06.12.1974
Sameinað þing: 18. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

65. mál, innborgunargjald af vörum frá Vestur-Þýskalandi

Flm. (Gunnar Sveinsson):

Herra forseti. Við hv. 5. þm. Austf., Halldór Ásgrímsson, flytjum þáltill. á þskj. 68 um innborgunargjald af vörum frá Vestur-Þýskalandi, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar, að meðan EBE-löndin hafa ekki fullgilt tollasamninginn við Ísland, verði Seðlabanka Íslands falið að innheimta 25% innborgunargjald af vöruinnflutningi frá Vestur-Þýskalandi, sem geymt verði á bundnum reikningi í 90 daga.“

Till. þessi var lögð fram fyrir hálfum mánuði, en síðan hefur margt gerst í landhelgismálum okkar. Togari hefur verið tekinn innan 50 mílna lögsögunnar og vestur-þjóðverjar hafa sett löndunarbann á íslensk fiskiskip. Till. á því enn meira erindi til okkar hér á hv. Alþ. en þegar hún var flutt.

Hv. alþm. er vel kunnug forsaga þessa máls. Við færum út fiskveiðilögsögu okkar með einróma samþykki Alþ. 1. sept. 1972. Það var samróma álit allra er um þetta mál fjölluðu á sínum tíma, að aðalandstæðingar okkar í sambandi við þá útfærslu mundu verða bretar og vestur-þjóðverjar, og það reyndist orð að sönnu. Flestallir voru jafnframt á þeirri skoðun að auðveldara mundi verða að semja við vestur-þjóðverja, þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla væri lítill hluti af þjóðarframleiðslu þeirra og þess gætti þess vegna lítið í þeirra þjóðarbúskap. Það studdi einnig þetta álit að í byrjun deilunnar höguðu þjóðverjar sér betur en bretar. Þeir fiskuðu mest á mörkum 50 mílna takmarkanna og fluttu sig strax út fyrir, ef stuggað var við þeim, eins og sagt var. Samið var strax í byrjun deilunnar við belgíumenn, færeyinga og norðmenn en margar þjóðir viðurkenndu strax óformlega útfærsluna með því að senda ekki skip sín inn fyrir 50 mílna mörkin til veiða, svo sem austur-þjóðverjar og margar fleiri þjóðir.

Við þurfum ekki að rifja hér upp þorskastríðið við breta, herskipavernd þeirra, og fiskveiðar þeirra innan 50 mílna lögsögunnar með herskipavernd. Fyrrv.forsrh., Ólafur Jóhannesson,leysti þann hnút á farsælan hátt, eins og flestum er í fersku minni, með samningum við breta um takmarkaðar veiðar innan 50 mílna lögsögunnar, þó að því undanskildu að þar mættu ekki veiða verksmiðjutogarar eða frystitogarar. Þetta samkomulag gildir þar til í nóv. n.k. Það hefur alltaf verið ófrávíkjanlegt skilyrði í þessum samningum, að ekki yrði samið við neina aðila um veiðar frysti- og verksmiðjutogara innan 50 mílnanna. Þetta virðast vestur-þjóðverjar ekki hafa skilið og ekki skilja enn þá. Oft hefur verið reynt að semja við þá, en án árangurs og nú síðast í haust er þeir reyndu að semja sín verksmiðjuskip og frystitogara inn í íslenska fiskveiðilögsögu.

Þróun fiskveiðilögsögumálanna hefur verið okkur hagstæð á þessu tímabili, eins og flestum er kunnugt. Á hafréttarráðstefnunni, sem haldin var í Caracas í sumar, var ekki rætt um 50 mílur, heldur 200 mílur. Bretar sjálfir virðast vera komnir á þá skoðun að það sé hagstætt fyrir þá að færa fiskveiðilögsögu sína út í 200 mílur. Vaxandi fylgi er fyrir 200 -mílna útfærslu í Bandaríkjunum og þróunin í þessum málum virðist benda eindregið til, að 200 mílurnar verði ofan á á hafréttarráðstefnunni í sumar í einhverri mynd.

