05.11.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Athygli íslendinga beinist nú öðru fremur að hættumerkjum á sviði efnahagsmála. Verðbólgan, sem lengi hefur verið förunautur okkar, er komin á nýtt og óþekkt stig. Örar kaup- og verðlagsbreytingar hafa ruglað verðskyn almennings og komið glundroða á fjármál einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera.

Er núv. ríkisstj. var mynduð 28. ágúst s.l., biðu hennar því mörg verkefni á sviði efnahagsmála, sem kröfðust tafarlausrar úrlausnar. Að dómi ríkisstj. var óhjákvæmilegt að beita þegar samræmdum aðgerðum til lausnar á þeim vanda, sem við var að etja. Ljóst var, að þróun efnahagsmála hafði tekið afar hættulega stefnu og í húfi var að tryggð yrðu góð lífskjör. Forsenda þess er efnahagsjafnvægi bæði innanlands og í utanríkisverslun.

Við undirbúning efnahagsráðstafananna var fyrst og fremst tvennt haft í huga: að allar aðgerðir skertu sem minnst kjör hinna lægst launuðu og kæmu í veg fyrir atvinnuleysi. Það lá hins vegar í augum uppi, að ekki var unnt að auka kaupmátt launa um fimmtung eða fjórðung á ári, þegar horfur eru á, að raunverulegar þjóðartekjur á mann minnki vegna skertra viðskiptakjara við útlönd. Þess vegna var talið nauðsynlegt að rjúfa um sinn sjálfvirka víxlhækkun verðlags og launa.

Sé gerð tilraun til að draga saman kaupmáttaráhrif þeirra ráðstafana, sem gripið hefur verið til, og þeirrar verðþróunar, sem nú er fyrirsjáanleg, er niðurstaðan sú, að stefnt er að svipuðum kaupmætti launa og var á árinu 1972 og 1973 fyrir launþega í heild og ívið meiri kaupmætti fyrir þá, sem lægst hafa launin. Takist okkur að ná þessu marki hlýtur það að teljast góður árangur.

Frv. til fjárlaga fyrir árið 1975 liggur nú frammi og mun fjmrh. fjalla um það í fjárlagaræðu sinni. Frv. endurspeglar því miður þann geigvænlega verðbólguvöxt, sem orðið hefur síðan fjárlög yfirstandandi árs voru samþykkt. Enda þótt ekki hafi tekist að marka djúp spor í fjármálastefnu ríkisins á þeim skamma tíma, sem gefist hefur til að móta fjárlagafrv., fellur það engu að síður inn í heildarramma efnahagsaðgerða ríkisstj. og mun stuðla að auknu efnahagsjafnvægi. Viðnám gegn útþenslu ríkisbúskaparins og aðhaldssemi í opinberum framkvæmdum mun styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Í frv. er gert ráð fyrir, að 250 millj. kr. af yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabankanum verði greidd á árinn 1975, en áætlað er að skuldin nemi 1 000 millj. kr. nú um áramótin. Enn fremur er gert ráð fyrir 500 millj. kr. endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna fyrstu spariskírteinanna, sem útgefin voru 1964. Þessar greiðslur létta bæði skuldabyrði ríkissjóðs og spyrna öfluglega gegn efnahagsþenslunni. Þá er gert ráð fyrir 500 millj. kr. tekjuskattslækkun eða samsvarandi hækkun fjölskyldubóta og enn fremur öðrum 500 millj. kr. til ráðstafana í kjara- og verðlagsmálum.

Árangur efnahagsaðgerðanna verður takmarkaður á þessu ári, enda langt á árið liðið. Fari sem horfir, er gert ráð fyrir um 12 500 millj. kr. viðskiptahalla, en það er 9 1/2% af þjóðarframleiðslu, samanborið við 2 615 millj. kr. halla á s.l. ári, sem var um 3% af þjóðarframleiðslu. Þegar reiknað hefur verið með hinni óvenjumiklu notkun erlends lánsfjár á árinu, verður heildargreiðslujöfnuðurinn við útlönd óhagstæður um nálægt 6 500 millj. kr. miðað við núgildandi gengi. Verður þá gjaldeyriseign nettó aðeins um 2 000 millj. kr. um næstu áramót, en það jafngildir hálfs mánaðar gjaldeyrisnotkun.

