06.12.1974
Sameinað þing: 18. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

57. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja svo hljóðandi till. til þál.Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar gera könnun á því hvort ekki sé tímabært að hefjast þegar handa um stækkun Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi, þannig að hún geti sem allra fyrst fullnægt þörf landsmanna fyrir framleiðsluvörur verksmiðjunnar.

Enn fremur verði gerð könnun á því hvort ekki komi til greina stækkun verksmiðjunnar með útflutning áburðar fyrir augum.

Ef könnun þessi leiðir það í ljós að stækkun verksmiðjunnar sé þjóðhagslega hagkvæm, felur Alþ. ríkisstj. að láta semja og leggja fram á Alþ. frv. um stækkun verksmiðjunnar.

Könnun þessari verði hraðað svo sem frekast er kostur, þannig að niðurstöður hennar liggi fyrir áður en þeirri raforku, sem tiltæk verður í landinu í nánustu framtíð, er ráðstafað til annarra greina orkufreks iðnaðar.“

Till. þessari lét ég fylgja svo hljóðandi grg., sem ég mun nú lesa, með leyfi hæstv. forseta: „Það er alkunna hversu áburðarverð í veröldinni hefur hækkað stórkostlega undanfarið. Samkvæmt upplýsingum Áburðarverksmiðju ríkisins mun áburðarverð til bænda a.m.k. tvöfaldast á næsta vori.

Bændur hafa af því miklar áhyggjur hvernig þeir geti mætt þessari stórfelldu hækkun. Það er augljóst að allra leiða verður að leita til þess að halda niðri áburðarverðinu, enda hefur það áhrif á afkomu landsmanna allra.

Fyrirsjáanlegt er að notkun áburðar ætti að stóraukast í landinu á næstu árum, m.a. vegna þess að ákveðið hefur verið að gera mikið átak í landgræðslu.

Nú mun Áburðarverksmiðjan framleiða 2/3 af árlegri áburðarþörf landsmanna og það er fyrst og fremst hið háa kaupverð á þeim þriðjungi, sem við flytjum inn, en gætum að mestu leyti framleitt sjálfir, sem sprengir upp áburðarverðið svo mjög sem raun ber vitni. Þar sem framleiðsla áburðar í Gufunesi byggist að langmestu leyti á raforku úr fallvötnum, en ekki á olíu, eins og viðast er erlendis, hafa forsendur eldri áætlana breyst íslenskri framleiðslu í hag.

Flm. leggur áherslu á það, að eðlilegra sé að verja þeirri raforku, sem tiltæk verður í landinu í næstu framtíð, til áburðarframleiðslu fremur en til annarra greina orkufreks iðnaðar. Reynsla og verkkunnátta íslendinga við áburðarframleiðslu er fyrir hendi, þörfin á auknu framleiðslumagni er brýn, framleiðslan veldur ekki náttúruspjöllum, heldur hið gagnstæða, verkefnið ekki stærra en svo, að það er viðráðanlegt fyrir íslendinga, og eðlilegra að íslensk fallvötn mali fremur þessari þjóð gull en útlendingum.“

Hér lýkur grg. og við hana vil ég einungis bæta þessu:

Um 20 ára skeið hefur Áburðarverksmiðja ríkisins verið starfrækt í Gufunesi. Fyrstu starfsár verksmiðjunnar gat hún framleitt meiri köfnunarefnisáburð en landsmenn höfðu þörf fyrir, en s.l. 13 ár hefur verksmiðjan þurft að flytja inn erlent köfnunarefni. Nú er svo komið að við verðum að flytja inn meira en 1/3 af þeim áburði sem við þurfum að nota.

Nú er verðlagi áburðar í heiminum þannig háttað að það hefur hækkað geysilega á síðasta ári, einkum vegna hinnar ógurlegu hækkunar á olíuverði, en flestar þjóðir aðrar en íslendingar nota olíu í stað vatnsorku til framleiðslunnar. Málum er svo komið að sá hluti áburðar, sem við þurfum að flytja inn, er mjög miklu dýrari en sá hluti sem framleiddur er í Gufunesi, svo sem lauslega var drepíð á í grg.

