09.12.1974
Efri deild: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

84. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim umr. sem hér hafa farið fram.

Ég vil fyrst árétta það, sem ég sagði þegar ég mælti fyrir frv., að málið væri ákaflega einfalt, felur það aðeins í sér að nú skuli taka aftur upp þá reglu að kjósa útvarpsráð eftir hverjar alþingiskosningar og með því tryggja það að skipan útvarpsráðs verði jafnan í samræmi við skipan Alþingis á hverjum tíma. Auðvitað getur hún ekki orðið það ævinlega, eins og einhver hv. þm. benti á í ræðu sinni, heldur jafnan, eins og segir í grg.

Hv. síðasta ræðumanni fannst það fullmikið að tala um að útvarpsráð ætti að endurspegla hlutföllin á Alþ. Það getur vel verið að ég hafi látið þessi orð falla, og ég sé að þau voru látin detta í umr. á Alþ. þegar flutt var till. um sams konar breytingu og liggur fyrir í þessu frv. Það fann enginn neitt athugavert við þau þá. En þó að menn ræði þetta aftur á bak og áfram og hvernig sem menn velta fyrir sér orðalaginu, þá fer ekki hjá því að þær nefndir og þau ráð, sem kosin eru hlutfallskosningu á hv. Alþ. og stillt upp til þeirra hlutfallskosninga eins og hér er viðtekin venja, að flokkarnir setja fram sína lista, þá verður náttúrlega ekki hjá því komist, að þau ráð og þær nefndir endurspegli styrkleikahlutföllin á Alþ. hverju sinni.

Ég er eiginlega undrandi yfir því hvað menn eyða mörgum orðum á þetta litla frv. Það hefur verið mjög breytilegt hvernig valið hefur verið til útvarpsráðs frá byrjun, þó að lengstan tímann hafi það verið eins og hér er lagt til að gert verði. Til fróðleiks má aðeins rifja þetta upp með örfáum setningum.

1930 var ákveðið að vissar stofnanir tilnefndu menn í útvarpsráð. Ráðh. skipaði formanninn, en síðan tilnefndu stofnanir eins og Háskóli Íslands, prestastefna og fleiri ágætar stofnanir menn í ráðið. Þetta er 1930. — Svo er fyrsta breytingin, að ég hygg, gerð 1934. Þá fara menn hálfa leið að því fyrirkomulagi, sem seinna varð ofan á, að Alþ. kysi útvarpsráð allt. Þá er tekinn upp sá háttur, að Alþ. kýs þrjá, en félag hlustenda þrjá og ráðh. tilnefnir svo formann. Þetta er 1934. — Svo hygg ég að næsta breyting sé gerð 1939 og þá er ákveðið að kjósa allt útvarpsráðið hlutfallskosningu á Alþ. og þá til þriggja ára. — En 1942 er breyting gerð á sama hátt og nú er lagt til að kosningar skuli fara fram á fyrsta þingi eftir alþingiskosningar. Ég fletti að gamni mínu upp í umr. um þetta frv. þá. Þær eru heldur snautlegar, því að flm. mælti nokkur orð fyrir því í annarri d. og frsm. n. í hinni örfá orð líka, að öðru leyti engar umr. Málið var að vísu ekki afgreitt shlj., en það urðu engar umr. um það og það var afgreitt með miklum meiri hl.

Síðan hefur þessi skipan haldist, þangað til mönnum hugkvæmdist það snjallræði árið 1971, eins og hér hefur verið minnst á, að breyta þessu aftur og ákveða að kosið skyldi á fjögurra ára fresti. Ég álít, að þetta hafi verið fljótræðisverk. Ég álít að hitt sé eðlilegri skipan, sem lengst af hefur verið á höfð, fyrst flokkarnir velja raunverulega með listakjöri hér á Alþ. menn í útvarpsráð, þá sé skipan ráðsins jafnan í samræmi við skipan Alþingis.

Ég er eiginlega svolítið undrandi á því hvað þetta fer fyrir brjóstið á hv. þm. Þeir virðast vera hálfargir yfir þessu og þeir segja að það hljóti eitthvað ekki gott að vera á bak við þetta og meira að segja að þetta sé beinlínis fráleitt, stefna að því að skipan þessa ráðs skuli vera með sama hætti og t.d. menntamálaráðs, sem er kosið eftir hverjar alþingiskosningar.

Það er hins vegar eðlilegt að menn greini á um þetta eins og flestallt annað. En mér finnst ekki ástæða til þess að ergja sig verulega yfir því. Og við skulum ekkert vera að vefja þetta fyrir okkur. Þetta er ákaflega einfalt, það er bara spurningin um hvort menn vilja taka upp aftur þessa skipan, sem hefur lengst af gilt, eða frá 1943 til 1971, að kjósa eftir hverjar alþingiskosningar, ellegar hafa hinn háttinn á. Það er, eins og ég segi, skiljanlegt, að það séu skiptar skoðanir um þetta, en ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að hafa uppi stóryrði út af þessu frv.