Horfur fyrir árið 1975 eru óráðnari en oftast áður, m.a. vegna þeirrar óvissu, sem nú ríkir um framvindu efnahagsmála í umheiminum. Fyrstu drög að þjóðhagsspá fyrir árið 1975, sem jafnframt eru meginforsenda fjárlagafrv., benda til 11/2–2% aukningar þjóðarframleiðslu. Jafnframt er gert ráð fyrir nokkurri hömlun eftirspurnar vegna greiðslustöðunnar við útlönd og sem hluta heildaraðgerða gegn verðbólgu. Með því væri einnig dregið úr þenslu á vinnumarkaðinum án þess að stefna fullri atvinnu í hættu.

Spár gera ráð fyrir, að verðbólga muni fara minnkandi á næsta ári þrátt fyrir heldur örari verðbreytingar á síðasta ársfjórðungi þessa árs, m.a. af völdum gengislækkunarinnar og skattbreytinganna í sept. Strax á fyrsta ársfjórðungi næsta árs er gert ráð fyrir að draga úr verðbólgunni og skv. forsendum verðlagsspánna er búist við minna en 15% verðbólgu á ársgrunni undir lok ársins 1975. Með efnahagsaðgerðum ríkisstj. er þannig að því stefnt að ná verðbólgunni niður á stig nágrannaþjóða okkar eftir lok næsta árs.

Líkur eru á verulegum viðskiptahalla, 9 000– 9 500 millj. kr. eða sem næmi um 5% af þjóðarframleiðslu. Greiðslujöfnuður við útlönd verður væntanlega óhagstæður um 1 500–2 000 millj. kr., samanborið við um 6 500 millj. kr. greiðsluhalla á sambærilegu gengi á þessu ári. Hér ber að athuga, að spárnar eru varfærnislegar og gæti jöfnuður í greiðslum við útlönd því náðst á næsta ári, sem má telja viðunandi bata á svo skömmum tíma. Hins vegar sýna þessar tölur, að horfur um stöðu þjóðarbúsins út á við eru enn tvísýnar, ekki síst þegar litið er til þess óvissuástands sem ríkir í efnahagsmálum umheimsins, veikrar gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar og erfiðleika á erlendum lánsfjármörkuðum.

Meginmarkmið efnahagsstefnunnar fyrir árið 1975 er að draga verulega úr hraða verðbólgunnar og tryggja sæmilegan jöfnuð í viðskiptum við útlönd, án þess að gripið sé til of harkalegra samdráttaraðgerða, sem tefla atvinnuöryggi og þar með lífskjörum almennings í tvísýnu. Full atvinna er meginforsenda efnahagsstefnunnar. Til þess að ná árangri, sem eitthvað varir, er nauðsynlegt að beita samræmdum aðhaldsaðgerðum, einkum á sviði peninga- og lánamála og á sviði ríkisfjármála, markvisst og í langan tíma.

Það er stefna stjórnarinnar að treysta grundvöll íslensks atvinnulífs, skapa betra jafnvægi og meira atvinnuöryggi, svo að unnt verði að tryggja vaxandi velmegun samfara réttlæti í tekjuskiptingu og aðstöðu manna.

Þessi stefna byggist á tveimur höfuðþáttum. Annar þátturinn felst í umbótum á sjálfu efnahagskerfinu, sem miða að meiri hagkvæmni í rekstri þess og auknu félagslegu réttlæti. Hinn þátturinn felst í því að hlúa að nýjum atvinnugreinum, efla þær, sem fyrir eru, og gera stórátak í byggðamálum.

Fylgja þarf áfram fríverslunarstefnu í utanríkisviðskiptum. Óhindraður aðgangur að helstu markaðssvæðum heims er forsenda aukinnar fjölbreytni og stöðugleika í útflutningsframleiðslu bæði í hefðbundnum og nýjum greinum, en efling útflutnings og öruggra utanríkisviðskipta er undirstaða hagsældar í landinu.

