09.12.1974
Efri deild: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

83. mál, lántökuheimildir erlendis

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta frv., en mér þótti athyglisvert að þegar er búið að ráðstafa þessu fjármagni með innanlandslántöku meira og minna og verður því um sáralítið nýtt fjármagn að ræða eða jafnvel ekkert. Í því tilefni datt mér í hug að forvitnast um hvernig liði möguleikum á því að fjármagna væntanlega hitaveitu Suðurnesja sem er alveg á döfinni. Frv. um það mál mun nú vera í burðarliðnum og jafnvel koma innan skamms og sýnilegt er að verulegt fjármagn þarf að útvega til þess að framkvæmdir geti hafist á næsta ári, eins og allir vona og vilja. Þetta snertir sérstaklega hæstv, fjmrh. og leikur mér þess vegna forvitni á að vita hvaða möguleika við höfum til að fjármagna væntanlega hitaveitu, þar sem hann upplýsir að mjög erfitt sé að fá nú lán á erlendum lánamarkaði. Einnig eru ýmsar aðrar stórframkvæmdir á döfinni og virðist mér ekki horfa vel um fjármögnun þeirra eftir þessum upplýsingum að dæma.