri skýrslu. Ætla ég ekki að fara að lesa það hér.

Þm. hafa fengið hana á borð sín, og sýnist mér að þar sé kominn ágætur grundvöllur til þess að hrinda í framkvæmd þriggja ára áætlun um móttöku sjónvarps, eins og lagt er til í umræddri till. til þál.

Í skýrslunni er jafnframt getið um ýmsar aðrar framkvæmdir sem nauðsynlegar eru fyrir sjónvarpsdreifikerfið, m.a. að koma örbylgjusambandi á. Það er allkostnaðarsöm framkvæmd, hátt á annað hundrað millj. kr. a.m.k., og mun það verk raunar þegar vera hafið. Það er víðs fjarri mér að vilja gera lítið úr þeim endurbótum. Þær eru hiklaust mjög nauðsynlegar. En þó vil ég leyfa mér að leggja áherslu á að einna nauðsynlegast sé nú í framkvæmdum sjónvarpsins að koma sjónvarpsmóttöku til allra íbúa landsins. Sjónvarps njóta nú 98.5 af hundraði. Staðreyndin er sú að þessir 1.5 af hundraði, sem njóta þess ekki, er í mörgum tilfellum sá hluti íbúa landsins sem einna mesta þörf hefur fyrir slíkt tæki sem sjónvarp. Iðulega eru þessir íbúar landsins einna einangraðastir og fá ekki notið þeirra lystisemda sem við njótum sem í þéttbýlinu búum. Ég vil taka undir það, sem hæstv. menntmrh. sagði hér á þingi í svari við fsp. fyrir rúmri viku, að þetta mál er mannréttindamál.

Að svo mæltu legg ég til að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.