Eitt af því, sem magnar verðsveiflur, er til landsins berast, er án efa núverandi kerfi kaupgreiðsluvísitölu. Vísitölugreiðslur á kaup hafa raunar tíðkast lengi hér á landi, þótt með nokkuð mismunandi hætti hafi verið. Það er viðurkennt, að þær veita launþegum nokkra tryggingu fyrir afkomu þeirra og mynda meiri ró á vinnumarkaði en ella hefði orðið. Á hinn bóginn hafa þær oft á tíðum átt drjúgan þátt í að magna verðbólgu og þannig grafið undan heilbrigðum rekstri þjóðarbúsins og stefnt hagsmunum launþega sjálfra í voða. Ber hér einkum þrennt til: Í fyrsta lagi hafa miklar hækkanir grunnkaups óhjákvæmilega leitt til verðhækkana, sem svo vegna áhrifa vísitölukerfisins hafa leitt til nýrra launahækkana og enn frekari verðhækkana. Í öðru lagi fela verðhækkanir á innfluttum vörum í sér skerðingu á raunverulegum lífskjörum þjóðarinnar og engar launahækkanir innanlands geta því bætt þær. Í þriðja lagi er ekki unnt að vega áhrif tekjuöflunar ríkissjóðs með óbeinum sköttum upp með launahækkunum, ef sú aukning opinberrar þjónustu, framkvæmda eða félagslegrar aðstoðar, sem stefnt er að, á að geta átt sér stað. Ástæðulaust er einnig, að stjórnvöld séu knúin til að afla fjár með beinum sköttum, sem hafa ekki áhrif á vísitöluna, fremur en óbeinum sköttum, er ganga inn í vísitöluna. Á því tímabili, sem launajöfnunarbætur koma í stað kaupgreiðslu-vísitölu, verður að reyna að koma á endurbættu kerfi vísitölutrygginga. Að því mun ríkisstjórnin vinna í samráði við samtök launþega og vinnuveitenda. Stefna verður að því, að endurbætt vísitölukerfi feli í sér þá tryggingu fyrir launþega, einkum þá sem lægst eru launaðir, að kjör þeirra versni ekki á samningstímabilinu. Eftir því sem tök eru á, verður að komast hjá þeim skaðlegu verðbólguáhrifum, sem fylgt hafa vísitölukerfinu. Í þessu sambandi verður einnig að taka inn í myndina athugun á verðlagningu búvöru og tengsl hennar við vísitöluna.

Kjarasamningar hér á landi hafa verið gerðir til styttri tíma en yfirleitt tíðkast í nágrannalöndum. Einnig hefur skort mikið á, að kjarasamningar fylgdust að í tíma, og mikils misræmis hefur gætt í samningum einstakra starfshópa. Allt hefur þetta leitt til óróa á vinnumarkaði, stuðlað að verðbólguþróun og valdið misrétti á milli launþegahópa, ekki síst gagnvart þeim, sem lágt eru launaðir og veika aðstöðu hafa á vinnumarkaðinum. Það er brýnt úrlausnarefni samtaka launþega og vinnuveitenda að koma á starfsháttum í þessu efni, sem eru í betra samræmi við hagsmuni þeirra sjálfra og þjóðfélagsins alls en þeir starfshættir, sem tíðkast hafa. Samstarfsnefnd ASÍ og vinnuveitenda mun þegar hafa hafa rætt um endurbætur á þessu sviði, annars vegar einkum að því er varðar aðdraganda samningsgerðar, uppsagnarfresti og kröfugerðir og hins vegar vinnubrögð í tengslum við sáttatilraunir, stöðu og starf sáttasemjara, og mun ríkisstj. veita að sínu leyti atbeina til nauðsynlegra breytinga.

Ríkisstj. hyggst vinna að nýrri skipan kjaramála með umbótum í skatta- og tryggingamálum:

Í fyrsta lagi er áformað að leggja ekki tekjuskatt á almennar launatekjur. Þetta þýðir t.d., að hjón með tvö börn á framfæri greiddu að jafnaði ekki tekjuskatt af 1100 þús. kr. brúttótekjum þessa árs eða sem svarar til 830 þús. kr. nettótekna.

Í öðru lagi er stefnt að sameiningu tekjuskatts og helstu bóta almannatrygginga. Meginröksemdir fyrir samhæfingu og samræmingu tekjuskatts og tryggingabóta eru tvær. Annars vegar er með einu samfelldu kerfi auðveldara að ná með markvissum hætti þeim tekjujöfnunarmarkmiðum, sem að er stefnt. Hins vegar felur sameining í sér einföldun í framkvæmd, bæði fyrir almenning og hið opinbera, og gæti án efa leitt til samdráttar í ríkisbákninu. Hið nýja tekjujöfnunarkerfi mun tryggja þjóðfélagsþegnum lágmarkstekjur. Fyrsta skrefið í þessa átt, verður sameining fjölskyldubóta og tekjuskatts. Verður tekið til athugunar, hvort unnt er að framkvæma þá breytingu strax á þessum vetri.

