09.12.1974
Efri deild: 16. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

84. mál, útvarpslög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég verð að doka aðeins við í ræðustól þangað til hæstv. menntmrh. kemur inn, því að til hans ætla ég að beina orðum mínum, þó að ég geti verið stuttorður og með því móti tekið algjörlega undir orð síðasta ræðumanns.

Ég vil byrja með því að lýsa andstöðu minni við þetta frv. og undrast það að jafnágætur maður og hæstv. menntmrh. er skuli fást til að flytja frv. Það má vera mikil sú óánægja, sem ríkir innan Framsfl., til að knýja hann til þessara gjörða, enda valdi hann það ráð, sem skynsamlegt var, að hafa sem fæst orð um frv.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og studdi þá þróun, þegar l. var breytt 1971, að gera þessar stofnanir sem mest óháðar breytingu á pólitísku valdi í landinu. Ég tel, að þá hafi verið tekið lítið skref í þá áttina, en hefði mátt gjarnan ganga lengra.

Í aths. með frv. segir að það eigi að tryggja að skipan útvarpsráðs, sem ber að gæta fyllstu óhlutdrægni, væri jafnan í samræmi við skipan Alþ. Ég spyr einfaldlega: Hefði tekist að mynda vinstri stjórn, en ekki þá hæstv. ríkisstj. sem nú situr, hefði svona frv. séð dagsins ljós þá? Svari nú hver fyrir sig. Er þá verið að breyta samkv. vilja Alþ. og þess meiri hluta sem situr á Alþ.? Nei, það er verið að breyta í þágu núv. ríkisstj. Ef til vill er frumhvötin til þess óánægja í öðrum stjórnarflokknum og tækifæri gripið til að hagnýta sér þetta sem átyllu.

Við getum deilt um það, hvort þessir ágætu menn hafa staðið sig eða ekki. Ég ætla ekki að leggja nokkurn dóm á það. Sjálfsagt gæti komið inn í þessi lög eins og önnur lög að það megi reka þá fyrirvaralaust, enda hefur slíkt skeð í sjálfu menntmrn., að menn eru reknir fyrirvaralaust og ekki gerð opinber grein fyrir því. Slíkt mun vera fátítt á Íslandi, að ríkisstarfsmenn séu reknir, og væri fróðlegt að fá slíkt vel upplýst. En e.t.v. er nauðsynlegt orðið á þeim erfiðu og vondu tímum, sem ganga yfir þjóðina, að fækka nú allhressilega og geta sett þak á fjárlögin í því skyni.

Ef við viljum að þessir miklu fréttamiðlar, sem hæði útvarp og sjónvarp eru, starfi sem best og skili hlutverki sínu sem best, þá tel ég persónulega að í stjórn þessarar stofnunar eigi að veljast menn sem mest óháðir pólitísku valdi í landinu. Við ráðum alls ekki yfir því með hvaða hætti Alþ. er skipað hverju sinni. Kosningar fara fram venjulega á fjögurra ára fresti, en geta farið fram með styttra millibili. Hins vegar má setja strangar reglur um að þessir menn skili starfi sínu vel og séu meira en eftirlitsmenn með dagskrá, heldur einnig að nokkrum hluta stjórnendur, í samráði þá við framkvæmdastjóra viðkomandi deilda.

Ég tel því hér stigið spor aftur á bak, í andstöðu við þá hreyfingu, sem var uppí 1971, og ég harma það og lít gjörsamlega fram hjá því hvaða menn hafa setið í ráðinu undanfarið. Þeirra verk hljóta að vera umdeild eins og allra manna verk. Sumir segja að þeir hafi staðið sig þokkalega, aðrir segja mjög miður, en á það legg ég engan dóm. Ég legg aðeins andstöðu mína gagnvart þeirri hugsun, sem hér kemur fram, að það eigi að hlaupa upp við hverjar kosningar eftir að Alþ. kemur saman og kjósa nýtt útvarpsráð. Það tel ég ekki rétt, vegna þess að mér segir svo hugur um, eins og ég sagði áðan, að ekki hefði verið staðið í þessu ef önnur ríkisstj. hefði verið mynduð, og á ég þá við vinstri stjórn.

Langeðlilegast væri að þetta frv. sofnaði núna í jólaönninni sem fram undan er, því að lítið hefur verið starfað í n. undanfarið, og væri langbest að sá háttur yrði á varðandi þetta frv. Ég sé enga sérstaka þörf fyrir þessa breyt. og engin heilbrigð rök fyrir að taka þetta skref aftur á bak. Ég held að mikill meiri hluti þjóðarinnar sé á því að þessar stofnanir eigi að starfa sem óháðast öllu pólitísku valdi, og ég er þeirri skoðun fullkomlega sammála. Okkur kann að greina á með hvaða hætti við tryggjum það, en til þess erum við hér á Alþ. að fjalla um slíkt og bæta úr. En hér er tekið skref aftur á bak að mínu mati og þess vegna lýsi ég andstöðu við frv.