Í till. þessari er bæði farið fram á að könnun verði gerð með stækkun verksmiðjunnar í Gufunesi fyrir augum, þannig að hún geti fullnægt þörf okkar fyrir framleiðsluvörur verksmiðjunnar, og í öðru lagi beinist könnunin að því, hvort útflutningur áburðar og þá væntanlega ammoníaks gæti komið til greina í stórum stíl.

Ég mun fyrst geta nokkuð um útflutningsframleiðslu. Í öðrum löndum eru stórar verksmiðjur taldar hagkvæmastar. Þær framleiða 800–1200 tonn af ammoníaki á dag og nota yfirleitt olíu. Til svo stórrar verksmiðju þarf geysimikla raforku, ca. 500–600 mw. í virkjun, þannig að ljóst er að til þeirrar framleiðslu getur ekki komið í allra nánustu framtíð, þó að sjálfsagt sé að íhuga möguleika á þess háttar framleiðslu og ég sé þess ekki fullviss að verksmiðjur með framleiðslugetu minni en 800 tonn geti e.t.v. verið hagkvæmar rekstrareiningar á heimsmarkaðnum.

Ég mun þá ræða sérstaklega um þá áfangastækkun verksmiðjunnar í Gufunesi sem mér sýnist möguleg og nauðsynleg hið fyrsta vegna brýnna hagsmuna íslensks landbúnaðar.

Stækkun áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi gæti verið tvíþætt. Í fyrsta lagi þarf aukningu á ammoníakframleiðslugetu verksmiðjunnar. Nú munu vera framleidd í Gufunesi 30 tonn af ammoníaki á dag. Framleiðsla ammoníaks hyggist á rafgreiningu vatns til vatnsefnisframleiðslu. Til framleiðslu á hverju tonni ammóníaks þarf 1/2 mw. í virkjun, þannig að til tvöföldunar núverandi framleiðslu úr 30 tonnum í 60 tonn á dag þarf viðbótarafl um 15 mw. Við athugun, sem gerð var seinni partinn í sumar, kom í ljós að hvert tonn ammoníaks framleitt í Gufunesi kostaði 177 dollara, en hvert tonn af því ammoníaki, sem Áburðarverksmiðjan átti kost á að kaupa frá útlöndum, kostaði þá 450 dollara komið í Gufunes. Auðséð er því að eftir nokkru er að sækjast. Þetta lága framleiðsluverð í Gufunesi byggist m.a. á því að verksmiðjan er ekki þung í afskriftum og býr við hagstætt orkuverð.

Í öðru lagi þarf nauðsynlega aukningu á framleiðslu saltpéturssýru. Hráefni til framleiðslunnar er fyrst og fremst ammoníak. Þessi framleiðsla er ekki mjög orkufrek. Ný áætlun um kostnað við byggingu sýruverksmiðju í Gufunesi af hentugri stærð bendir til þess að hún mundi kosta um 470 millj. kr. Sú verksmiðja getur risið þótt ekki yrði úr ammoníakframleiðslu. Ef nægileg saltpéturssýra væri fyrir hendi í Gufunesi, þá væri rekstur hinnar nýlegu NPK-verksmiðju gerður mun hagkvæmari, þar sem skortur á saltpéturssýru hindrar að hún sé rekin með fullum afköstum allt árið. Framleiðslugeta hennar er 65 þús. tonn á ári, en afköstin nú eru um 40 þús. tonn eða nýting um 65%.

Ég vil taka það sérstaklega fram, að ég tel að þessar framkvæmdir séu ekki stærri eða mikilfenglegri en svo að við íslendingar ættum að geta hrundið þeim í framkvæmd einir og án mjög mikilla tafa ef fljótlega verður hafist handa um undirbúning verkefnisins. Mér er enn fremur kunnugt um að stjórn Áburðarverksmiðjunnar og forráðamenn hennar hafa fullan hug á því að athuga möguleika á stækkun verksmiðjunnar og hafa snúið sér til hlutaðeigandi yfirvalda með óskir þar um. Stéttarsamband bænda hefur óskað eftir því á síðasta aðalfundi að slík könnun yrði gerð.