Í fjárlagafrv. næsta árs er gert ráð fyrir 500 millj. kr. lækkun tekjuskatts vegna þessarar endurskoðunar skatta- og tryggingakerfis, sem kæmi til framkvæmda með því að hækka enn fjölskyldubætur, persónufrádrátt eða breyta skattstiga, eins og fram kom í viðræðum ríkisstj. við aðila vinnumarkaðarins. Í kjölfar þessa verður sameining tekjuskatts og ýmissa bóta lífeyristrygginga könnuð.

Helsta vandamálið við undirbúning hins nýja samræmda skatt- og tryggingakerfis er, hvernig haga skuli endurgreiðslum til þeirra, sem hafa lægri tekjur til skatts en hækkuðum persónufrádrætti nemur. Gagnrýni hefur komið fram vegna skattafsláttarkerfisins, sem tekið var upp við álagningu skatta á þessu ári, og þarf að ráða bót á þeim annmörkum. Ekki er rétt, að þeir, sem hafa lágar tekjur til skatts vegna afskrifta og annarra hliðstæðra ástæðna, njóti endurgreiðslna.

Í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins hafa málefni lífeyrissjóða og lífeyrisþega verið ofarlega á dagskrá. Flestum er ljóst, að mikið misræmi er á milli stöðu lífeyrisþega eftir því; hvort sjóðir þeirra eru verðtryggðir eða ekki, og nauðsynlegt er að leiðrétta þetta misræmi að því marki sem unnt er svo og að samræma og tryggja kjör aldraðra og öryrkja.

Áður hefur verið til umræðu einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn, en sú leið fæli í sér samsteypu núverandi ellitrygginga og meira en 100 lífeyrissjóða. En sjálfsstjórn lífeyrissjóðanna og óskir lífeyrisþega um bein tengsl við sjóði sina valda því, að þessi leið er tapast æskileg. En nauðsynlegt er að setja rammalöggjöf um starfshætti lífeyrissjóðanna, einkum hvernig haga skuli ávöxtun og verðtryggingu lífeyris og útlána. Jafnframt kemur til greina að beita almennu tekjujöfnunarkerfi og lágmarkstekjutryggingu elli- og örorkulífeyrisþega til jöfnunar á stöðu þeirra.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er áhersla lögð á, að jöfnun húsnæðiskostnaðar og aðstöðu við öflun húsnæðis verði þáttur í kjaramálum. Húsnæðiskostnaður fjölskyldna skiptir oft mestu máli um afkomu þeirra. Af þessum ástæðum er öll viðleitni til að jafna þennan kostnað jafnframt skref til raunhæfra kjarabóta. Á verðbólgutímum standa þær fjölskyldur höllum fæti, sem eiga eftir að koma þaki yfir höfuð sér. Og hinir, sem nýfluttir eru inn í eigið húsnæði, eiga yfirleitt í miklum erfiðleikum með að afla lánsfjár til að brúa síðasta bilið. Þótt verðbólgan sé talin auðvelda mörgum afborganir lána, þá torveldar hún fleirum að hefjast handa.

Auk öflugs almenns lánakerfis til íbúðabygginga hljóta ríki og sveitarfélög einnig að stuðla sérstaklega að því, að byggðar verði íbúðir til sölu til ungs fólks og tekjulágs með hagstæðum kjörum. Jafnframt verður starfsemi byggingarfélaga verkamanna studd. Og loks má minnast þess, að nokkur sveitarfélög, þar sem húsnæðisskortur ríkir, hafa byrjað byggingu leiguíbúða í samræmi við fyrirheit ríkisins um fjármögnun framkvæmdanna.

Ríkisstj. hefur átt margar viðræður við flest stærstu hagsmunasamtökin, sem talin eru til svonefndra aðila vinnumarkaðarins, og haft við þá náið samráð. Erfitt verður að finna slíku samráði fast form, sem ekki verður of þungt í vöfum, en ljóst er, að t.d. samstarfsnefnd ASÍ og vinnuveitenda er eðlilegur samráðsaðili. Enn fremur er athugandi, hvort sameiginlegir fundir með formönnum helstu hagsmunasamtaka og ráðherrum gætu ekki tryggt upplýsingamiðlun og nauðsynleg skoðanaskipti, er síðan gæfu tilefni til samráðs um úrlausn afmarkaðra vandamála.