Tollasamningur okkar við EBE-löndin felur í sér gagnkvæma lækkun á tollum samningsaðila, en bretar og þjóðverjar komu því ákvæði inn í samninginn, að hann tæki ekki gildi fyrr en deilan um fiskveiðilögsöguna væri leyst. Þetta hefur verið stærsta tromp þeirra í þeim samningum sem þeir hafa verið að reyna að þvinga inn á íslendinga.

Viðskipti okkar við vestur-þjóðverja hafa verið mikil en okkur mjög óhagstæð á undanförnum árum. Ekki líta þessi viðskipti betur út frá okkar sjónarmiði nú í ár. Skv. upplýsingum Hagstofu Íslands standa þau þannig fyrstu 10 mánuði ársins, frá jan. til okt., að við höfum flutt út til Vestur-Þýskalands fyrir 2 315 millj., en flutt inn frá Vestur-Þýskalandi fyrir 4 727 millj. Við höfum óhagstæðan verslunarjöfnuð við Vestur-Þýskaland þessa fyrstu 10 mánuði ársins upp á 2 412 millj., en það jafngildir því að það séu 240 millj. á mánuði. Ef við reiknum það út á hvern virkan dag þessa fyrstu 10 mánuði eru það 10 millj. á dag, sem viðskiptajöfnuður okkar við vestur-þjóðverja er óhagstæður.

Þegar litið er á öll þessi atriði, sem hér hafa verið nefnd í einu samhengi, og ekki síst það síðast nefnda verða viðbrögð þjóðverja okkur flestum óskiljanleg.

Við flm. þessarar till. um 25% innborgunargjald af vöruinnflutningi frá Vestur-Þýskalandi gerum okkur ljóst að hún hefur ekki mikil áhrif á þjóðarbúskap eða gjaldeyrisvarasjóð vesturþjóðverja. En hún hefur það í för með sér að hún dregur úr viðskiptum við vestur-þjóðverja og minnkar þann geysilega halla sem nú er á viðskiptum við þá. Við teljum eðlilegt að að því sé stefnt, ekki síst nú eftir þær ráðstafanir sem vestur-þýska stjórnin hefur framkvæmt síðustu daga með löndunarbanni sínu.

Samþykkt þessarar till. sýnir líka hve alvarlegum augum við litum á aðgerðir EBE-landanna og vestur-þjóðverja um að neita okkur um eðlileg viðskiptakjör á þeim grundvelli, að vesturþjóðverjar hafa ekki fengið vilja sínum framgengt um veiðar innan íslensku fiskveiðilögsögunnar, og hve alvarlegum augum við lítum á nýtilkomið löndunarbann.

Við íslendingar höfum sýnt vestur-þjóðverjum mikið langlundargeð í viðskiptum við þá í landhelgismálinu. Þótt að þeim hafi verið unnið með festu og gát hefur það verið í von um að til eðlilegra samninga dragi við þá. En sú hefur ekki raunin orðið á. Vestur-þjóðverjar hafa haldið uppteknum hætti um heimildarlausa ásælni á löghelguðum fiskimiðum okkar og auk þess beitt okkur þvingunum, er jaðra við fjárkúgun, þar sem þeir standa á móti því að við njótum umsaminna tollakjara. Taka togarans Arcturusar var því eðlileg ákvörðun og eðlilegt svar við löndunarbanni þjóðverja. Jafnvel þó að það hafi ekki komið til ern eðlilegar hömlur á viðskiptum við þá og hagkvæmasta leiðin er að okkar flm. áliti sú að leggja 26% innborgunargjald á allan vöruinnflutning frá vestur-þjóðverjum, eins og hér er stungið upp á.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu, en ég leyfi mér að leggja til að þessari till. verði vísað til hv. utanrmn.