09.12.1974
Efri deild: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

83. mál, lántökuheimildir erlendis

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Erlend lántaka ríkissjóðs hefur verið til athugunar undanfarna mánuði sem líður í nauðsynlegri fjármögnun framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar þessa árs. Fyrir hönd ríkisstj. hefur Seðlabankinn fylgst með þróun erlends lánamarkaðar og telur nú, að tímabært sé að stofna til ráðgerðrar lántöku.

Eins og kunnugt er hafa lánamarkaðir utanlands verið ákaflega þröngir um alllangt skeið. Eru margar ástæður fyrir þessu, ekki síst olíukreppan. Aðaleinkenni lánamarkaðarins hafa verið mjög háir vextir, tregða til að lána nema til skamms tíma, jafnframt því sem framboð almennt á lánsfé hefur verið lítið.

Ríkisstj. hefur nú ákveðið að ráðast í erlenda lántöku og flytur það frv., sem hér liggur fyrir, um lántökuheimildir erlendis. Eftir gaumgæfilega athugun á lánamarkaðinum hefur orðið niðurstaðan að reyna nú lánsútboð allt að 15 millj. Evrópureikningseininga, sem svarar til 2120 millj. kr. Er lánið boðið út á þeim grundvelli, að lánstíminn geti verið 6–20 ár, en um vexti og útboðsgengi verði að fara eftir því sem markaðurinn segir fyrir um. Undanfarið hafa svipuð lán verið með um 10% vöxtum og útboðsgengi um eða rétt innan við 100%.

Er ráðgert að lánið verði tekið í þessum mánuði. Nokkrar bankastofnanir í Englandi, Frakklandi, Belgíu, Luxemborg og Kuwait hafa tekið að sér að annast lánsútboðið. Er hér um að ræða lántöku hliðstæða þeirri sem ríkissjóður var með fyrir rúmlega einu ári á þessum sama markaði og nam 12 millj. Evrópureikningseiningum. Vegna óstöðugleika í gengismálum hefur það tíðkast æ meir í seinni tíð að lánsútboð á alþjóðamörkuðum eru gerð í reikningseiningum, sem eru tiltekinn fjöldi gjaldmiðla, og er gert til að draga úr áhrifum gengisbreytinga. Evrópureikningseiningin hefur einna mest verið notuð í þessu sambandi og byggist á gjaldmiðlum Efnahagsbandalagslandanna níu. Skuldbinding lántaka breytist, ef gengi allra gjaldmiðlanna hefur breyst og á sama tíma hefur meiri hluti þeirra breyst til sömu áttar, en skuldbinding lántaka fylgir breyting þess gjaldmiðils sem minnst hefur breyst.

Ráðstöfun lánsfjárins er rædd ítarlega í frv. og aths. þess. Lántökuheimilda hefur áður verið aflað fyrir flestum liðunum, en leitað er hér sérstakrar heildarheimildar sem er beinlínís sniðin fyrir ráðgerða lántöku.

Ég legg á það áherslu, að hv. þm. átti sig á því, að ekki er um nýtt fé að ræða til framkvæmda. Hefur Seðlabankinn og ríkissjóður veitt bráðabirgðalán áður fyrir flestum þeim framkvæmdum, sem um er að ræða, og er gerð grein fyrir því í frv. Gert er ráð fyrir 800 millj. kr. endurláni til Framkvæmdasjóðs vegna fjáröflunar- og framkvæmdaáætlunar á þessu ári. Það skal tekið fram að vegna hugsanlegs erlends láns sjóðsins er ekki ólíklegt að erlend endurlán til sjóðsins verði 200 millj. kr. lægri en allt að 600 millj. kr. Fari svo kemur að sjálfsögðu til kasta Alþ. að ráðstafa þessum mismun. Sá almenni fyrirvari fylgir þessu máli, að svo getur farið að í fyrstu umferð verði hið erlenda lán lægra, hugsanlega 12 millj. einingar í stað 15, og fer það eftir markaðsaðstæðum. Verður ráðstöfun andvirðisins að breytast hlutfallslega þar til fullri fjárhæð er náð.

Að öðru leyti vísa ég til efnis frv. Mikið ríður á skjótri afgreiðslu þessa máls í þinginu. Vonast ég til þess að sú n., sem fær þetta frv., svo og hv. þd. sjái sér fært að verða við þeirri beiðni minni að hraða afgreiðslu málsins, um leið og ég þakka hæstv. forseta fyrir fyrirgreiðslu hans til þess að málið geti í dag komið til 1. umr. í hv. Ed.

Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.