Ríkisstj. hefur áhyggjur af vexti ríkisbáknsins og áformar að hafa öfluga stjórn á hvers konar opinberri starfsemi. Það sjónarmið mun sitja í fyrirrúmi, að ríkisútgjöld vaxi að jafnaði ekki hraðar en þjóðartekjur. Hafa verður þó hugfast, að stjórnvöld munu beita ríkisfjármálum í sveiflujöfnunarskyni, og geta því ríkisútgjöld aukist hraðar en þjóðartekjur, þegar illa árar, en hægar þegar árferði er gott. Leitast verður við að bæta áætlanir ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja og herða aðhald og auka eftirlit með útgjaldaáformum og útgjaldaþróun þeirra. Þá verður kannað, hvort verðlagning opinberrar þjónustu er raunhæf og hvaða leiðir séu vænlegastar til að tryggja öllum slíka þjónustu, sem á henni þurfa að halda, um leið og þess er gætt, að verðmæti fari ekki í súginn.

Áformaðar eru ýmsar endurbætur á tekjuöflun ríkisins. Stefnt er að einfaldari og ódýrari skattheimtu og hækkun skattstofna og afsláttarliða. Stefnt verður að staðgreiðslukerfi skatta og við það miðað, að skattgreiðslur fari fram, sem næst þeirri stundu, sem teknanna er aflað. Oft er þetta til hagræðingar bæði fyrir greiðanda og móttakanda, en einnig er um réttlætismál að ræða, þar sem með þessu móti næðist til skattgreiðenda, sem ella slyppu að einhverju eða öllu leyti við greiðslur. Loks er þess að geta, að áformað er að taka sem fyrst upp virðisaukaskatt í stað söluskatts.

Ríkisstj. hefur í hyggju að endurskipuleggja lánastarfsemina í landinu. Stefnt verður að því, að þróun lánsfjármarkaðarins verði stjórnað í ríkara mæli en hingað til með sveigjanlegri notkun vaxta og verðtryggingar. Áformað er, að fyrir árslok verði gerð áætlun um heildarskipan útlána fjárfestingarsjóða og fjármagnsöflun. Jafnframt stendur nú yfir enn frekari endurskoðun á útlánakjörum en þegar hefur verið gerð.

Mikilvægt er að draga skýrari línu en hingað til milli almennrar lánastarfsemi annars vegar, þar sem eðlilegast er að láta lánskjörin mótast af markaðsaðstæðum, og félagslegrar lánastarfsemi hins vegar, þar sem lánskjör yrðu opinskátt bætt með skatttekjum.

S.l. 35 ár hefur verið hér á landi verðlagseftirlit, sem falið hefur í sér bein afskipti af verðlagningu í verslun, iðnaði og þjónustu. Slíkt eftirlit tíðkaðist í flestum löndum á styrjaldarárunum, en var alls staðar afnumið á árunum eftir styrjöldina nema hér á landi, þar sem því hefur verið haldið áfram í lítt breyttri mynd fram á þennan dag. Þetta verðlagseftirlit hefur alls ekki megnað að halda verðbólgunni í skefjum, sem þó átti að heita höfuðmarkmið þess. Kerfið hefur því ekki þjónað þeim tilgangi, sem til var ætlast. Það er því jafnmikið hagsmunamál launþega, neytenda, iðnaðar og verslunar, að frá þessu kerfi sé horfið. Í stað þess verður að koma ný löggjöf um verðmyndun, viðskiptahætti og verðgæslu í líkingu við þá, sem tíðkast í öðrum löndum og stefnir til almenns eftirlits neytenda með viðskiptaháttum, örvunar heilbrigðrar samkeppni og eðlilegrar verðmyndunar. Slík löggjöf verður nú undirbúin í samráði við samtök launþega og neytenda annars vegar og samtök verslunar og iðnaðar hins vegar.

Þótt við íslendingar séum fáir og búum í viðáttumiklu landi viljum við byggja og nýta landið allt. Efling Byggðasjóðs er nauðsynleg forsenda þess, að stórátak verði unnið í málefnum strjálbýlisins. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1975 er gert ráð fyrir, að 2% af útgjöldum skv. því eða samtals 877 millj. kr., renni í Byggðasjóð. Auk þess hefur sjóðurinn svo yfir eigin fé að ráða.