Ég nefndi áðan hagsmuni íslensks landbúnaðar. Ég hefði fremur átt að segja að stækkunin væri bráðnauðsynleg vegna hagsmuna þjóðarinnar allrar. Að sjálfsögðu er öllum hv. þm. ljóst að fyrirsjáanleg stökkhækkun á áburðarverði er ekki mál okkar bænda einna. Áburðarkaup eru í langflestum tilvikum einn af stærstu tilkostnaðarliðum við hvert bú í landinu og hefur áburðarverðið afgerandi áhrif á verðlagningu landbúnaðarafurða hverju sinni. Áburðarliðurinn vegur nú um 8.03% í verðlagsgrundvellinum. 100% hækkun á áburðarverði, sem gengi beint út í verðlagið, miðað við verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara hækkar framfærsluvísitölu um 5.1 stig og kaupgjaldsvísitala hækkar þá um 2.5 stig, svo framarlega sem vísitalan er í fullu sambandi, og 2.5 stig í kaupgjaldsvísitölu gera 2.3% í almennri kauphækkun ef vísitölukerfið er í fullu sambandi.

Nú í haust var skipuð n. til að kanna á hvern hátt bráðasta vanda áburðarhækkunarinnar yrði bægt frá í bili. N. hefur þegar unnið mikið starf. Hún hefur unnið að gagnasöfnun og t.d. sent út fyrirspurnir til bænda, m.a. um það hvort þeir telji síg geta dregið úr áburðarnotkun.

Ég tel ekki að bændur geti né megi draga úr áburðarnotkun. Landið gefur okkur ekki þá uppskeru, sem við þurfum, nema við gætum þess vandlega að rányrkja það ekki.

Á þjóðhátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í sumar var samþykkt myndarleg landgræðsluáætlun. Hún hefur einnig í för með sér stóraukna áburðarnotkun á næstu árum, og vel er það ef við getum greitt að nokkru þá skuld sem við erum í við þetta land sem hefur haldið lífinu í þessari þjóð í 1100 ár. Ef vel tekst til getum við bætt landið að nokkru og skilað því betra og byggilegra í hendur eftirkomenda okkar en við tókum víð því. Auðæfi þessarar þjóðar eru land hennar og menning hennar, og við eigum að gæta vel þessara auðæfa, gæta þeirra fyrir ásælni annarra og fyrir skammsýni okkar sjálfra, búa hér sjálfir, búa hér einir og búa hér með það ? huga að eftirkomendur okkar geti búið hér góða daga og langan aldur í ómenguðu landi sem þeir eiga sjálfir og einir, við sjó sem þeir hafa einir umráð yfir og við þá menningararfleifð sem þeir eiga sjálfir.

Þess vegna, herra forseti, leyfi ég mér að vekja sérstaka athygli á því að Áburðarverksmiðjan í Gufunesi er íslenskt fyrirtæki, fyrirtæki okkar sjálfra og okkar einna. slík fyrirtæki eiga að mínum dómi nokkurs konar frumburðarrétt til þeirra þroskamöguleika er íslenskar orkulindir geta veitt og til þeirrar forsjár sem Alþingi íslendinga hefur tök á að veita. Þess vegna treysti ég því að Alþingi taki till. þessari vel. Ég veit að hæstv. landbrh. er máli þessu hlynntur. Ég vona, að ríkisstj. láti hraða þeirri könnun, sem farið er fram á, og ef hún reynist á þann veg sem ég tel líklegast að stækkun sé hagkvæm, þá verði undirbúningi stækkunarinnar hraðað og tillit tekið til orkuþarfa verksmiðjunnar áður en gengið verður frá því að ráðstafa þeirri orku, sem tiltæk verður á næstunni, til annarra greina orkufreks iðnaðar.

Að lokinni umr. um þetta mál hér í dag vil ég leyfa mér að gera till. um að málinu verði vísað til atvmn.