Miklu varðar, að með stóreflingu Byggðasjóðs verði unnt að fjármagna framkvæmdir, er sérstaklega bæta samgöngur og stuðla að umbótum í félags-, heilbrigðis-, mennta- og atvinnumálum strjálbýlisins. Lánastarfsemi Byggðasjóðs hlýtur í verulegum mæli að beinast til eflingar atvinnurekstrar, en á ekki að fjármagna taprekstur, heldur búa svo í haginn strax í upphafi, að atvinnureksturinn úti á landsbyggðinni standi traustum fótum fjárhagslega og skili þjóðarbúinu fljótt arði.

Nauðsynlegt er að skapa skilyrði fyrir þjónustustöðvar í byggðakjörnum og flytja ákvarðanir, afgreiðslu og úrlausnir mála út á landsbyggðina í eins ríkum mæli og unnt er. Fljótvirkasta aðferðin til þess er, að sveitarfélögin fái aukin verkefni, sem ríkisvaldið hefur nú með höndum, og ákveða réttarstöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga með það í huga. Um leið og sveitarfélögum eru falin aukin verkefni, verður að endurskoða fjárhagslegan grundvöll þeirra til þess að tryggja sjálfstæði sveitarfélaga og framkvæmdagetu.

Hafin er endurskoðun löggjafar um Framkvæmdastofnun ríkisins, og verður þar með mótuð heildarlöggjöf um málefni Byggðasjóðs og um almenna áætlanagerð.

Stórbrotin, en viðkvæm náttúra Íslands er einn dýrmætasti fjársjóður landsmanna. Beita þarf vísindalegum vinnubrögðum til að varðveita þessa eign, jafnframt því sem náttúruauðlindir landsins verði nýttar í þágu þjóðarinnar allrar.

Ríkisstj. leggur áherslu á aukinn hraða í virkjun íslenskra orkugjafa, bæði til iðnvæðingar og í því skyni að gera íslendinga óháðari en ella innfluttri orku. Framkvæmdir til nýtingar innlendra orkulinda hljóta að hafa algjöran forgang. Viðræðum við orkuöflunaraðila um að hraða stórvirkjunum og áætlanagerð um virkjun vatns- og varmaorku landsins eru nú á byrjunarstigi.

Ýmsar framkvæmdir eru strax hafnar eða í undirbúningi, sem tryggja munu landshlutum, er eiga við orkuskort að búa, næga raforku.

Áformað er að koma upp hitaveitum, þar sem aðstæður leyfa, en tryggja annars staðar sem fyrst raforku til húshitunar. Í þessu sambandi er hafinn undirbúningur að stofnun og rekstri hitaveitu fyrir alla þéttbýliskjarna á Reykjanesi.

Skipulag, stjórn og eignaraðild orkuöflunar- og dreifingarfyrirtækja er nú í endurskoðun og er stefnt að auknum áhrifum strjálbýlisins og sveitarfélaga á stjórn slíkra fyrirtækja.

Hafréttarmálefni verða ofarlega á baugi á þessum vetri. Stefnan á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er skýr. Meginatriði hennar felst í stuðningi við 12 mílna landhelgi og 200 mílna efnahagslögsögu. Íslendingar eru fylgjandi því, að alþjóðahafsbotnssvæðið lúti sterkri stjórn og millivegur verði farinn varðandi yfirráð strandríkja yfir hafsbotninum utan 200 mílna efnahagslögsögu. Þá eru íslendingar fylgjandi samvinnu um verndun fiskstofna í hafinu utan lögsögu strandríkja og vilja að settar verði víðtækar og fastmótaðar reglur um varnir gegn mengun sjávar.

Náist ekki heildarsamkomulag á hafréttarráðstefnunni, er það mjög mikilvægt fyrir okkur íslendinga að fá skjalfestan stuðning sem flestra ríkja við viðtæka lögsögu strandríkis. Sendinefnd Íslands á ráðstefnunni mundi þá vinna að því og á þann hátt styrkja grundvöllinn fyrir einhliða aðgerðir fari ráðstefnan út um þúfur.

Ríkisstj. lýsti því yfir í stefnuyfirlýsingu sinni, að hún ætlaði að fylgja fram ályktun Alþ. frá 15. febr. 1972 um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 mílur. Samið hefur verið við breta. Mikill áhugi er af íslendinga hálfu að leysa fiskveiðideiluna við vestur-þjóðverja. Embættismannanefnd hefur nú átt viðræður við fulltrúa vesturþýsku ríkisstj. og eru niðurstöður þeirra viðræðna nú til athugunar hjá ríkisstj. Verður öllum þingflokkum afhent frásögn af viðræðunum með tilheyrandi gögnum, og verður engin ákvörðun tekin án fulls samráðs við alla þingflokka.

Stefna ríkisstj. er sú að færa fiskveiðilögsögu Íslands út í 200 mílur á árinu 1975. Útfærslan krefst vandlegs undirbúnings. T.d. er enn óljóst um ýmis atriði varðandi markalínur milli landa eða eyja, sem óbyggðar eru, eins og Rockall, eða lítt byggðar, eins og Jan Mayen. Munu þessi mál skýrast á framhaldsfundi hafréttarráðstefnunnar í Genf, sem hefst 17. mars n. k.

Útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur á næsta ári er lokamarkið í þeirri viðleitni og stefnu íslendinga, sem mörkuð var með landgrunnslögunum frá 1948, og lokasigur í baráttunni fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar.

Við framkvæmd utanríkisstefnu sinnar mun ríkisstj. leggja áherslu á þátttöku Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna, samstarf Norðurlanda, varnarsamstarf vestrænna ríkja, samstarf þjóða Evrópu og þátttöku Íslands í þeim aðgerðum, sem ætlað er að bæta sambúð austurs og vesturs. Þá styður ríkisstj. eindregið alla viðleitni til að vernda mannréttindi, auðlindir og umhverfi með alþjóðlegri samstöðu.

Þróun alþjóðamála í okkar heimshluta hefur undanfarin ár einkennst af viðleitni ríkjanna í austri og vestri til að minnka spennuna í samskiptum sínum og bæta sambúðina milli ólíkra stjórnkerfa. Árangur þessarar viðleitni er ekki kominn í ljós sem skyldi, þótt andrúmsloftið hafi breyst.

Við stöndum á þeim tímamótum nú, að verulega reynir á samstarfsvilja ríkjanna í austri og vestri. Samningaviðræðurnar hafa leitt í ljós hver ágreiningurinn er, en eftir er að jafna hann.

Markmið Atlantshafsbandalagsríkjanna í viðræðunum við ríkin í austri er skýrt. Þau vilja efla friðinn með því að draga úr spennunni. Leiðin að markmiðinu hefur einnig verið mótuð. Allur samdráttur herafla skal vera gagnkvæmur hjá báðum aðilum. Að öðrum kosti raskast ríkjandi jafnvægi, og það gæti leitt til hættuástands. Öll hlýtur okkur að dreyma um þá framtíð, að ekki verði lengur nauðsynlegt að tryggja friðinn með vopnum. Sú framtíðarsýn verður ekki að veruleika, ef við röskum því friðarkerfi, sem við nú búum við.

Í stefnuyfirlýsingu sinni lýsir ríkisstj. yfir stuðningi við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Þar segir jafnframt, að viðræðum við bandaríkjamenn um fyrirkomulag varnarmálanna skuli haldið áfram með það fyrir augum, að Keflavíkurstöðin geti gegnt hlutverki sínu í samræmi við öryggishagsmuni Íslands á hverjum tíma. Framhaldsviðræðurnar fóru fram í Washington 26. sept. s.l., og utanrrh. náði samkomulagi við bandaríkjastjórn um ýmsar breytingar á framkvæmd varnarsamningsins. Þetta samkomulag hefur nú verið formlega staðfest og endurskoðuninni skv. 7. gr. varnarsamningsins er þar með lokið.

Ákveðið hefur verið, að varnarliðsmönnum verði fækkað um 42 menn, en þeir hafa einkum verið bundnir við störf, sem ekki eru hernaðarlegs eðlis. Varnarliðið mun aðstoða við að þjálfa íslendinga til að taka við þessum störfum. Þá hefur einnig verið ákveðið, að allir varnarliðsmenn verði búsettir á vallarsvæðinu, svo fljótt sem auðið er, og munu bandaríkjamenn byggja íbúðarhúsnæði í þessu skyni fyrir varnarliðsmenn á næstu þremur árum. Aðskilja skal almenna flugstarfsemi frá varnarstöðinni, og munu bandaríkjamenn taka þátt í þeim kostnaði, er af því hlýst, sem og almennum endurbótum á Keflavíkurflugvelli. Verður þess að sjálfsögðu gætt, að framkvæmdirnar leiði ekki til óæskilegra þensluáhrifa.

Ríkisstj. mun hafa öryggismálin til stöðugrar athugunar og fagnar öllum umræðum um utanríkis- og varnarmál á Alþ. því að aldrei verður nægilega oft endurtekið, hve íslendingum er nauðsynlegt að halda uppi stöðugri athugun á öryggishagsmunum sinum og stöðu sinni í heiminum.

Ég vil ekki láta undir höfuð leggjast að minna á nauðsyn þess, að við eigum greiðan aðgang að evrópskum mörkuðum fyrir framleiðsluvörur okkar, svo að við séum ekki bundin of fáum viðskiptalöndum. Í því tilliti er brýnt, að viðskiptasamningur okkar við Efnahagsbandalagið öðlist fullt gildi, svo að sala sjávarafurða strandi ekki á tollmúrum þess.

Herra forseti. Stefnuræðan hefur að þessu sinni einkum fjallað um fjóra meginmálaflokka: efnahags- og kjaramál, eflingu atvinnulífsins í heild, hafréttarmálefni og utanríkismál með sérstöku tilliti til varnarmála. Verkefni ríkisstj. eru að sjálfsögðu mun fleiri. Kemur það m.a. fram á skrá þeirri, sem fylgir þessari ræðu, en þar er greint frá þeim lagafrv., sem einstök ráðuneyti hafa í undirbúningi og verða m.a. væntanlega lögð fyrir þetta þing.

Ásamt traustum efnahag er líkamlegt og andlegt atgervi þjóðarinnar forsenda allra framfara. Eigi þarf að fara mörgum orðum um nauðsyn þess, að heilsugæsla, hverju nafni sem nefnist, fullnægi kröfum tímans. Sú staðreynd blasir við, að allir íbúar landsins sitja ekki við sama borð í þeim efnum. Úr því þarf að bæta eftir föngum. Ljóst er, að vart verður unnt að veita jafnmikið fjármagn til þessara mála og æskilegast verður talið, og því þarf að nýta fjárveitingar sem best. Að því mun ríkisstj. vinna.

Sjálfstæði Íslands sækir afl sitt til íslenskrar menningar. Án eigin menningararfs og menningarlífs væri vegur íslendinga lítill í samfélagi þjóðanna. Vísindi og menntun eru hornsteinar nútímaþjóðfélags. Menntun hefur í senn gildi fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið. Áhersla verður m.a. sérstaklega lögð á tengsl skólastarfs og atvinnulífs, verk- og tæknimenntun og fræðslu fullorðinna.

Orð eru til alls fyrst. En stefna án viljafestu til að framkvæma hana má sín lítils. Nauðsynlegt er, að hver og einn leggi sitt af mörkum, svo að góð áform nái fram að ganga.

Við höfum lengi talað um böl verðbólgunnar og nauðsyn þess að bæta kjör hinna lakast settu. Nú er sá prófsteinn fyrir okkur lagður, hvort okkur sé alvara.

Auðvitað eru hagsmunaátök í þjóðfélagi okkar og ágreiningur um skiptingu þjóðartekna. En erum við menn til þess að komast hjá því, að átök verði að árekstrum? Getum við jafnað ágreining með friðsamlegum hætti? Höfum við biðlund til þess að ná viðspyrnu gegn verðbólgu? Ef ekki, þá er sjálfsagt að hætta að tala um böl verðbólgunnar og kjarabót til hinna lakast settu.

Miklir erfiðleikar í efnahagsmálum steðja nú að um heim allan. Íslendingar eiga einnig við sína erfiðleika að stríða. Sameinuð þjóð getur sigrast á slíkum erfiðleikum, en ekki sundruð þjóð. Árangur getur ekki náðst, ef stétt stendur gegn stétt, launþegar gegn fyrirtækjum, þéttbýli gegn strjálbýli, ríki gegn sveitarfélögum.

Ríkisstj. nýtur viðtæks stuðnings meðal þjóðarinnar og mikils meiri hluta á Alþ. Hún hefur ekki í huga að beita afli sínu til sundrungar. Ríkisstj. vill hvetja hagsmunasamtök í þjóðfélaginu og flokka í stjórn og stjórnarandstöðu til samstarfs, svo að við getum með sameinuðu átaki sigrast á þeim vanda, sem við okkur blasir. — Þökk fyrir áheyrnina.